31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

1. mál, fjárlög 1931

Haraldur Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. hafði þau orð um ræðu mína, að hún hefði verið einkennileg eldhúsræða; það hefði fremur mátt kalla hana landkjörsræðu. Þetta skiptir nú engu máli, svo framarlega sem ég hefi rök fram að færa. En það, sem olli ummælum hæstv. ráðh., var það, að ég ræddi um stærri og mikilsverðari mál en þeir aðrir hafa gert, sem farið hafa í eldhúsið að þessu sinni. Hæstv. ráðh. er ef til vill orðinn svo vanur við karp og smælki, að honum finnist einkennilegt ef rætt er um það, sem máli skiptir. Hæstv. ráðh. sagði m. a., að sér hafi komið það ókunnuglega fyrir, að í ræðu minni hefði kennt árása á Framsóknarflokkinn. Ég hélt nú, að hæstv. ráðh. væri vanur því, og hvenær er betra tækifæri að rifja upp afglöp stj. og stjórnarflokksins en á eldhússdegi? Ráðh. bar mér á brýn, að ég hefði slitið úr samhengi og rangfært ummæli þau, sem ég hafði eftir Tímanum, og því væri ræða mín öll í lausu lofti byggð. Hann kom með samlíkingu um verkfræðing, sem átti að reikna út mótak, en skjátlaðist hrapalega, af því að hann vissi ekki hve mikið var í einu móhripi. Hann líkti mér við verkfræðing þennan. Ég ætla ekki að fara að karpa við hæstv. ráðh. um þetta, en láta hv. dm. sjálfa dæma. Með leyfi hæstv. forseta vil ég því lesa upp þessi ummæli úr Tímanum. Þau eru svona:

„.... Og ef jafnaðarmenn kjósa vistaskipti, mun Framsókn, með því að nú er fram komið ýmsum mikilsverðustu málum flokksins, láta sér allvel lynda þau bráðabirgðaúrslit . . . . “.

En þau úrslit eru, að Íhaldsflokkurinn taki við völdum, Íhaldsflokkurinn, sem að dómi stj. og Framsóknarflokksins er hinn mesti óheillaflokkur fyrir land og þjóð. Það ætlar hæstv. ráðh. að láta sér lynda. Og af hverju? Af því að flokkur hans hefir komið fram ýmsum mikilsverðustu málum sínum. Ég hafði eftir blaðinu, að flokkur hæstv. ráðh. hefði komið fram aðaláhugamálum sínum. Hver eru þau? Ég ætla ekki stj. það, að aðaláhugamál hennar séu einskisverður hégómi. Aðaláhugamálin og mikilsverðustu málin hljóta auðvitað að vera sömu málin. Ég hefi því á engan hátt rangfært ummæli blaðsins, heldur er það hæstv. ráðh., sem er að afneita sínu eigin blaði og reyna að klóra yfir ummæli þess, þegar hann sér, að í óefni er komið.

Hinsvegar gerir hæstv. ráðh. sig sekan í að rangfæra mín ummæli. Ég drap á það, að mér þætti leiðinlegt að hlusta á umr. íhaldsmanna og framsóknarmanna á þingmálafundum. Þetta vildi hæstv. ráðh. láta þýða, að mér þætti leiðinlegt að hlusta á, þegar rætt væri um landbúnaðinn og hvað hægt væri að gera fyrir bændur. Ónei, ég átti ekki við þetta og sagði ekkert í þá átt, heldur við það, að mér finnst ógeðslegt að heyra þessi sífelldu yfirboð framsóknarmanna og íhaldsmanna.

Hæstv. ráðh. kallaði mig búfræðing Alþýðuflokksins. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir. Ég hefi mikinn hug á að kynna mér búfræði, og að þessi nafngift ráðh. reynist sannmæli. En ástæðan til þess, að ég varð svo fjölorður um athafnir stj. í landbúnaðarmálum, var sú, að aðeins á því sviði er hægt að tala um verplegar athafnir af hennar hálfu. Ef það er rétt athugað, að framkvæmdir stj. í landbúnaðarmálum hafi verið stefnulaust fálm, og að hún hafi alls ekki gert sér grein fyrir því, hvað hlýtur að leiða af því starfi hennar, þá er ekki við að búast, að hún hafi verið stórtæk eða framsýn í öðrum málum, sem fyrir henni eru eiginlega hrein aukaatriði, tilviljunarmál. Fyrst svo fer um hið græna tréð, hvernig mun þá fara um hið visna?

