24.03.1930
Neðri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

1. mál, fjárlög 1931

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mér þykir nú gerast þægileg vinnubrögð að moka frá mínum dyrum, jafnótt og kastað er fyrir þær.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði í upphafi ræðu sinnar, að hann ætlaði hvorki að taka að sér hlutverk Flóka eða Þórólfs smjörs við þessar umr., heldur ætlaði hann að taka að sér hlutverk Herjólfs og segja kost og löst.

Mér skildist svo, að hann vildi láta lastið ganga til beggja stóru flokkanna, en hvergi varð ég var við neitt smjör.

Hv. þm. talaði fyrst um Framsóknarflokkinn og stefnu hans í landbúnaðarmálum. Hann leit svo á, að flokkurinn hefði jafnvel gengið of langt í því að bæta aðstöðu landbúnaðarins.

Sem dæmi þessa nefndi hv. þm. það, að Byggingar- og landnámssjóður hefði lánað „planlaust“ til afskekktra býla, sem jafnvel væru alls ekki byggileg. Þetta hygg ég, að sé eigi á rökum reist. Ég held einmitt, að Byggingar- og landnámssjóður láni ekki fé til býla, nema vissa sé fengin fyrir því, að byggð verði áfram á þeim stað. Og það er samkv. anda 1., að þessari reglu sé fylgt.

Um hitt er ég algerlega ósammála hv. þm., að Framsóknarflokkurinn sé kominn of langt í því að styðja hreyfinguna að endurreisn landbúnaðarins. Ég tel þvert á móti aðeins vera komið stutt áleiðis á þessari braut, og ég hygg, að það sem gert hefir verið til að tryggja framtíð landbúnaðarins, séu hinar þörfustu ráðstafanir, sem gerðar hafa verið á Alþingi á síðari árum. Farsæld landbúnaðarins er jafnframt farsæld þjóðarinnar í heild. Ég vil mótmæla þessum ummælum hv. 2. þm. Reykv. sem rakalausum, þótt ég hinsvegar játi, að mér koma þau ekki á óvart frá honum. Hann er oft talinn mesti Reykvíkingurinn í þessari hv. þd., er það ekki eingöngu vegna þess, hve duglegur hann er fyrir kjördæmi sitt, heldur og vegna skoðana sinna almennt.

Önnur ásökun, sem hv. þm. beindi til Framsóknarflokksins, var sú, að hann væri nú tekinn að færast nær íhaldinu, þótt hann hefði fram að þessu verið sanngjarn í ýmsum þurftarmálum verkamanna í kaupstöðunum og í mannúðarmálum yfirleitt. Ef þessi ásökun hv. þm. væri rétt, þá væri hér um mjög alvarlegt mál að ræða, og ástæða fyrir okkur Framsóknarmenn til að athuga vel okkar gang. En ásökunin var ekki réttmæt. Hv. þm. veit það vel, að við erum nú eins og áður reiðubúnir að rétta verkamönnum í kaupstöðunum hjálparhönd í mannúðar- og menningarmálum þeirra. En við erum ekki sósíalistar, og föllumst því t. d. ekki á till. þeirra um þjóðnýtingu atvinnuveganna. Ég man ekki eftir einu einasta dæmi frá þessu þingi né fyrri þingum, sem hv. 2. þm. Reykv. geti nefnt um það, að Framsóknarmenn hafi verið að þokast í íhaldsáttina. Hinsvegar man ég m. a. eftir einu mjög praktísku máli, þar sem við höfum unnið að því í félagi við hv. jafnaðarmenn hér í d., að endurreisa bátaútveginn í kauptúni austanlands, Eskifirði.

Þetta vildi ég segja út af þeim almennu ummælum, sem hv. þm. lét falla til Framsóknarflokksins. Get ég þá vikið að einstökum atriðum, sem hv. þm. vék til mín sérstaklega sem atvmrh.

