27.03.1930
Neðri deild: 64. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

6. mál, sjómannalög

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Eins og kom fram í ræðu hv. 2. þm. G.-K., er n. sammála um till. á þskj. 322, að undanteknum 2, sem hv. þm. hefir tekið aftur, og 2. brtt. b, sem stendur í nánu sambandi við aðaltill. hv. þm., sem sé 13. till. c-lið. Sú till. er hin eina verulega till. hv. þm. Ég vil nú fyrir hönd n. bera fram þær skriflegu brtt., sem hv. 2. þm. G.-K. gat um. Önnur er við 6. gr., en hin við 9. gr.

Þær hafa báðar lítilvægar breyt. inni að halda, og a. m. k. þá síðari má samþykkja án atkvgr.

Ég skal víkja nokkru nánar að 13. till. c. Hv. þm. sagði, að gamalt deilumál væri falið í frv., og gaf í skyn, að það mundi hafa leynzt fyrir hinum starfsömu nefndarmönnum, sem sátu úttaugaðir nótt og dag við afgreiðslu frv. En ég hygg ekki, að þetta ákvæði hafi farið framhjá nefndarmönnnm. Ég hefi t. d. alltaf verið því fylgjandi, að útgerðarmenn bæru ábyrgð á farangri sjómanna. Starf n. var einkum í því fólgið að bera réttarbætur íslenzkra sjómanna í þessum lögum saman við réttarstöðu sjómanna annarsstaðar á Norðurlöndum. Í konunglegri sænskri tilskipun, útgefinni 22. des. 1922 samkv. 6., 41. og 70. grein sænsku sjómannalaganna, segir svo: „För förlust av effekter vid fartygs förolyckande skola de å fartyget anställda personer, vilka äro antagna av redaren eller befälhavaren, av redaren erhälla ersättning, som, där ej överenskommelse träffats om högre ersättning eller nyanskaffningsvärdet av förlorade effekter visas vara mindre, skall utgå med följande belopp“ .... o. s. frv.

Sama er að segja um norsku og dönsku lögin, og þessar Norðurlandareglur eigum við að taka okkur til fyrirmyndar. Hér þýðir ekki til lengdar að spyrna á móti þeim réttindum, sem aðrir sjómenn á Norðurlöndum hafa þegar aflað sér. Hér er ekki um að ræða að „smeygja“ einhverju ákvæði inn í lögin, sem ekki á þar að vera, heldur er farið beinlínis eftir Norðurlandalöggjöfinni. Við þetta bætist, að sú n., sem skipuð var samkv. þál. á þingi 1928, fékk það verkefni, að gera till. um breyt. á siglingalögunum með tilliti til gildandi laga á Norðurlöndum, svo að í raun og veru liggur þegar fyrir þál. um þetta atriði.

Ég skal ekki segja margt um hinar almennu hugleiðingar hv. þm. um frv. Hann er mér ekki sammála um, að það sé til bóta, og færði fyrir því 2 ástæður. Önnur var sú, að rétt væri að hafa einn lagabálk um þessi mál, en mér finnst rétt að hafa í þessu efni sömu skipting og annarsstaðar á Norðurlöndum. Það, sem aðrar Norðurlandaþjóðir hafa komið sér saman um, er á engan hátt minnkun fyrir okkur að taka upp. Það er bara leitt, að við skulum vera heilum 10 árum á eftir þeim. Við hefðum sannarlega átt að eiga okkar mann í þeirri nefnd, sem að þessum málum starfaði á árunum 1918 –21.

Hv. þm. gat um, að sérstaða okkar Íslendinga væri meiri en hinna þjóðanna. En þeir, sem athuga frv. gaumgæfilega, munu sjá, að það er einmitt tekið sérstakt tillit til okkar sérstöðu. Hv. þm. hefði átt að bera fram brtt., fyrst hann er svona óánægður. En einmitt brtt. hans sanna, að frv. er til bóta, því að þó að leitað sé með logandi ljósi, eru þær allar mjög smávægilegar, nema þessi eina, við 41. gr. Meðan hv. þm. ber ekki fram sterkari rök eða veigameiri brtt., leyfi ég mér að endurtaka, að frv. sé vel samið og til bóta.