Út af því, sem ég drap á samheldni, eða réttara sagt sundrung, í flokki hæstv. ráðh., sagði hann, að ég hefði talað um klofning í flokknum. Ég hygg ekki, að ég hafi sagt það; að minnsta kosti meinti ég það ekki, og nú vil ég skýra þetta nánar. Malarhrúga eða grjótbingur getur ekki klofnað. Til þess að eitthvað geti klofnað, þarf það að vera fast saman. En það er einmitt bindiefnið, sem vantar í flokk hæstv. ráðh. Flokkinn vantar sameiginleg áhugamál. Þau, sem hann hafði, segir aðalblað flokksins að séu þegar komin framkvæmd, og engin ný hafa komið í staðinn. Það, sem ég vildi því sagt hafa, var ekki það, að flokkurinn hefði klofnað, heldur hitt, að þeir sem hann mynda, velta af tilviljun sitt á hvað. Hæstv. ráðh. sagði, að okkur alþýðuflokksmönnum færist ekki að tala, því að ef brestur væri í Framsóknarflokknum, þá væru brestir langs og þvers, eins og hv. þm. Mýr. komst að orði um daginn, í okkar flokki, Alþýðuflokknum. Ég hygg, að hæstv. ráðh. og hv. þm. Mýr. viti ekki hvað þeir eru að tala um. Vissulega er töluverður ágreiningur manna á milli í Alþýðuflokknum. En það er á allt annan hátt en í Framsóknarflokknum. Það er hæstv. ráðh. ekki ljóst, af því að hann veit ekki, hvað flokkur er. Alþýðuflokkurinn hefir alltaf staðið fast saman sem flokkur. Meiri hl. í flokknum hefir ákveðið, hvaða mál skuli gera að flokksmálum, og í engu slíku máli hefir Alþýðuflokkurinn klofnað. Og ég get fullyrt, að Alþýðuflokkurinn verður ekki lengur flokkur en það, að hann stendur fast saman um þau mál, sem eru svo mikilsverð, að meiri hl. ákveður, að skuli vera flokksmál. Þetta er grundvöllurinn undir allri flokkastarfsemi, og mér finnst undarlegt að þurfa að vera að kenna hæstv. ráðh. þennan barnalærdóm í pólitík. Hér er þó ekki um neina skoðanakúgun að ræða. Þeir, sem ekki eiga samleið með hinum ráðandi meiri hl. og geta ekki fallizt á skoðun hans, segja þá skilið við flokkinn.

Hæstv. ráðh. játaði, að hann teldi sig fyrst og fremst vera fulltrúa bænda, en hinsvegar kvaðst hann líka bera hag annarra stétta fyrir brjósti, og í því sambandi benti hann á 5 mál, sem hann hefði komið fram. Í fyrsta lagi lögum um verkamannabústaði, þá ábyrgðarláni til samvinnufélags Ísfirðinga, þá rýmkun kosningarréttar, togarvökulögin og siglingalögin, sem væru á góðum vegi. Ég skal fúslega viðurkenna, að hæstv. ráðh. og Framsóknarflokkurinn, eða mestur hluti hans, hefir léð þessum málum stuðning til að ganga fram í því formi, sem þau voru í. En hann hefir ekki tekið þessi mál upp. Það hefir Alþýðuflokkurinn gert. En án stuðnings Framsóknar hefðu þau auðvitað ekki komizt fram. Um verkamannabústaðina er það annars að segja, að hv. 1. þm. N.-M. tók þar ráðin af hæstv. ráðh. Í brtt. hæstv. ráðh., sem samkomulag var um á milli flm. frv. og ráðh. fyrir hönd flokksins, var gert ráð fyrir, að framlag ríkisins yrði 2 kr. á hvern mann. Síðan veiktist hæstv. ráðh. og hv. 1. þm. N.-M. flutti þá brtt. um, að framlagið yrði ekki nema 1 kr. Allmargir af flokksmönnum hæstv. ráðh. gengu í lið með hv. þm. og íhaldsmönnum, þvert ofan í till. hæstv. ráðh., og klipu þannig helming af því framlagi, sem ætlað var í upphafi til styrktar verkafólki til að koma sér upp íbúðum. Sé ég ekki, að þetta sé til að hæla sér af.

Hæstv. ráðh. flutti brtt., sem var samþ., um ábyrgð fyrir Samvinnufélag Ísfirðinga. Upphæðin, sem ríkissjóður átti að ábyrgjast, var þar mikið minnkuð. En ég féllst á hana af því, að hún var þó stórum betri en ekki neitt.

Það er alveg rétt, að framsóknarmenn fylgdu rýmkun kosningarréttar á síðasta þingi, og hæstv. ráðh. lagði fram frv. þess efnis. En sagan er ekki öll sögð með því. Hvernig var afstaða Framsóknarflokksins 1928? Þá drap hann frv. sama efnis. Hæstv. ráðh. veit, hvað olli þeim sinnaskiptum, sem síðan hafa orðið, bæði hjá framsóknar og íhaldsmönnum, en út í það fer ég ekki hér.

Framsóknarflokkurinn studdi okkur í því að koma fram togaravökulögunum. Það er alveg rétt. Um siglingalögin var hinsvegar samkomulag í hv. d. Það er heldur ekkert undarlegt, þó að Framsóknarflokkurinn hafi hjálpað okkur að koma fram nokkrum málum, þar sem það er öllum vitanlegt, að sú óbeina samvinna, sem á sér stað á milli Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins, hlýtur að byggjast á því, að eitthvað af áhugamálum Alþýðuflokksins nái fram að ganga. Það má því merkilegt heita, að hv. þm. Mýr. finnur sig nú knúðan til að lýsa yfir því, að honum sé orðin svo mikil þörf að þvo af sér kámið af mökunum við Alþýðuflokkinn, að hann verði að gera bandalag við Íhaldsflokkinn sér til þrifnaðar. En ég ætla að koma nánar að þessu síðar. Aðeins vil ég nú beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort hv. þm. Mýr. hafi mælt fyrir munn stj., þegar hann lýsti yfir þessu.