Það er þá fyrst vegavinnukaupið, sem oft hefir verið hér til umr. á eldhúsdag. Hv. þm. sagði, að ekkert fyrirtæki borgaði eins lágt kaup eins og vegavinna ríkissjóðs. Þetta held ég, að sé mælt af ókunnugleika. Það hefir verið reglan, að ríkissjóður borgaði í vegavinnu sama kaup og sýslusjóðirnir borga við samskonar vinnu. (HG: Sýslusjóðirnar fara eftir ríkissjóði). Þótt svo væri, þá væri fullyrðing hv. 2. þm. Reykv., að ríkissjóður borgi lægst kaup af öllum, ekki rétt. Það er rétt, að til mín komu fulltrúað sama vegavinnukaupið yrði látið gilda um allt land: Ég hefi tekið þetta mál til athugunar og aflað mér upplýsinga um kaupgreiðslur víða um land. Eitt af því, sem þá kom í ljós, var það, að taxtar sjálfra verkalýðsfélaganna eru mjög mismunandi víða um land, t. d. mun lægri í Hafnarfirði, hér rétt við, en hér. Ef lengra er farið verður munurinn þó enn meiri. Meðan sjálf verkamannafélögin halda uppi svo mismunandi kauptöxtum, finnst mér ekki koma til mála, að ríkissjóður fari að ákveða neitt „normal“-kaup um land allt. Annars er það mjög fátt í þessu, sem kemur upp til ráðh. Kaupið á einstökum stöðum er að mestu afráðið af vegamálastjóra og öðrum undirmönnum atvmrn. En ég hefi heyrt vegamálastjóra tala um, að á þessu þurfi að gera einhverjar. breyt.

Þá vítti hv. þm. veitingu prófessorsembættisins í guðfræði, sem ég veitti í forföllum hæstv. dómsmrh. En ég álít, að þótt einhverjir menn hafi rangar skoðanir í stjórnmálum, þá þurfi þeir þar fyrir ekki að vera svo forpestaðir, að þeir geti ekki verið nýtir og góðir menn á einhverjum öðrum sviðum. Það er t. d. svo um þann hv. þm. (MJ), sem fékk þetta embætti, að þótt það sé vitanlega rangt hjá honum, að eldhúsumr. sé góð heimild sagnfræðilega, þá álít ég hann geta rannsakað og dæmt af fullri óhlutdrægni t. d. um það, sem gerðist á dögum Páls postula. Við, sem fáumst við stjórnmál, eigum ekki að reyna að fá fólkið í landinu til að álíta, að þótt við höfum þar mismunandi skoðanir og berjumst hver fyrir sinni, þá þurfum við að fordæma allt hver í annars fari. Við ættum að stofna með okkur einskonar verkamannasamband, til að vernda þá sameiginlegu hagsmuni okkar, að láta ekki toga æruna hver af öðrum og okkur öllum sameiginlega.

Næst vék hv. þm. að afsetningu vitavarðarins á Reykjanesi. Þessi maður starfaði þarna við einn helzta vita landsins, þar sem fram hjá fara þúsundir skipa á hverju ári. Ef óregla er um gæzluna á slíkum stað, má enga linkind sýna. Þessi vitavörður hefir ræktað mikið kringum bústað sinn á Reykjanesi, og það gæti t. d. komið til athugunar; að hann fengi verðlaun fyrir það úr styrktarsjóði Kristjáns konungs IX. En þó að ég sé hlynntur jarðabótum, þá getur ræktunaráhugi vitavarðarins ekki hjálpað honum, ef hann gætir ekki vitans. (HV: Hvað segja vottorðin um það?). Ég skal hér lesa upp það vottorð, sem vitavörðurinn hefir fengið frá yfirmanni sínum, vitamálastjóranum, manni, sem stendur utan við alla stjórnmálaflokka, og áreiðanlega telur það skyldu sína framar öllu öðru að sjá um, að vitamálin séu sem bezt rækt. (HV: Vitavörðurinn hefir enga vanrækslu sýnt eftir 1928, eftir þessu bréfi vitamálastjóra). Það mun nú sýna sig, er ég les bréfið upp. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vitamálastjórinn.

