27.01.1930
Efri deild: 6. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

11. mál, yfirsetukvennalög

Halldór Steinsson:

Ég hefði sízt búizt við því, að hæstv. fjmrh. yrði til þess að flytja frv. um breytingar á launakjörum yfirsetukvenna. Mér hefir virzt svo á undarförnum þingum, að heldur hafi andað kalt frá honum til þessa máls, enda ber bæði grg. frv. og ræða hæstv. ráðh. nú því vitni, að honum hefir ekki snúizt hugur í málinu. Meðal annars segir svo í grg.: „Stj. verður að álíta, að yfirsetukonur hafi sambærileg laun við aðra starfsmenn ríkisins“. Stj. lítur með öðrum orðum svo á, að ekki sé ástæða til að bæta launakjör þeirra. En því er stj. þá að flytja þetta frv., ef það er hennar skoðun. að ljósmæðurnar séu nógu vel launaðar? Þeirri spurningu er líka svarað í grg.: „Þar sem yfirsetukonum virðist heldur hafa aukizt fylgi á síðustu þingum, hefir stj. þótt réttast að leggja fyrir Alþingi frv. um launakjör yfirsetukvenna“. Þetta er þá ástæðan.

Mig furðar nú satt að segja á því, að hæstv. fjmrh. skyldi fara að flytja þetta frv. eingöngu vegna þingviljans. Og mig furðar líka á því, að hæstv. ráðh. skyldi þá ekki hafa frv. í samræmi við þingviljann, úr því að hann fór að flytja það af þessari ástæðu einni. Því að launabæturnar í þessu frv. eru minni en í frv. síðasta þings, sem hafði stuðning meiri hl. þm. í báðum deildum. Frv. er að efni til shlj. þeim brtt., sem hæstv. fjmrh. flutti hér í Ed. í fyrra og felldar voru með jöfnum atkv. Hverjum dettur nú í hug, að þm. fari að greiða atkv. öfugt við það, sem þeir gerðu í fyrra, að kringumstæðunum óbreyttum?

Það orkaði tvímælis, hvort vilji þessarar hv. deildar kæmi fram í úrslitum þessa máls á þinginu í fyrra. Ég vil því skora á hæstv. fjmrh. að leggja málið nú fyrir deildina eins og það þá lá fyrir, svo að það megi koma í ljós, hver vilji deildarinnar er.

Ég skal ekki fara út í það nú, hverjar ástæður liggja til þess, að brýn þörf er að bæta launakjör ljósmæðra, heldur geyma mér það, þar til málið kemur úr nefnd.

Hæstv. fjmrh. sagði, að engar sannanir hafi verið færðar fyrir því í fyrra, að ljósmæður vantaði í 30 umdæmum. Þetta er ekki rétt. Samkv. upplýsingum Ljósmæðrafélags Íslands vantaði 30 ljósmæður í fyrra, og því félagi ætti að vera kunnugt um þetta, því að það sér um útvegun á ljósmæðrum í þau umdæmi, sem laus eru. Og þó að nú vanti ekki nema 15 ljósmæður — ef skýrsla hæstv. ráðh. er þá rétt —, gat vantað 30 í fyrra fyrir því. Annars er það nú neyðarúrræði, ef grípa þarf til þess, vegna skorts á ljósmæðrum, að láta þær þjóna fleiri umdæmum en sínu eigin, þó að hæstv. ráðh. virtist ekkert hafa við það að athuga. Slíkt getur að vísu gengið í kaupstöðum, en mjög óvíða til sveita.

Hæstv. fjmrh. sagði, að saga þessa máls væri raunasaga. Það má vera, að honum þyki það raunasaga, að málinu hefir aukizt fylgi, en mér finnst það ekkert sérlega raunalegt.