Þá kom hæstv. ráðh. að því, sem ég drap á, um að misjöfn væri umhyggjan fyrir Fiskifélaginu og Búnaðarfélaginu. Hæstv. ráðh. sagði, að störf Fiskifélagsins og Búnaðarfél. væru á engan hátt sambærileg. Það er að vísu rétt, að Búnaðarfélagið hefir meiri og margvíslegri störf með höndum en Fiskifélagið. En hæstv. ráðh. gleymir af hverju þetta stafar. Það er auðvitað bara af því, að Búnaðarfélagið hefir yfir miklu meiru fé að ráða en Fiskifélagið. Öll störf Búnaðarfélagsins eru unnin fyrir fé ríkissjóðs, og Fiskifélagið gæti unnið alveg eins mikið, ef það fengi eins mikið fé.

Hæstv. ráðh. vildi ekki viðurkenna, að Framsóknarflokkurinn og Íhaldið væri sífellt að ala á ríg milli sveita og kaupstaða. Ég þarf ekki að deila um þetta; þingtíðindin bera þess ljósan vott Hæstv. ráðh. sagði, að okkur færist ekki um að tala, af því að Alþýðuflokkurinn reyndi ekki síður að vekja sundrung á milli stétta. Þetta er rangt. Alþýðuflokkurinn hefir aðeins sýnt fram á hagsmunaandstæður eignastéttarinnar og hinna, sem vinna fyrir sér. Slíkt er nauðsynleg fræðsla um þjóðfélagsstöðu stéttanna. Ekkert annað.

Um leið og ég svara hv. þm. Mýr. ætla ég að víkja nánar að því, sem ég hefi fundið hæstv. stj. til foráttu fyrir athafnir hennar í landbúnaðarmálum. Ég hélt því fram í fyrri ræðu minni, að allmargir styrkir, beinir og óbeinir, sem veittir væru, að því er kallað er, til landbúnaðarins, hefðu orðið og myndu verða gjafir til einstakra manna, en ekki til léttis fyrir landbúnaðinn framvegis í heild sinni. Hæstv. ráðh. sagði, að verið væri að leggja í sparisjóð. Það skal játað, að hvort sem um er að ræða styrk til jarðræktar eða vegabóta, er verið að leggja í sparisjóð, en það er bara ekki verið að leggja í sparisjóð þjóðarinnar í heild, heldur þeirra, sem af tilviljun eiga jarðirnar í það og það skiptið. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi misskilið mig hrapallega, úr því hann þykist finna það út úr orðum mínum að styrkur til jarðræktar og vegabóta sé jafnan hefndargjöf fyrir héruðin. Ekkert þessu líkt hefi ég sagt. Hitt sagði ég, að stundum hefðu jarðirnar komizt í brask og hækkað í verði vegna t. d. samgöngubóta og jarðræktarstyrks, stundum ennþá meira en afrakstursmöguleikar jarðanna hefðu aukizt. Þar sem svo hefir farið, hefir styrkurinn vegna hins ótakmarkaða brasks orðið einskonar hefndargjöf. Og það veit hæstv. ráðh., að í þessum tilfellum verður þetta til stórskaða fyrir héruðin, þótt braskarar geti grætt á því tugi þúsunda. Ég verð líklega að skýra þetta með örlitlu dæmi, því að ég tel mikils vert, að hæstv. forsrh., sem telur sig fulltrúa bændastéttarinnar, geri sér ljóst viðhorf mitt og míns flokks til þessa máls.

Sú verðhækkun á jörð eða landi, auk umbóta notandans, sem er eðlileg, er tilsvarandi verðauki við það fé, sem lagt er fram af hinu opinbera til umbóta á jörðinni, svo sem styrkur jarðabóta, til ódýrra lána og sá hluti af samgöngubótum, sem koma hlutfallslega á verð þessarar jarðar. Þessi verðhækkun er eðlileg og verður aldrei til að íþyngja ábúanda jarðarinnar, því að framleiðslumöguleikar jarðarinnar með sama tilkostnaði aukast meira en þessum verðauka nemur. Ef ekki væri svo, þá er rangt og óverjandi að leggja fram fé í þessu skyni. Það, sem ég tel rangt í þessu tilfelli, er það, að verðaukinn rennur til einstakra manna, en ekki til þess opinbera. En verðhækkun jarðarinnar verður því miður oftast meiri en framlögunum nemur; hún kemst oft upp í, það að verða nákvæmlega jafnmikil og framleiðslumöguleikarnir aukast, svo að framleiðandinn, ábúandi jarðarinnar, verður nákvæmlega eins settur og áður, og þá er hagnaður hans enginn. Loks getur líka svo farið, ef braskað er með jörðina, að verðhækkunin verði meiri en því nemur, sem framleiðslumöguleikarnir batna. Og þá er ábúandi ver settur en áður. Þá hafa framlögin orðið beinlínis til að gera illt verra.