Reykjavík, 27. febr. 1930.

Eins og hinu háa ráðuneyti mun vera kunnugt, var Ólafur Sveinsson skipaður vitavörður á Reykjanesi frá 1. júní 1925. Hann lagði fram með umsókn sinni góð meðmæli frá málsmetandi mönnum. Hann var talinn reglumaður (Good-Templari) og mesti dugnaðarmaður. Eftir að hann nú hefir stundað vitann í hátt á 5. ár, hefir það komið í ljós, að margt af því, sem talið var honum til ágætis, var alveg rétt, en því miður hefir hann brugðizt illa á ýmsum sviðum, og þá sérstaklega á þeim sviðum, sem mestu varðar í þessari ábyrgðarmiklu stöðu, reglusemi, og yfirleitt nærgætni við vitagæzluna. Auk þess, að hann virðist hafa meiri áhuga á að rækta land, koma upp sundlaug og þesskonar — sem að vísu í sjálfu sér er mjög lofsvert — heldur en að sjá um gæzlu vitans eins og fyrirskipað er, virðist hann verða meira og meira drykkfelldur, og er það nú svo langt komið, að ég tel, að honum sé ekki lengur treystandi til að hafa þetta starf með höndum.

Til þess að það sjáist glöggt, hvað hefir farið fram, og hvernig Ólafur Sveinsson hefir hagað sér í stöðu sinni, leyfi ég mér, eftir hér fyrirliggjandi skjölum, að skýra frá, hvað ég hefi skrifað honum.

H. 29. desbr. 1926 kvartaði skipstjóri einn yfir því, að mjög seint hefði verið kveikt á Reykjanesvitanum, um 7. eða 8. nóv. var komið, að heita mátti, almyrkur áður en kveikt var. Vegna þess, hve seint kvörtunin barst mér, var ekki hægt að gera neitt frekar í málinu, en ég brýndi alvarlega fyrir vitaverðinum að fylgja reglum þeim, er settar hefðu verið um að kveikja á vitanum, og sem honum væru kunnar, en til frekari tryggingar endurtók ég þær í bréfi til hans 29. des.

Vorið 1925 komst það upp, að vitavörðurinn hafði fengið áfengisbækur fyrir árin 1926 og 1927 hjá lögreglustjóranum í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Voru þær gefnar út samkv. beiðni hans, í embættisnafni, en án leyfis héðan, og án minnar vitundar. Hann hafði út á þessar bækur fengið talsvert af hreinum spíritus, sem hann hafði borgað sjálfur, og notað í eigin þarfir, en jafnframt hafði hann héðan fengið það suðuspritt, sem þurfti til reksturs vitans. Um þetta mál skrifaði ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 14. apr. og 18. maí, og sendi ég jafnframt hinu háa ráðuneyti samrit af þessum bréfum. Það mun hafa leitt til þess, að sýslumanni var uppálagt að taka málið fyrir, og mun það hafa verið gert, en eftir því, sem mér hefir verið sagt, mun það seinna hafa verið látið falla niður, án þess að mér sé kunnugt um ástæðurnar fyrir því. Í bréfi mínu 11. júlí 1928 sendi ég aftur, að gefnu tilefni, hinu háa ráðuneyti bréf um málið og lagði það undir úrskurð ráðuneytisins, hvort ástæða væri til að segja honum upp stöðunni, en lagði til, að honum yrði að öðrum kosti, gefin alvarleg áminning um að gæta skyldu sinnar“.

