07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í C-deild Alþingistíðinda. (1427)

172. mál, einkasala á tóbaki

Ólafur Thors:

Það er búið að ræða þetta mál svo mikið og upplýsa svo vel helztu atriði þess, að ég skal ekki þreyta hv. þdm. með langri ræðu. Það er ekki mikil von um árangur, þó að borin séu fram sterk rök. Það sést bezt á afgreiðslu síðasta máls (Ríkisrekstur á útvarpi). Þar lágu fyrir skýr og greinileg ummæli frá trúnaðarmönnum ríkisins, sem andmæltu frv. En stjórnarliðið tók ekki tillit til þess. — Um þetta mál verð ég að segja, að það má undarlegt heita, ef menn ætla nú að innleiða aftur einokun á tóbaki, þar sem það er staðreynd, að vörugæðin bötnuðu og verðið lækkaði, en þó hafa aukizt tekjur ríkissjóðs, eftir að hún var af numin.

En ég skal segja eins og ég meina. Ég veit vel, að þetta er ekkert annað en látalæti og skrípaleikur. Þetta mál var borið fram á þingi 1928 og það var aftur borið fram 1925. Í hvorugt skiptið var það látið ganga fram. Það dagaði uppi. Nú enn á seinustu dögum þingsins kemur það til 1. umr. í deildinni, þar sem það er lagt fyrir. Það er auðséð, hvernig það á að fara að þessu sinni. Þó að stjórnarliðið undir forustu hæstv. stj. gangi annars langtum lengra en hreinræktuðustu jafnaðarmannastjórnir í nágrannalöndunum, þá bregður nú svo undarlega við, að enginn úr stjórnarflokknum vill í alvöru, að ríkið taki einkasölu á þessari vöru. Hvers vegna? Það er vegna nánustu samherja og stuðningsmanna hæstv. ríkisstjórnar, þeirra, sem hafa þessa verzlun í höndum sér. Þó að hæstv. stj. þyki gott að geta tekið spón úr aski kaupmanna, þá er öðru máli að gegna, ef hennar indælu tryggu fylgifiskar eiga í hlut. Það eru hv. 2. þm. Reykv. og annar af forustusauðunum eða réttara sagt jafnaðarsauðunum í bæjarstj. Reykjavíkur, sem þessa verzlun reka. Þeir hafa aðaltekjur af henni sjálfir. Þeim hefir verið núið því um nasir. Þess vegna þora þeir ekki annað en látast vera með einkasölu samkv. kenningum sínum. Þeir vita, að öllu er óhætt. Ef stj. hefði verið nokkur alvara, þá hefði hún knúið málið fram á fyrsta þinginu, þegar hún var í meiri hl., heldur en nú á elleftu stundu, þegar dagar hennar fara að verða taldir. Eftir nýjar kosningar, þegar annar flokkur er tekinn við völdum, þá veit hún að einkasalan yrði afnumin. Hún veit, að æfidagar hennar fara að verða fáir.

Vegna þessa þarf ég ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. Enda hafa ýmsir samflokksmenn mínir haldið svo greinilegar og ítarlegar ræður og fært tölur úr landsreikningunum sínu máli til sönnunar, að málið liggur glöggt fyrir. Og þegar engin alvara fylgir þessu frv., læt ég mér í léttu rúmi liggja, hvað gert verður við það hér í Nd. Komist það alla leið til 3. umr. í hv. Ed., þá veit ég að gullkálfur hv. 2. þm. Reykv. baular, þangað til ekki heyrist til einokunarhanans, og málið verður látið daga uppi.