16.04.1930
Efri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í C-deild Alþingistíðinda. (1619)

384. mál, byggingar- og landnámssjóður

Jón Þorláksson:

Ég á brtt. á þskj. 568, við 4. gr: þessa frv., um að hún orðist á þann veg, að 9. gr. laganna falli burt.

Ég benti rækilega á það, þegar lögin um Byggingar- og landnámssjóð lágu fyrir þinginu 1928, að í 9. gr. þeirra væru alveg óhæfileg ákvæði, sem mæltu svo fyrir, að ekki mætti leigja fasteignir, sem skuld hvíldi á við sjóðinn, hærra en sem næmi 4% af landverði og 2% af húsaverði, miðað við síðasta fasteignamat. Ég sýndi greinilega fram á það, að slíkt ákvæði gerði landeigendum með öllu ókleift að leggja fé í húsabætur, nema með stóru tapi. Þetta hefir og komið á daginn, og þess vegna hefir nú komið fram till. um að hækka leiguna upp í 5% af landverði og 4% af húsaverði. Þetta er að vísu tilraun til þess að bæta úr mestu misfellunum hvað leigujarðir snertir, en óneitanlega virðist það undarleg uppástunga um umbætur, að leyfa meira eftirgjald af landinu en af húsunum. Þetta sýnir glögglega, að mönnum er ekki ljóst, hversu mikil nauðsyn og hversu miklir erfiðleikar eru á því, að húsa slíkar jarðir, sem ekki eru í sjálfsábúð. Ákvæði gr. eru aðvörun til landeigenda um að leggja ekki í húsabætur á jörðum, sem þeir þurfa að leigja út. Finnst mér þetta undarleg ákvæði, þar sem það er alkunnugt, að fátt er nauðsynlegra að gangi fram en húsabætur á sveitabýlum. Tilgangur þessara laga er að greiða fyrir húsabótum í sveitum, og má það vel vera um sjálfseignarjarðir, en um leigujarðir er þetta ákvæði til stórrar fyrirstöðu hvað húsabætur snertir.

Þá er stungið upp á því í þessu frv., að aftan við 9. gr. bætist mjög undarlegt og óvenjulegt ákvæði um það, að leggja skuli refsigjald á skuldunauta sjóðsins, ef þeir vilji greiða upp skuldir sínar við sjóðinn innan hins umsamda gjalddaga. Þetta er svo furðulegt ákvæði, að varla er hægt að taka það alvarlega. Hvers á nú sá aumingja maður að gjalda, sem kýs heldur að eiga eign sína skuldlausa, ef hann má því við koma? Eða er nokkur hætta á því, að sjóðurinn geti ekki komið þessu fé aftur á vöxtu með eins góðum kjörum? Eða er þetta fé tapað? Ég get tæplega skilið, að sjóðurinn verði nokkru sinni í vandræðum með að koma fé sínu út með slíkum kostakjörum, sem þar eru. En ef það er nú ekki til óhagræðis fyrir sjóðinn, að landeigandi greiði upp skuld sína, hvað meinar þá löggjafarvaldið með því að leggja refsigjöld á þessa menn? Mig vantar æðimikið skýringar á þessu. Helzt dettur mér í hug sú skýring, að undanfarin ákvæði þessarar gr. séu svo óeðlileg og á móti réttri hugsun, að menn leiðist beinlínis lengra út í slíkar fjarstæður af þeim orsökum. Þessi 9. gr. leggur kvaðir á fasteignir, sem lán hvíla á úr sjóðnum, kvaðir, sem aldrei hafa áður þekkzt um fasteignir einstakra manna. Greinin gerir þá beinlínis ófjárráða um eignir sínar; enginn samningur, er snertir þessar fasteignir, er gildur nema með árituðu samþykki sjóðsstj., og ekki má söluverð þessara eigna fara fram úr síðasta fasteignamati. Nú er það svo um fasteignamat, að það er að jafnaði gætilegt, og verður að vera það. En af því leiðir aftur það, að sannvirði fasteignar er að jafnaði fyrir ofan fasteignamatið. Þetta er mjög eðlilegt, enda er þetta svo í reyndinni. Þess vegna virðist það ærið hart, að neyða menn til þess að selja eignir sínar undir sannvirði, en slíkt er svo sem í samræmi við annað í þessari gr. — Öll gr. er tilraun til þess að nota þessi fríðindi, sem ríkissjóður leggur fram til þess að hressa upp á býlin í landinu, til að gera bændur ófrjálsa að umráðum yfir fasteignum sínum. Þetta eru hugsjónir jafnaðarstefnunnar, og þetta er hið eina, sem eflir er af hinu upphaflega frv. hæstv. dómsmrh., annað en fyrirsögnin. Það mun koma fram, að það reynist ómögulegt að hafa þessa gr.; hún hlýtur að verða felld burt áður en langt um líður, því að þegar búið verður að veita svo mörg lán úr sjóðnum, að lánþegar fara að fá pólitíska þýðingu, þá munu þeir heimta, að gr. sé afnumin. Annars er það nánast sagt af hlífð við hæstv. núv. dómsmrh., að þessari gr. var leyft að vera eftir, til þess að hann ætti þó eitthvað í frv. Það væri því betri vottur um skynsemi og dómgreind hv. þm. á 1000 ára afmæli þessarar stofnunar, að þeir tækju þessa gr. til athugunar og fyndu, að hún er að öllu leyti óhæf, og létu skynsemi sína leiða til þess, að hún verði nú þegar felld burt, heldur en að bíða þess, að svo margir finni til ranglætis hennar, að burtfellingu hennar verði hrundið fram af þeim.

