25.01.1930
Neðri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Hákon Kristófersson:

Það gerast nú furðulegir hlutir í þessari hv. d. Virðulegir þdm. rísa úr sætum sínum, hver eftir annan, og átelja af heilagri vandlætingu, að drepið hefir verið lítillega á nokkur efnisatriði frv. við þessa umr. Mér virðist á hinn bóginn ráðlegt að ræða málið til nokkurrar hlítar við 1. umr., hv. n. til bendingar og athugunar, ef það gengur fyrir sig með vinsamlegum hætti.

Hv. 1. þm. Árn. talaði af hógværð og lítillæti hjartans, sem og vænta mátti úr þeirri átt. Hann vildi telja hv. þdm. trú um, að ég skildi ekki orðið hlaupadýr. Ég hefi alltaf heyrt það notað í alveg sérstakri merkingu, nefnilega um bíti, sem hlaupa á milli sveita, eða við verður vart á ýmsum stöðum, en alls ekki tófu í greni. Hv. þm. talaði ekkert um, hvenær ætti að slátra þessum kvikindum, en það hefði hann þó átt að gera, úr því hann virðist halda, að hlaupatófa sé einnig á vetrum.

Hv. 2. þm. Eyf. kvað mig ekki hafa farið sanngjörnum orðum um þetta frv. og misskilið það í verulegum atriðum. Hv. þm. hélt því fram, að með frv. þessu væri eigendum jarða í fyrsta skipti gefinn ákveðinn réttur til grenja í landi þeirra. En ég vil halda fast við það, er ég tók fram í fyrri ræðu minni, að hér er um engan rétt að ræða, sem landeigendur hafa ekki átt áður. Einungis er með frv. þessu skorið úr því, hver er réttur landeiganda, þó ekki séu nú samt eins ákveðin fyrirmæli um þau atriði og æskilegt væri að mínu áliti. Ég tel meira að segja ekki með öllu óhugsandi, að ýms ákvæði frv. kunni í mörgum tilfellum að baka landeigendum tjón.

Ég vil því spyrja: Ef landeigendur hafa engan forgangsrétt til veiða í sínu landi, hafa þá óviðkomandi menn heimild til að fara í lönd annara manna til veiðiskapar án allrar heimildar? Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum efa um það, að gildandi stjskr. gerir ráð fyrir þeirri friðhelgi eignarréttarins, að óviðkomandi mönnum er algerlega óheimilt að fara á tófu- eða refaveiðar í annara lönd án leyfis eiganda.

Það er að vísu rétt, að enn munu greni í einstaklingslöndum ekki hafa haft áhrif á söluverð jarðanna, enda svo nýtilkomið með arð af þeim. En það er þó enginn vafi á því, að slíkt myndi hafa áhrif á komandi árum, ef gren væru í landi, sem jafnan legði tófa í. — Hinsvegar vil ég ekki mæla landeigendur undan því að bera réttlátan kostnað af vinnslunni, ef þeir að dómi hreppsnefndar eru ekki færir um eða þeim trúandi til að vinna dýrin sjálfir. Allt öðru máli er að gegna með sameiginleg lönd, svo sem afréttarlönd. En hitt þekki ég, að menn hafa ekki talið sér leyfilegt að veiða dýr eða fugla í löndum einstaklinga, nema þá að fá leyfi þeirra til þess. Ég hefi alls ekki sagt það, að löggjöf væri óþörf um þetta efni, en hitt sagði ég, að ákvæði 1.—3. gr. myndu vera í reglugerðum flestra sýslna.

Annars var það ekki ætlun mín með þessum orðum að koma neinni ólgu í umr.; slíkt er ekki vani minn. En mér þótti leiðinlegt að heyra jafnmætan mann og hv. 2. þm. Eyf. er segja það, að ég væri móti mþn. í landbúnaðarmálum. Slíkt hefir enginn getað heyrt né ályktað af mínum orðum, ef sanngjarnlega er á þau litið. Ég veit ekki til, að ég hafi sagt eitt einasta orð um þetta frv. fyrr en hér við umr., og því ekki verið ráðinn í því fyrirfram að vera á móti frv. þessu né öðrum frv., er frá þessari hv. n. hafa komið. Það er leiðinlegt fyrir mig að fá svona harðan dóm, ef sannur væri, en hann er sem betur fer ómaklegur, og því verstur fyrir hv. þm. sjálfan.