Hæstv. ráðh. talar stöðugt um styrk til landbúnaðarins. Nú er styrkurinn ekki til landbúnaðarins, heldur til einstakra bænda. Ég tek þá dæmið, sem ég drap á áðan. Ef jörð hækkar í verði um 5 þús. kr. vegna þess styrks, sem hið opinbera hefir veitt til ræktunar og byggingar á jörðinni og til samgöngubóta fyrir hana, og eigandinn selur jörðina þessum 5000 kr. hærra en ella mundi næsta ábúanda, þá er sá, sem tekur við, engu betur farinn en þótt enginn styrkur hefði verið veittur. Hann þarf að borga vexti og afborgun af þessum 5 þús. kr., sem jörðin hækkaði um. Þessar 5 þús. eru því gjöf til þess manns, sem átti jörðina, þegar þessi styrkur var veittur. Það er þetta, sem eiginlega er stefna Framsóknar í landbúnaðarmálum: Gjafir til einstakra bænda í stað styrks til landbúnaðarins.

Hæstv. ráðh. játaði líka, að margt væri að athuga í þessu efni og margt þyrfti umbóta við. En mjúkleg orð stoða lítið, ef ekkert er gert. Væri betur, að hann hefði sýnt fram á, að Framsóknarflokkurinn gerði sér þetta ljóst og vildi lagfæra það. En svo er eigi. Í lögum um Byggingar- og landnámssjóð eru að vísu ákvæði, sem lítur út fyrir að hafi verið sett til þess að fyrirbyggja brask með ríkissjóðsstyrkinn. En þó er aðhaldið í þeim ákvæðum ekki fullnægjandi, því að ef lánið er borgað upp, þá getur hlutaðeigandi selt eignina kvaðalaust langt yfir verði. Með þeim er því alls ekki girt fyrir verðhækkunina, ekki einu sinni þá, sem óeðlileg er og skaðleg. Og það þýðir ekki að taka eina tegund af lánstofnunum út úr, því að verðhækkunin, sem hið opinbera skapar, á ekki að verða gróðafé einstakra manna.

Mín skoðun er sú, að hin eina varanlega lausn þessa máls sé sú, að afnema gersamlega einkaeign manna á jörðum. Ég skal játa, að það er hægt að draga nokkuð úr verðhækkuninni með fasteigna og verðhækkunarsköttum. En á þann hátt verður aldrei grafið fyrir rætur meinsins. Ég hefi lagt fyrir þingið frv. í þessa átt, en mér virðist heldur daufar undirtektir hjá flokksmönnum hæstv. ráðh., enda þótt þeir hljóti að sjá, að full þörf er að draga úr þessari stöðugu verðhækkun, sem verður sívaxandi skattur á þeim mönnum, sem framvegis stunda landbúnað.

Um ríkisrekstur og samvinnu skal ég ekki vera langorður nú. Hæstv. ráðh. tók svo til orða, að samvinnumenn og okkur jafnaðarmenn greini ekki svo mjög á um markið, heldur aðferðina. Þetta er betra en ég bjóst við hjá hæstv. ráðh. og ber að fagna því, að fá slíka yfirlýsingu frá honum og það á þessum stað. Hann viðurkenndi ennfremur, að á þröngu sviði væri sameign nauðsynleg. Mér þykir einnig gott að fá þessa viðurkenningu, þó á þröngu sviði sé. En þetta þrönga svið, sem hæstv. ráðh. talar um, getur ekki verið annað en það, sem ég áður gat um, nefnilega, að samvinna um fjárhagsleg málefni hlýtur að byggjast á fjárhagslegri sameign.

Þá tók hæstv. ráðh. svo til orða: Grundvöllur undir okkar byltingu er frjáls samvinna, en ekki lögþvingun. Og það skildist mér hann telja höfuðmuninn á starfsaðferð þeirra samvinnumanna og okkar jafnaðarmanna, að við vildum lögþvingun en þeir frjálsa samvinnu. Til þess að undirstrika þetta, svaraði hann neitandi þeirri fyrirspurn minni, hvort hann áliti, að setja bæri lög um sameiginlega heildverzlun, ef hún þegar hefði náð t. d. 4/5 verzlunarinnar í sínar hendur og hinn 1/5 hlutinn spillti stórlega verði og yki kostnað við verzlunina. Hæstv. ráðh. svaraði þessu neitandi; kvaðst eigi vilja beita slíkri þvingun.

Ég get ekki neitað því, að það lætur undarlega í eyrum á þessum stað í lýðræðislandi að telja yfirleitt lagasetningu þvingun við landsfólkið. Lög setja þeir menn, sem landsfólkið hefir til þess kjörið, og um þau efni ein, sem landsfólkið hefir fallizt á, að lög skuli taka til. Ef það er þvingun að setja lög um heildarlandsverzlun, þá má segja, að hver einustu lög, sem grípa inn í viðskiptalíf og athafnalíf manna, séu líka þvingun. Yfirleitt er þróun málanna sú, að fyrst eru málin flutt með frjálsum samtökum einstaklinga, og þegar þeim eykst fylgi hjá þjóðinni, er farið inn á þá braut að nota löggjafarvaldið til þess að ákveða það skipulag, sem meiri hluti þjóðarinnar hefir fallizt á að sé rétt. Ég get fullvissað hæstv. ráðh. um það, að þegar sú stund er komin, að t. d. 4/5, hlutar verzlunarinnar við útlönd er komin í hendur t. d. Sambands ísl. samvinnufélaga, þá er mikill meiri hluti landsmanna kominn á þá skoðun, að sjálfsagt sé að setja lög um, að ein þjóðarstofnun taki að sér utanríkisverzlunina alla. Annað væri gersamlega óverjandi. Þá er það þvingun við meiri hl. að láta hann ekki ráða.

