14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í C-deild Alþingistíðinda. (1542)

338. mál, gelding hesta og nauta

Hákon Kristófersson:

* Ég held, að það þurfi gaumgæfilegrar athugunar, hvort hér er ekki stofnað til vandræða með hliðsjón af lögunum, ef á að lögbjóða, að hestar séu svæfðir, þegar þeir eru geltir.

Það eru ekki nema einstöku menn, sem kunna það hér á landi. Ég held því, að það væri rétt, að menn kynntu sér þessa hluti, áður en farið er að lögbjóða svæfingu. Ég hefi umsögn eins dýralæknis um það, að það geti verið skaðlegt fyrir hesta, að þeir séu svæfðir, og dæmi munu til þess, að hestar hafa ekki vaknað aftur. Og ef svæfing getur orðið til þess, að menn tapi góðum gripum, þá tel ég verr farið en heima setið. Þetta yrðu góð lög fyrir þá, sem hefðu komið þeim á pappírinn, en framkvæmdin yrði verri.

Þetta frv. er vafalaust fram komið af því menn hafa fundið, að fyrirkomulagið hefir ekki verið gott, og það er síður en svo, að ég vilji gera lítið úr þeirri góðu viðleitni, að meðferð á dýrum verði betri en áður. En hvers vegna vilja hv. þm. þá ekki líka gera svona ráðstafanir um geldingu sauðfjár, enda þótt sú dýrategund sé nokkru tilfinningarminni en þær, sem hér eru nefndar? Ég skýt þessu fram aðeins til athugunar, en ég er hræddur um, að framkvæmdir verði ekki miklar í þessum efnum fyrstu árin, þó að þetta frv. verði að lögum.