09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

11. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. 1. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Það er nú svo um hv. þm. V.-Húnv., að honum hættir til að tala í þeim tón, sem ekki á við hér á Alþingi. Hann var að tala um fjas hjá mér. En heldur hv. þm. virkilega, að fulltrúar þjóðarinnar séu svo hrifnir af litlu pólitísku kvörninni úr Vestur-Húnavatnssýslu, að þeim þyki skemmtilegt að heyra hann vera að mala sundur þjóðþrifamálin á þinginu.

Hv. þm. var svo djarfur að bregða mér um, að ég sé að reyna að bregða fæti fyrir áhugamál yfirsetukvennanna, maðurinn, sem játaði síðast í ræðu sinni, að hann vildi helzt ekki, að þær fengju neina launabót. Menn vita, að hann er á móti öllum launabótum; hann vill aðeins vera með þessu frv. í þeirri von, að hann geti með því móti komið í veg fyrir, að ljósmæðurnar fái verulega launabót. Það virðist hlutverk þessa hv. þm. að vera á móti hagsmunum þeirra, sem við verst kjör eiga að búa í þjóðfélaginu. Við munum, hvernig hann tók í launahækkun barnakennara. Í hverju máli stendur þessi hv. þm. upp og malar og malar, alltaf það sama. Það er undarlegt, ef hann heldur, að nokkrum sé unun að öllu þessu endalausa máli. (HK: Malar skítug kjaftakvörn). Það er hálfleiðinlegt, að þessir pólitísku litlu kallar skuli setja ofan í við þm., þegar þeir vilja fylgja fram áhugamálum sínum með festu og einurð. (HJ: Þessa pólitísku stórlaxa).

Í fyrra stóð meiri hl. þessarar hv. d. einhuga með þeim till., sem ég flyt nú.

Hví skyldi vera orðin breyting á aðstöðu hv. d. síðan í fyrra?

Það sjá allir, sem um það hugsa, hvað hér er um alvarlegt mál að ræða, þar sem yfirsetukonur vantar í 30 umdæmi, eftir því sem læknarnir segja. Það er lítil umhyggja fyrir hinum afskekktu sveitum, ef ekki er reynt að ráða bót á þessu. Og jafnvel þó ekki hefði vantað nema í 15 umdæmi, eins og sýslumennirnir segja, þá væri það ákaflega tilfinnanlegt. Það virðist ekki mikil alvara hjá þeim mönnum, sem þykjast bera hag sveitanna fyrir brjósti, ef þeir vilja ekki einu sinni sinna jafnsjálfsagðri kröfu og þeirri, að þær geti fengið yfirsetukonur.

Hv. þm. talaði um, að margar sýslunefndir greiddu ekki ljósmæðrum dýrtíðaruppbót á sinn hluta launanna, og var að brýna mig á því, að ég hefði ekkert ámælt sýslunefnd míns kjördæmis fyrir það. Ég gef lýst því yfir, að ég get hiklaust ámælt hverri þeirri sýslunefnd og hvar sem er, sem ekki notar heimildina til að greiða ljósmæðrum dýrtíðaruppbót. En hvaða rök eru það gegn þessu máli, þó að sýslunefndirnar séu líka ósanngjarnar gagnvart ljósmæðrunum? Er ekki enn meiri ástæða til, að ríkið bæti kjör þeirra, þegar þær fá ekki dýrtíðaruppbótina?

Ég skal ekki þreyta hv. d. lengi, en vísa til þess, sem ég hefi sagt um þetta mál, bæði við fyrri umr. þess nú og á þinginu í fyrra. Treysti ég hv. d. til að meta réttilega kröfur þessarar þýðingarmiklu stéttar þjóðfélagsins, sem jafnframt hefir orðið harðast úti.

Að síðustu vil ég benda hv. þm. V.-Húnv. á það, að það er ekkert þjóðþrifaverk að standa upp til að andmæla í hvert skipti þegar rétta á hlut lítilmagnanna. Það verður enginn stór af því. Ég hefi raunur ekki búizt við, að þessi hv. þm. stækkaði mikið á þeim málum, sem hann fjallar um hér, en allra sízt stækkar hann af þessu, og ekki þolir hann að minnka.