17.03.1930
Neðri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

13. mál, Skeiðaáveitan o.fl.

Magnús Torfason:

Ég stend aðeins upp til þess fyrir hönd þingmanna Árn. að þakka bæði hv. n. og hæstv. stj. fyrir till. þeirra í þessu máli. Og ég get líka verið þakklátur hv. minni hl. fyrir það, hvað hann hefir tekið vel í þetta mál, því að það er sýnilegt af hans till., að þar greinir eiginlega ekki á um aðalatriðið, nefnilega að það þurfi að rétta þessum mönnum hjálparhönd, heldur aðeins um aðferðina:

En úr því að ég stóð upp, vil ég leyfa mér að benda á það, að fyrir utan löggjafann er um annan aðila að ræða, þar sem eru Skeiðaáveitubændur og Skeiðahreppur. Þessar till., sem eru fram komnar, eru gerðar með samþykki þeirra. En hinsvegar er alls ekki víst, að þeir mundu treysta sér til þess að samþ. till. hv. minni hl., enda þótt ég engan veginn vilji segja, að þær séu neitt ósanngjarnar. En ástæðan til, að ég er hræddur um, að þeir geti ekki samþ. þær, er einmitt það, að frv. og till. hæstv. stj. eru þannig lagaðar, að þær eiga fyrst og fremst að sjá um, að ekki verði kippt úr framkvæmdum á þessu svæði. Hér kemur það til greina, að einmitt þessi aukning á notagildi landsins krefst allmikils tilkostnaðar hjá bændum, ef þeir eiga að geta notað sér hana. Líka er þess að gæta, að þessar till. eru byggðar á því, að veðdeild Landsbankans fyrir sitt leyti vilji gefa eftir. En ég býst við, að hæstv. stj. muni aldrei ganga inn á slíkt. En því aðeins fengist samþykki þeirra, sem hér eiga um að fjalla, til þess, að farið væri ekki á neinn hátt að skylda veðdeildina.

Úr því að ég stóð upp, vildi ég aðeins benda á það, að þessi nauðasamningaumleitun er alveg nauðsynleg. Hún er gerð af nefnd eftir að búið er að leita upplýsinga um skuldir manna og það varð þá sýnilegt, að sumir af þessum mönnum þurfa að leita nauðasamninga. Annars skilst mér, að slíkt verði aðeins til þess, að aðrir en ríkissjóður taki þátt í því tjóni, sem hefir nú orðið af þessu fyrirtæki. Og ég sé ekki annað en það sé rétt.

Það hefir verið talað um það, að eiginlega hefði ekki þurft að koma til Alþingis. En ég vil líta svo á, að það hafi verið alveg nauðsynlegt, — þegar af þeirri ástæðu, að Skeiðaáveitusamþykktin er svo ófullkomin, að við hana er alls ekki hægt að hlíta. Ég get skýrt hv. deild frá því, að ég á í fórum mínum uppkast af frv. til laga um viðhald Skeiðaáveitunnar. Það uppkast var gert vegna þess, að það var ekki hægt eftir þeim grundvelli, sem núverandi samþykkt byggðist á, að koma á fullkomnu eftirliti. Líka er mér kunnugt um það, að ætlunin er sú, að þetta eftirlit atvmrh. eigi ekki aðeins við Skeiðaáveituna, heldur líka við Flóaáveituna í sínum tíma.

Flóaáveitan var nefnd í þessu sambandi og þess getið til, að ríkissjóður mundi þar hlaupa undir bagga. Ég skal ekki segja um það, hvorki af né á, en aðeins geta þess, að þar stendur allt öðruvísi á og að stjórn þess fyrirtækis hefir farið fram með allt öðrum hætti. Ég býst sem sé ekki við, að nokkrar slíkar afleiðingar geti orðið af henni eins og þarna á Skeiðunum.

Þá var minnzt á verðhækkunarskattinn. Ég get blátt áfram skýrt frá, að Skeiðamönnum er alls ekki vel við þennan skatt, og vildu vitanlega helzt vera lausir við hann. En þetta var eitt atriði í samningnum og þeir aðhylltust það, töldu sig knúða til þess eftir því sem atvik lágu til. Sumir hafa litið svo á, að ríkissjóður mundi fá lítið í aðra hönd fyrir þennan skatt. Slíkt er náttúrlega ekki annað en spádómur langt fram í tímann. Hvernig menn líta á þetta, fer fullkomlega eftir því, hve bjart menn líta á framtíð landbúnaðarins yfirleitt. Fyrir mitt leyti er ég í engum efa um, að jarðir þarna koma til þess að hækka mjög í verði eftir því sem fram í sækir. Eins og við vitum, þá hafa Árnesingar átt afarerfitt uppdráttar, en þó hafa jarðirnar þar hækkað í verði ár frá ári. Síðastl. vor átti að selja kot nokkurt, vitaskuld þægilegt, en fremur lítið, á 6 þús. kr., og var talið áður þess virði. En í haust voru eiganda boðnar 12 þús. fyrir það áður en hann veit af. Ég er því ekki í neinum vafa um það, að þessi verðhækkunarskattur verður ríkissjóði talsvert drjúg tekjubót á sínum tíma, enda er það þetta, sem Skeiðamenn óttast.

Ég endurtek að lokum þakkir mínar fyrir það, hversu vel þessu máli hefir verið tekið.