Ég vil skjóta því hér inn, að það var hrein linkind hjá stjórninni að reka manninn þá ekki frá starfi sínu. Það er eitthvað athugavert við þann mann, sem flytur spíritus í pottatali til vitans, til að fægja hann, að hann segir, en notar allan þennan vínanda til drykkjar. (HV: Hví var maðurinn ekki rekinn þá?) Það er heldur góð afstaða hjá hv. 2. þm. Reykv. að ásaka landsstj. í senn fyrir að reka manninn og reka hann ekki. (ÓTh: Annaðhvort var rétt að reka hann eða ekki!) Ég vil segja hv. þdm. það að 1928 lá ekki fyrir nein till. frá vitamálastjóra um að reka þennan vitavörð, en sú till. liggur fyrir nú. Annars heldur bréf vitamálastjóra svo áfram:

„17. júlí 1928 kom ég á Reykjanes, og voru, þá rúðurnar mjög óhreinar, mikið til voru það gömul óhreinindi á þeim. Ég gerði þegar athugasemd við hann um þetta, og skrifaði honum áminningu 31. s. m.

3. ágúst 1928 var kveikt á vitanum 16 mín. seinna en fyrirskipað var, og skrifaði ég því vitaverði bréf 6. s. m. og brýndi að nýju fyrir honum að fylgja reglunum. Hann gaf á þessu þær skýringar, sem ég gat ekki lagt neinn trúnað á, og sagði ég honum það í bréfi 31 ágúst. Sagði ég honum í sama bréfi jafnframt, „að svo framarlega sem hin allra minnsta óregla kemur fyrir aftur, munuð þér vafalaust verða settur frá“.

24. f. m. barst mér skeyti frá togaraskipstjóra, sem fór fyrir Reykjanesið, að ljósmagn vitans væri mjög lítið. Ég athugaði þegar málið með því að tala við menn fyrir sunnan, og komst að raun um, að líkur væru til, að skúrir hefðu staðið yfir landið og dregið úr ljósinn. Vitavörður var þá staddur hér í bænum og kom til viðtals á skrifstofuna næsta dag milli 11 og 12. Hann var þá nokkuð kendur, en þó ekki meira en það, að tala mátti við hann, en þegar hann kom aftur milli 3 og 4, var hann svo útúr drukkinn, að ekki var hægt að tala við hann, og eftir framkomu hans sá ég ekki aðra leið en að reka hann út. Næstu daga var hann á flakki hér í bænum, meira og minna drukkinn, og kom loksins til mín aftur 29. f. m. Talaði ég þá mjög alvarlega við hann, og skoraði á hann að segja upp stöðunni, því að ég kæmist ekki hjá að skýra ráðuneytinu frá framkomu hans, sagði hver afleiðingin sennilega myndi verða, og að ég, hans vegna, kysi heldur, að hann færi sjálfur, heldur en að hann yrði rekinn frá. Síðan hefi ég vonast eftir bréfi frá honum, en fyrir nokkrum dögum síðan kom hann sjálfur og sagðist ekki ætla að segja stöðunni lausri. Þegar hann fór suður aftur, var hann drukkinn.

Þessi framkoma hans er öll þannig, að ég get ekki treyst á hann sem vitavörð á einum mest áríðandi vita landsins. Að hann hvað eftir annað vanrækir að kveikja á vitanum á tilteknum tíma, að hann ekki sýnir nægilegt hreinlæti við vitagæzluna, að hann undir embættisnafni tekur út spíritus til eigin afnota, og að hann gengur dögum saman drukkinn um götur Reykjavíkur, jafnvel samtímis með að honum er kunnugt, að umkvörtun liggur fyrir um það, að vitinn lýsi illa, — allt þetta virðist mér benda til þess, að hann hafi ekki nægilega ábyrgðartilfinningu fyrir því starfi, sem hann hefir með höndum. Ég get ekki talið, að honum sé treystandi til að gegna starfinu lengur, en verð að leggja til, að honum verði sagt upp stöðunni frá 1. júní næstkomandi.