Ég ætla nú að svo stöddu ekki að segja meira um þessar brtt. mínar. Ég ætla aðeins að leiða athygli hv. þdm. að öðru atriði, viðvíkjandi framkvæmd þessara laga, sem ég hefi rekið mig á og sýnir, hvað það er varhugavert að vera að búa til og lögfesta óeðlilegar og mismunandi reglur um lánveitingu slíkra sjóða.

Eins og þeim mönnum er kunnugt, sem hafa veitt eftirtekt ákvæðum núgildandi laga um vaxta- og afborganakjör, þá eru þessi kjör hagstæðari fyrir þá, sem reisa nýbýli, heldur en þá, sem taka lán til þess að endurreisa íbúðarhús á sveitaheimilum. Og þó að breyt. sé gerð á þessu ákvæði í frv. því, sem hér liggur fyrir, þá helzt þó þessi mismunur, þannig að sá, sem tekur lán til þess að reisa nýbýli, á aðeins að greiða 3½% í árgjald í 50 ár, en af öðrum lánum — þar með lánum til byggingar íbúðarhúsa — 5% í 42 ár. M. ö. o., ef maður tekur 10 þús. kr. lán, á hann að greiða 350 kr. á ári, ef því er varið til nýbýla, en 500 kr. á ári, ef það fer til þess að reisa við og byggja upp gömlu býlin.

Menn voru fljótir að finna það út, hvernig ætti að nota sér þetta. Ég varð var við það á ferðalögum mínum síðastl. vor, að til voru menn, sem voru að sækja um lán úr sjóðnum til þess að reisa nýbýli, á þann hátt, að skilja dálítinn part frá jörðinni. Þessi partur náði heim undir bæinn. Á þessum parti átti svo að gera nýbýli og var sótt um lán til þess. Nýbýlið stóð þá rétt við hliðina á gömlu bæjarhúsunum og kom að öllu leyti í stað þeirra. Það er aðeins þetta form, sem þarf að vera, þ. e. að taka hæfilegan skika af jörðinni og stofna þar nýbýli, og svo verður höfuðbólið nytjað fyrir nýbýlið. Eða hví skyldu menn ekki leggja það á sig að skrifa og borga þinglýsingagjöld til þess að sleppa við að borga 150 kr. af hverjum 10 þús. kr., sem teknar eru að láni?

Ég held þess vegna, að þessi mismunur sé, eins og ennþá stendur, ákaflega óheppilegur. og þar að auki held ég, að enn sem komið er sé miklu brýnni og meira aðkallandi þörf að bæta þau býli, sem fyrir eru og reynast ónóg til þess að framfleyta einni fjölskyldu viðunanlega, heldur en að stofna nýbýli, sem fyrst um sinn verða ennþá erfiðari viðfangs en gömlu býlin að því er snertir möguleikana til að veita fjölskyldu sæmilega framfærslu. Því það er nú svo, að afkoman í sveitum er svo bágborin sem hún nú er fyrst og fremst af því, að allar jarðirnar framfleyta ekki nógu stóru búi til þess að afurðir þess geti veitt einni fjölskyldu sæmilega framfærslu með þeim lífsþægindum, sem fólk yfirleitt gerir kröfu til nú á tímum. Mér finnst því réttast að snúa sér fyrst að því að bæta þær meinsemdir, sem fyrst og fremst kreppa að, heldur en að dreifa kröftunum og gera tilraun til þess að leiða ofurlítið fleiri landsmenn út í þá sömu erfiðleika, sem svo margir hafa kiknað undir. Þegar búið er að bæta býlin í landinu svo, að þau geti veitt fólkinu sæmilega afkomu og það hefir sýnt sig, að fólkið, sem þau nytjar, unir hag sínum vel í sveitunum, þá er fyrst kominn tími til að reyna að fjölga býlunum og ná fleira fólki í sveitirnar. Þar með vil ég þó ekki segja, að ekki geti á einstaka stað staðið þannig á, að góð skilyrði séu fyrir því að koma nýbýlum upp nú þegar, en ég efa, að slíkar undantekningar séu fyrir hendi nema þá í sjávarþorpum eða hverfum, þar sem fólkið getur stundað aðra atvinnu jafnframt.