18.03.1930
Neðri deild: 56. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Á þskj. 291 eru 3 brtt., sem landbn. flytur. Þessar brtt. eru ekki miklar efnisbreyt. við frv., svo ekki er þörf á að fjölyrða um þær.

Í 2. gr. frv. er svo ákveðið, að fella megi niður grenjaleitir, ef ekkert dýr hefir fundizt þar í tug ára. N. vill með 1. brtt. sinni orða þetta þannig, að grenjaleitir falli niður, ef ekki hefir fundizt þar dýr síðustu árin. Þetta er nægilegt. Það er sem sé þannig sumstaðar hér á landi, a. m. k. í Vestur-Skaftafellssýslu, og ef til vill víðar, að talið er, að refum sé algerlega útrýmt, en samt er þar fjöldi gamalla grenja. Með því að láta gr. standa óbreytta, mætti kannske skilja hana svo, að af því greni sé þar til sé skyldugt að gera þar grenjaleit, þótt ekki sé þar nein dýravon. Þetta er svo einfalt mál, að ég sé enga ástæðu til að fara fleiri orðum um það.

Þá er 2. brtt. n. Hún er gerð vegna þess, að við 2. umr. kom fram nokkur ágreiningur um það, hvernig skilja bæri ákv. 6. gr. frv. um ágóða landeiganda og ábúanda af sölu yrðlinga, sem teknir eru í heimalandi einstakra manna. Þessi brtt. er flutt til að taka af öll tvímæli um þetta. Í raun og veru er þetta engin breyt. frá því, er var. Það er aðeins til þess að taka það svo skýrt fram, að ekki geti orkað tvímælis, við hvað sé átt. Eins og allir sjá, er hér átt við það, sem verður afgangs kostnaði (nettóverð).

3. brtt. er heldur ekki ný. Hún var flutt við 2. umr. þessa máls af n., en var þá tekin aftur. Nú er hún flutt hér aftur með nokkuð öðru orðalagi. Hún er um það, að leyfi sýslunefndar þurfi til þess að setja refaræktarbú á stofn. Við 2. umr. var hún þannig, að umsækjandi varð að sýna vottorð um, að hann væri til þessa starfa hæfur. N. fannst ekki ástæða til að halda við þetta ákvæði, þar sem búast má við að lítið verði á þeim vottorðum að byggja. N. vill því heldur eiga það undir áliti sýslunefnda, hvort heppilegt muni vera að veita umsækjanda leyfið, og hefir því lagt þetta í þeirra vald.

Aðrar brtt., sem hér liggja fyrir, hefir n. ekki tekið til sérstakrar athugunar. Hefir enginn tími verið til þess, þar sem þeim var ekki útbýtt fyrr en nú. Ég hefi því ekkert um þær að segja frá n. hendi nema það, sem hv. þdm. sjá sjálfir, að fer í bág við það, sem n. hefir áður flutt. Getur verið, að ég minnist þeirra síðar, en þá frá eigin brjósti.