Hæstv. ráðh. var eitthvað að tala um meðferð á samvinnumönnum í Rússlandi, að þeir hefðu verið ofsóttir eftir byltinguna. Ekki veit ég, hvaðan hann hefir þessar upplýsingar, en vel má vera, að einhverjir samvinnumenn hafi barizt gegn stj. og orðið fyrir barðinu ú henni, eins og aðrir andstæðingar hennar. Kommunistar í Rússlandi hafa einmitt eflt samvinnnfélögin mjög bæði til viðskipta- og framleiðslustarfsemi. Rússar segja sem svo, að samvinnan sé einn meginþáttur þjóðnýtingarinnar, eins og reyndar er viðurkennt allsstaðar í heiminum nema hjá samvinnuflokki hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. hefir þó einhvern pata af þessu, því að hann segir, að það sé ekki svo mjög um takmarkið, sem okkur greini á, heldur um leiðirnar, aðferðirnar, meðalið. Ég vil benda hæstv. ráðh. á að lesa um landbúnaðinn í Rússlandi í nýútkomnu Udenrigsministeriets Tidskrift, sem sýnir viðhorf Rússa til samvinnufélaganna og hinn geysilega vöxt félagsbúskapar þar. Það er alveg hlutlaus grein, sem vel má taka mark á.

Þá kom hæstv. ráðh. að því, sem má telja mikilsvert ágreiningsatriði milli mín og hans. Það er, hvort heppilegra muni vera að styðja eingöngu að smábýlastofnun og rekstri í sveitum, eða hlúa a. m. k. jafnframt að því, að upp rísi stórbú. Ég held því fram, að hæstv. ráðh. geti ekki spornað við því, að hér rísi upp búrekstur í stórum stíl, þess vegna sé um það að ræða, hvort þau bú eigi að vera eign einstakra manna eða félagseign, samvinnu- eða ríkisbú. Ég fyrir mitt leyti er viss um, að upp muni rísa stórbú í ýmsum héruðum, þar sem hægt er að nota hin fullkomnustu tæki og ræktunarskilyrði eru góð. Það er barnaskapur að spyrna á móti þessu. Rás viðburðanna verður ekki hnekkt. En það er hlutverk stjórnmálamanna að beina henni í réttan farveg.

Það vill auk þess svo raunalega til fyrir þessari hæstv. stj., sem segist vilja styðja að smábúskapnum, að hún með starfi sínu í landbúnaðarmálum vinnur beinlínis gegn þessu. Með aukinni ræktun, húsabótum og samgöngubótum hækka jarðirnar í verði, áhöfnin stækkar og dýrar vélar verður óhjákvæmilegt að kaupa. En því meira fé, sem þarf til þess að geta eignazt jörð og bú, þess færri geta orðið sjálfstæðir bændur. Það er nákvæmlega sama sagan og hefir gerzt við sjóinn. Meðan smábátarnir voru einu atvinnutækin, þá gátu mjög margir sjómenn orðið atvinnurekendur. En þegar vélbátarnir komu, fækkaði bátaeigendum, og því stærri og dýrari sem skipin urðu, því færri urðu eigendurnir. Vegna þeirrar þróunar, sem er að verða í landbúnaðinum, verður landið dýrara og dýrara, og því færri og færri, sem geta fengið umráð þess fjármagns, sem þarf til að kaupa jörð og reisa bú. En hinum jarðnæðislausu fjölgar, sem neyðast til þess að gerast þjónar þeirra, sem fénu ráða og jarðirnar eiga. Með því að reka stórbúin, t. d. með samvinnusniði, má sameina kosti stórrekstrar og smárekstrar. Þá hafa allir mennirnir, sem vinna að búunum, sameiginlegra hagsmuna að gæta og njóta ávaxta vinnu sinnar. En kosturinn við stóriðju er hagsýni í rekstri fullkomnustu véla til sem flestra verka.

Þetta er svo mikilsvert atriði í þróun landbúnaðarins, að það er óskaplegt að hugsa sér það, að um leið og sett er upp lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, skuli þess ekki verða vart, að nokkuð sé gert til þess að sigla fyrir skerin, sem hinn aðalatvinnuvegur okkar, útgerðin, hefir rekizt á.

Út af því, sem ég sagði um fjárframlög til landbúnaðarins, sagði hæstv. ráðh., að þetta væri rétt aðeins í byrjun. Ég ætla hann segði, að við værum búnir með 1%, en ættum eftir 99%. Ef hann hefir með þessu átt við framlagið til landbúnaðarins, sem hefir á síðustu þremur árum nær ferfaldazt við það, sem áður var, þá sé ég ekki annað en þar stefni til fulls ófarnaðar. Það er hreinn og beinn fíflskapur að gera ráð fyrir, að unnt sé að 90-falda eða 100-falda framlög ríkissjóðs til landbúnaðarins. En ráðh. hefir vonandi ekki átt við þetta, heldur hitt, hvað mikið væri yfirleitt óunnið að ræktun landsins. Þó get ég ekki neitað því, að mér finnst afar rík tilhneigingin hjá honum og flokki hans til að veita fé til landbúnaðarins, án þess að sjá fyrir því, að framtíðin hafi nokkurt gagn af því.

