24.02.1930
Neðri deild: 35. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í C-deild Alþingistíðinda. (1391)

137. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Stefánsson:

Mér þykir ekki ástæða til nú að hefja víðtækar umr. út af orðum hv. flm. Það kom ljóst fram í ræðu hans, að höfuðágreiningurinn á milli nefndarhluta í mþn. í tolla- og skattamálum liggur aðallega í einu atriði: þ. e. hvernig skattstiginn verður ákveðinn. Hin önnur atriði, sem á milli ber, eru aðallega stigmunur, þar sem minni hl. vill ganga lengra en meiri hl. í breyt. sínum.

Eins og getið hefir verið um áður, var góð samvinna í mþn. um alla rannsókn viðvíkjandi undirbúningi þessara laga. En leiðir skiptust, þegar kom að því að ákveða skattstigann. Það kom til tals í n. að setja að miklum mun hærri skattstiga og skipta skattinum milli ríkis og sveita. En samkomulagið strandaði á því, hvernig ætti að skipta skattinum. Sveitar- og bæjarfélög hafa engar aðrar verulegar tekjur en tekju- og eignarskatt, sem nefnt er útsvar. Að rýra þennan nær eina tekjustofn marga sveitarfélaga teljum við hvorki réttmætt né hyggilegt. Ríkissjóður er sízt verr settur í þessu efni en sveitarfélögin, þar sem hann (ríkissj.) hefir vald á öllum tekjustofnum, en sveitarfélögin nær að kalla ekki nema á þessum eina. Hinsvegar virtist okkur í meiri hl. full ástæða til að setja fastar reglur um niðurjöfnun útsvaranna. Þau eru nú byggð á niðurjöfnun sveitarstjórna eða niðurjöfnunarnefnda eftir meira og minna handahófsmati. Þetta gat farizt sæmilega eða viðunanlega, á meðan útsvörin voru hóflega há. En síðan þau hækkuðu svo mjög, sem raun er á orðin, er þessi handahófsniðurjöfnun allsendis óviðunandi.

Ég hefi með þessu, sem nú hefir verið sagt, reynt að gera skiljanlegt, hvað það var, sem aðallega skildi á milli nefndarhlutanna.

Það var nokkuð nm það rætt í n. að setja sama skattstiga fyrir félög og einstaklinga. Og skal ég þá í því sambandi geta þess fyrir sjálfan mig, að mér þykir ekki fráleitt að hugsa sér það. En að um þetta gat ekki orðið samkomulag, stafaði fyrst og fremst af því, að það myndi verða til þess að rýra tekjustofn sveitarfélaganna, en að því gátum við meirihlutamennirnir ekki gengið, eins og fyrr hefir verið sagt, og má mín afstaða um þetta skoðast sem einskonar miðlunarafstaða. Annars er ekki að þessu sinni ástæða til að fara frekar út í þetta atriði.

Um hækkun persónufrádráttarins þarf ég ekki margt að segja. Þar er aðeins um stigmun að ræða á milli nefndarhlutanna. Þegar ég mælti fyrir frv. okkar meiri hl., gat ég þess, að persónufrádrátturinn væri að vísu ef til vill of lágur, en okkur þótti ekki fært að hafa hann hærri, til þess að rýra ekki um of tekjuvon ríkissjóðs, og fórum því meðalveg í þessu efni.

Önnur þau atriði, sem eru frábrugðin í frv. minni hl., eru prentuð með breyttu letri, og sé ég ekki ástæðu til að minnast á þau nú. Þau eru öll smávægilegri og ber ekki að skilja þau svo, sem þau séu ágreiningsatriði milli nefndarhlutanna. Þau eru þannig til komin, að flm. bar þau ekki fram í n. fyrr en um það bil, sem n. var að skila af sér frv., og þá var hv. þm. að fara í ferð til kjördæmis sins og hafði því ekki tækifæri til að ræða þær við okkur hina nefndarmennina og lagði það ekki fram öðruvisi en munnlega við formann nefndarinnar. En mér þykir ekki ólíklegt, að meiri hl. n. geti fallizt á ýmsar af þeim till. — Annars vil ég hér geta þess, að hv. flm. hafði áður fallizt á sömu orðun á þessum atriðum flestum, sem er í frv. meiri hl.

Ég hefi gleymt að minnast á eina till., sem ágreiningur varð um milli nefndarhlutanna, en það er frádráttur á varasjóðstillagi samvinnufélaga. Till. meiri hl. má þar skoða sem miðlunartill. milli þeirra manna, sem að frv. standa. En um mína persónulegu skoðun á þessu atriði get ég sagt það, að hún er ekki fjarri því; sem hv. flm. lýsti yfir, að væri sín skoðun. Um þessa till. er auk þess það að segja, sem ég hefi getið um áður, að hún var svo seint fram borin, að ekki var tími til að ræða hana við hv. minni hl. til fullnustu. Þess vegna hefir ekki fullkomlega verið tekin afstaða til hennar í n.

En hvað sem um þetta er, þá er það víst, að till. meiri hl. eru allmikil réttar bót fyrir samvinnufélögin frá því, sem er, þar sem þau eru nú beitt misrétti gagnvart hlutafélögum í þessu efni. Mega þau því betur við una till. meiri hl. en ef þetta verður óbreytt. En ennþá væri þó betra fyrir samvinnufélögin, ef þingið vildi fallast á till. minni hl.