Jafnframt vil ég leggja til, að staðan verði auglýst laus, með umsóknarfresti til 1. maí.

Th. Krabbe“.

Þegar bréf eins og þetta liggur fyrir frá yfirmanni þessara mála, þá vil ég ekki taka á mig þá ábyrgð að halda manninum áfram í stöðu sinni. Og mér þykir það undarlegt, ef maður eins og hv. 2. þm. G.-K. vill hafa svona mann áfram sem vitavörð, þessi hv. þm., sem er forstjóri í stóru útgerðarfélagi, og hlýtur að skilja, hversu ábyrgðarmikið starf vitavarðarins er. (ÓTh: Mig langar aðeins til að vita, af hverju hann var ekki rekinn 1928). Trúnaðarmaður ríkisins, vitamálastjórinn, taldi ekki ástæðu til að leggja það til þá. Eins er það með þann manninn, sem telur sig öðrum fremur fulltrúa sjómannanna, hv. 2. þm. Reykv. Mér finnst undarlegt, ef hann gerir það í umboði sjómanna, sem hætta lífi sínu við strendur landsins, að bera fram mótmæli gegn þessari ráðstöfun. En það hefir aldrei þótt góðs viti, þegar Herodes og Pílatus hafa orðið vinir, eins og þeir hv. 2. þm. G.-K. og hv. 2. þm. Reykv. í þessu máli.

Þá fann hv. 2. þm. Reykv. að því, að ég hefði skipað „íhaldsnefndina“ sem hann kallaði svo. Þessi n. var skipuð í þeim tilgangi að athuga mat á fiski og gera till. um það. Verð ég að segja það fyrir mig, að ég álít það gersamlega ópólitískt mál, hvernig þorskur og annar saltfiskur er metinn til útflutnings. Auk þess var það svo, að landsstj. var engan veginn óbundin um það, hvernig hún skipaði þessa n. Hún var skipuð samkv. þál., sem samþ. var hér á hinu háa Alþingi í fyrra, og þar er það tekið fram, að í n. eigi að vera sérfróðir menn, og af flm. hálfu komu óskir um, að ákveðnir menn yrðu skipaðir í n.: skrifstofustjóri atvmrn., forseti Fiskifélagsins, yfirfiskimatsmaðurinn, einn maður frá togaraeigendum og einn frá fiskútflytjendum. Ríkisstj. hefir farið alveg eftir þessum óskum, sem engin mótmæli komu gegn í hv. Nd. í fyrra, nema um skrifstofustjóra atvmrn., sem ekki gat tekizt starfann á hendur sakir vanheilsu. Og þó að stj. hefði farið að leita meðal Framsóknarmanna eða jafnaðarmanna, er hún valdi fulltrúa togaraeigenda eða fiskútflytjenda, held ég, að henni hefði getað orðið tafsöm leitin. En stj. framkvæmdi enga slíka leit, því að það var hennar álit, að þarna ætti engin flokkapólitík að koma til greina. Mennirnir, sem skipaðir voru fyrir atvinnuvegina, hv. 3. þm. Reykv. og hv. 2. þm. G.-K., held ég að báðir hafi verið fullboðlegir fulltrúar. Og þeir höfðu báðir þá sérstöðu, að vera jafnframt alþingismenn, sem er mikill kostur, er málið kemur til endanlegra úrslita á Alþingi.