Mér fannst hálfpartinn, að þegar hæstv. ráðh. drap á það, hvernig stj. hefir séð fyrir hag annara stétta en bænda, þá vildi hann láta í veðri vaka, að allar sanngjarnar kröfur frá hendi jafnaðarmanna hafi fundið náð fyrir augum Framsóknarflokksins. Þetta er afar fjarri sanni. Það hefir ekki nema örlítið brot af þeim gengið fram. Jafnvel mál, sem ómögulegt er að skilja, hvers vegna fulltrúar bænda geta verið á móti, hafa verið drepin. Ég held ég verði að nefna nokkur af þessum málum, til áminningar hæstv. ráðh.

Það er nú nýbúið að fella hér í 4. eða 5. sinn frv. um forkaupsrétt kaupstaða að hafnarmannvirkjum. Mér er alveg óskiljanlegt, hvað stjórnarflokkurinn hefir á móti þessu. Það getur ekki orðið til tjóns fyrir nokkurn mann, en til þess að fyrirbyggja brask með fasteignir, sem á að nota sameiginlega fyrir íbúa kaupstaða og kauptúna.

Þá er frv. um bann gegn næturvinnu, sem er alveg hliðstætt við vökulögin fyrir togarana. Þetta frv. hefir stjórnarflokkurinn hvað eftir annað fellt í deildinni. Ekki skil ég, hvað í þessum lögum gæti verið andstætt hagsmunum bænda; það er eingöngu ráðstöfun til að vernda heilsu verkamanna, eins og á sér stað víðast í hinum síðaða heimi.

Þá vil ég nefna einkasölu á lyfjum. Það orkar ekki tvímælis, að verð á lyfjum er úr hófi hátt og engin trygging fyrir gæðum þeirra. Þessu þarfa máli var vísað frá á síðasta þingi með hinni ömurlegustu dagskrárómynd, sem ég hafi komizt í kynni við. Framsóknarmenn voru þar að verki. Sjúklingarnir eru skattlagðir til gróða fyrir lyfsalana.

Till. um alþýðutryggingar hefir hrökklast hér þing eftir þing. Ég vonast þó til, eftir ummælum hæstv. ráðh. nú, að hann hafi þau áhrif á sinn flokk, að till. gangi nú loks fram. Enda fæ ég ekki séð, að það skaðaði bændaflokkinn.

Fyrir liggur nú frv. um það, að Siglufjörður verði gerður að sérstöku kjördæmi. Væri það ofurlítil bót á því ranglæti, sem nú er framið með kjördæmaskipuninni. En Eyjafjarðarsýsla skal eftir sem áður halda sínum tveim þingmönnum fyrir sveitirnar, svo ekki þurfa bændur að óttast þetta.

Þá er frv. um 8 stunda vinnudag í verksmiðjum. Ekki get ég séð, að það sé bændum til miska að setja lög um þetta, og ekki kostar það neitt fé úr ríkissjóði.

Í fyrri flutti ég frv. um að fella niður 15% verðtoll af fatnaði og óbreyttum vefnaðarvörum. Nú er 18–20% tollur lagður á allan nauðsynlegan fatnað fátæks fólks í landinu, þegar vörutollur er talinn með. Ekki var við þetta komandi, og var þó bent á annan tekjustofn í staðinn, tóbakseinkasölu og 25% viðauka á tekju- og eignarskatti. Bændur hefðu notið góðs af þessari tollalækkun og verkalýður kaupstaðanna. En Framsókn vildi ekki.

Fjöldamörg þing áður en ég kom og eftir það hafa sífelldar breytingar verið bornar fram við fátækralögin. Tvennt var gert að aðalatriðum, að fella niður sveitarflutning, sem er einhver allra svívirðilegasti bletturinn á okkar löggjöf, og að fátækrastyrkur, þeginn vegna óviðráðanlegra ástæðna, svo sem sjúkleika, elli, slysa, atvinnuleysis eða ómegðar, verði ekki látinn varða mannréttindamissi. Ekkert hefir orðið ágengt, nema að því er snertir kosningar í málefnum sveita og kaupstaða. Enn þann dag í dag er það ekki einungis leyfilegt, heldur skylt að lögum ef krafizt er, að flytja fólk sveitarflutningi frá einu landshorni til annars.

Ég flutti í fyrra svokallað hýðingarfrv., um bann gagn líkamlegum refsingum, sem ég taldi til bóta, og sjálfur fræðslumálastjórinn mælti mjög eindregið með frv. Ég fæ ekki séð, að það myndi skaða bændastéttina neitt sérstaklega að samþ. slíkt frv. Ekki fékkst það.

Frv. fluttum við um takmörkun á sölu veiðarfæra, sem gerð eru upptæk af togurum, sem sektaðir eru fyrir landhelgisbrot. Varla er gott að sjá, að slík takmörkun geti orðið til miska fyrir landbúnaðinn, en erfiðara yrði þá fyrir landhelgisbrjóta að taka strax til sinnar fyrri iðju að skafa bátamið sjómanna. Ekki vildi Framsókn þetta.

Í fyrra fluttum við jafnaðarmenn till. um að rannsaka hag og rekstur togaraútgerðarinnar á undanförnum árum. Það hefði átt að vera samvinnumönnum áhugamál að láta þessa rannsókn fara fram, til þess að vita, hvort ekki væri hægt að finna heillavænlegra skipulag og þjóðnýtara en verið hefir til þessa. Þetta sá það ágæta blað Tíminn, og flutti skörulega grein um málið og krafðist rannsóknar eins og við. En flokkur hæstv. ráðh. sá enga ástæðu til þessa samt sem áður. Það hefði þó verið verkefni fyrir þá að athuga, hvort ekki mætti koma við samvinnurekstri á þessari atvinnugrein og fá á þann hátt betri úrlausn þessa mikilvæga atvinnumáls en fundizt hefir á undanförnum árum. Rannsókn gat að minnsta kosti ekki skaðað neitt; ekkert var ákveðið endanlega með rannsókn einni. En Framsókn vildi enga, alls enga rannsókn, þrátt fyrir öll gífuryrðin um stórkapítalistana í höfuðstaðnum.

Þing eftir þing höfum við flutt frv. um veðlánasjóð fiskimanna, til þess að þeir komist hjá að selja fisk sinn fyrir það verð, sem þeim er skammtað. Ekki hefir það fundið náð fyrir augum Framsóknar, og hjálpuðum við þó til við afgreiðslu laganna um Búnaðarbankann.

Þá má nefna verkkaupsveð, til þess að koma í veg fyrir, að verkamenn séu sviknir um kaup sitt. Ekki fann það heldur náð fyrir augum stjórnarflokksins. Þetta frv. var flatt í hv. Ed., en steindrepið við 1. umr.

Við höfum flutt frv. til laga um opinber reikningsskil hinna stærri hlutafélaga. Það náði ekki fram að ganga. Framsókn vildi ekki.

Öll þessi mál, sem ég hefi drepið á, eru sumpart réttarbætur og sumpart beinlínis hagsmunamál alþýðu. Ekkert af þeim málum kostar ríkissjóð fé og ekkert þeirra getur orðið til miska bændastétt landsins. Og víst er um það, að full var þörf þess fyrir verkamenn í kaupstöðum að fá þær réttar- og hagsbætur, sem í þessum frv. felast. En hæstv. stj. og flokkur hennar hafa ekki verið glögg skyggn á þörf þeirra. Þó mun það vera svo, eftir því sem ég bezt veit, að hæstv. stj., sérstaklega hæstv. forsrh., hefir tjáð sig velviljaðan mörgum af þessum málum, og ég efast ekki um, að hann meini það. En svokallaður velvilji hans stoðar lítið, ef ekki er sá manndómur í honum, að hann fylgi málunum eftir hjá flokki sínum. Skylda hvers góðs drengs er að berjast fyrir framgangi þeirra mála, sem hann telur til þjóðarheilla.

Ég skal ekki að þessu sinni fjölyrða neitt um svör hæstv. ráðh. við þeim 10 atriðum, sem hann kallaði eldhúskaflann í ræðu minni, enda hefi ég drepið á nokkur þeirra óbeinlínis. En ekki get ég leitt hjá mér að svara því, sem hann sagði um kjördæmaskipunina. Ég spurði, hvort stj., sem telur sig fylgja lýðræði og viðurkennir, að mjög sé misjafnað rétti manna nú í þessu efni, vildi ekki gera ráðstöfun til að bæta úr þeim ójöfnuði. Svar hans var, að það væri hróplegt ranglæti að breyta kjördæmaskipuninni í það horf, að höfðatalan réði. Þetta er einhver sú fáránlegasta og ósvífnasta yfirlýsing, sem ég hefi heyrt. Hæstv. ráðh. taldi það hróplegt ranglæti að breyta kjördæmaskipuninni á þá leið, að höfðatalan yrði látin ráða. Við hvað vill ráðh. miða, ef ekki höfðatöluna, þ. e. fólksfjöldann. Vill hann miða við flatarmál héraða, peningaeign bænda eða framsóknartrú? Mér er ekki kunnugt um annað, en að um kosningarrétt manna sé farið eftir höfðatölu kjósenda í öllum lýðfrjálsum löndum, nema þar sem gamlar venjur viðhalda svipuðu ranglæti og viðgengst hér á landi. Að láta kjósendur á Seyðisfirði hafa sexfaldan atkvæðisrétt á við kjósendur í Reykjavík er hið hróplegasta ranglæti.

Ástæðan, sem hæstv. forsrh. færði til stuðnings sinni skoðun var sú, að vaxtarbroddur þjóðlífsins ætti að vera í sveitunum, og að bændur ættu að halda sinni aðstöðu til að hafa fleiri fulltrúa á Alþingi en eðlilegt er eftir höfðatölu, til þess að efla landbúnaðinn með auknum fjárstyrk og fríðindum frá þjóðfélaginu.

Þetta er ranglæti gagnvart öllum öðrum stéttum, tvöfalt ranglæti. Fyrst að svipta þær stjórnarfarslegum rétti og síðan í skjóli þessa að taka af sameignarsjóði þjóðarinnar framlög til einnar stéttar á kostnað allra hinna. Engin ástæða er til að láta bændur hafa óeðlilega háa fulltrúatölu í þinginu, því að það hefir ekki verið tekið stirðlega í landbúnaðarmálin af þingfulltrúum annara stétta, þvert á móti.