Þá spurði hv. þm., hvort nokkuð lægi eftir n. Hún hefir ekki ennþá skilað áliti, það er rétt. (HV: Hefir hún yfirleitt nokkuð starfað?). Já, en annars hefi ég ekki yfirheyrt einstaka nm. um, hvert starfi þeirra er komið. En mér er kunnugt, að n. í Noregi er nú um það bil að skila af sér svipuðu starfi, og það er ekki óeðlilegt, að okkar bíði nokkuð með að ljúka sínum störfum. til að geta séð álit hennar. (ÓTh: Sú n. er búin að starfa í 5 ár!). Ennfremur fóru yfirfiskimatsmennirnir í Rvík og Seyðisf. til Spánar til að kynna sér ýms atriði um fiskverkunina, og hvernig henni verði bezt fyrir komið. Má búast við, að þeir geti m. a. komið með einhverjar till. um fiskimatið. Ég get hugsað mér, að þetta tvennt hafi orðið til að tefja störf n., en ég vona, að hægt verði að leggja árangurinn af starfi hennar fyrir næsta þing.

Þá eru aðeins eftir tvö smáatriði. Hv. þm. ítrekaði nú kröfu sína til mín um það, að ég léti birta öll skeytaviðskipti ríkisstj. um Íslandsbankamálið. Eins og ég hefi áður sagt hv. þm., getur hann fengið að sjá öll þau skeyti, sem farið hafa milli mín og Sveins Björnssonar sendiherra um þetta mál, og ég hygg meira að segja, að hann hafi þegar séð flest þeirra. Og hann hlýtur, er hann hugsar málið, að vera mér sammála um það, að þau eru ekki öll til þess fallin að vera birt almenningi. Önnur skeyti um málið hefi ég ekki einu sinni séð öll sjálfur, og get engu ráðið um birting þeirra.

Þá talaði hv. þm. nokkuð um lóðina undir landssímastöðina og kaupin á henni. Vitanlega má alltaf um það deila, hvaða lóð sé heppilegust í þessu efni. Ég fyrir mitt leyti hefði helzt kosið að hafa húsið á lóðum ríkisins á Arnarhóli. En landssímastjóri og símaverkfræðingur sýndu mér áætlanir, sem sönnuðu, hversu afskaplega dýrt væri að flytja símann þangað, meðfram sakir þess, hve miklar klappir eru í jörðu á þessum slóðum. (HV: Hvað sagði símaverkfræðingurinn um lóðina við Austurvöll?). Ég man það ekki nákvæmlega. Ég skal geta þess hér, að ég hafði mikinn hug á að fá undir símastöðina aðra lóð hér í miðbænum, sem sagt lóð þá, er G.-T. húsið stendur nú á. Ég gerði á Alþingi í fyrra miklar tilraunir til að fá samkomulag um þessa lóð, en það strandaði á þm., m. a. sumum forsetanna. Mér þykir þetta leitt, því að það hefði líklega orðið ríkissjóði ódýrara, með því að ríkið á sjálft nokkurn hluta af þessari lóð.

Nú, að þessu frágengnu gat nú verið um ýmislegt annað að ræða. Það var t. d. hægt að fá lóð í Hafnarstræti, sem var þú nokkru dýrari en sú, sem tekin var. Ég skal minna á það, að sú lóð, sem lagt var til að keypt væri í Hafnarstræti 1926, var helmingi minni en sú lóð, sem nú var keypt. Og þó átti hún að vera talsvert dýrari. Hver feralin hefði því orðið meira en helmingi dýrari í henni, heldur en í lóðinni, sem nú á að fara að byggja landssímastöðina á. (HV: En flutningurinn á símanum!). Aðalkostnaðurinn er sá sami, hvort stutt eða langt er flutt. Kostnaðaraukinn liggur aðallega í lengd þráðanna. (MG: Annað sagði Forberg heitinn mér!). Ég hefi nú ekki átt kost á því að snúa mér til hans, og héðan af er ekki hægt að leiða hann sem vitni í því máli. Annars þýðir ekki frekar um þetta að þrátta. Það er búið að ákveða staðinn. Og yfirleitt telja menn þessa stofnun vel setta á þessum stað.

Ég held þá, að ekki hafi verið nein fleiri einstök atriði, sem hv. 2. þm. Reykv. beindi að mér, og get ég því lokið máli mínu að sinni.