Ég ætla, að hæstv. ráðh. hafi sagt, að á næstkomandi 10 árum myndi fólksstraumurinn beinast út í sveitirnar, og að eftir þann tíma mundi verði komið fullt jafnvægi á fólkstöluna í kjördæmunum, svo að sveitakjördæmin gætu haldið sínum meiri hluta eftir sem áður. Mér þykir þetta ekki trúlegt, en þótt svo færi, breytir það engu. Bændur fengju þá eftir till. okkar af sjálfu sér fleiri þm.

Ég held ég sleppi því að mestu að minnast á Íslandsbankamálið nú. Hæstv. stj. hallaðist að nauðsynjalausu á þá hlið, sem síður skyldi, áður því máli lauk, með því að taka á ríkissjóð og Útvegsbankann meiri hlutann af tapi Íslandsbanka.

Ég held, að ég hafi svo ekki fleira að segja við hæstv. forsrh., nema að ég þakka honum fyrir hinar hlýju óskir hans í minn garð um velgengni við næstkomandi landskjör, sem nú fer í hönd. En ég veit að verk hans veita mér meiri stuðning en óskirnar þessar. Hæstv. ráðh. verður að una því, þó að við jafnaðarmenn græðum ekki síður á syndum hans en Íhaldsins, og drögum atkv. frá hans flokki.

Að lokum vil ég aðeins segja það um ræðu hæstv. ráðh. sem heild, að öðru leyti en því, sem snertir ágreining okkar um landbúnaðarpólitík stj., kjördæmaskipun o. fl., sem ég hefi nefnt, að ræðan virtist bera vott um góðan hug og velvild ráðh. til ýmsra þjóðþrifamála og umbóta. En hæstv. ráðh. má þó ekki láta sér nægja að tala hlýlega um þessi mál. Hann verður að gera eitthvað. Ráðh. er settur í þá stöðu til að koma því í framkvæmd, sem hann telur til gagns. Því miður hefi ég minni trú á framkvæmdum ráðh. en góðum áformum. Varalið Íhaldsins, flokksmenn ráðh., reyna sjálfsagt hér eftir sem hingað til að gera sig kámuga af umbótastarfsemi. Og ráðh. hefir oft beygt sig fyrir þeim.

Er hæstv. dómsmrh. genginn af fundi? Ég kem ekki auga á hann hér í deildinni, en við hann ætla ég að mæla nokkur orð. Það hefir viljað svo einkennilega til, að við höfum báðir rætt mikið um sama málið, án þess að hann hafi nokkuð svarað mér beinlínis. Ég hygg, að við höfum skýrt málið til fulls sameiginlega.

Ég lét þess getið í fyrri ræðu minni, að það væri einkennileg háttsemi af hæstv. ráðh. að flytja á þremur þingum sama frv., um eftirlit með loftskeytum til togaranna, sem hann vill láta líta út fyrir að honum sé áhugamál, og að minnsta kosti er gott mál og gagnlegt, en nú á þessu þingi er það drepið af flokksmönnum hæstv. ráðh., nokkrum varaliðsmönnum Íhaldsins í Framsóknarflokknum. Ég drap á þetta sem sönnun þess, að þetta mál væri aðeins notað sem agn fyrir kjósendur, þar sem stjórnarflokkurinn hirti ekkert um að styðja málið í þinginu; og nú hefir hæstv. dómsmrh. sjálfur staðfest þessa ályktun mína með þeim orðum, sem hann lét falla um afdrif frv. En þau voru eitthvað á þessa leið: Ég býst við að ég græði á því, að ég hefi sýnt góðan vilja og viðleitni í þessu máli.

Hér verður ekki um villst, hæstv. ráðh. býst við að kjósendur meti þessa viðleitni hans og kjósi hann fyrir, þó flokksmenn hans drepi frv., það finnst honum skipta minna máli og vera næstum aukaatriði. Málið á sýnilega aðeins að vera kosningamatur. Varalið Íhaldsins í Framsóknarflokknum mun drepa það enn, og þannig má halda áfram að nota það þing eftir þing, sem sönnun fyrir góðri viðleitni ráðh. og vonzku Íhaldsins.

Hæstv. ráðh. sagði, að togarafélögin, sérstaklega Kveldúlfur, berðist ákaft á móti þessu frv. og vildu ekki, að það yrði að lögum, enda hefðu þau ástæðu til þess. Og svo gera flokksmenn ráðh. það togarafélögunum til geðs að drepa frv. Ég held, að það sé ekki hægt að fá gleggri staðfestingu en þetta er, fyrir því, sem ég hefi sagt um hlutverk og aðstöðu varaliðsins í Framsóknarflokknum.

Hæstv. dómsmrh. talaði nokkuð um áfengismálin út af ræðu minni og hv. þm. Borgf. Sagði hann réttilega, að í Morgunblaðinu hefði verið skrifaðar verri og svæsnari greinar um það mál heldur en í Tímanum, og þrátt fyrir þá grein sína, sem alltaf væri vitnað til, þá væri langt bil á milli hennar og þeirra rótarlegu greina, sem Morgunbl. hefði flutt um áfengismálin. Ég hélt nú, að hæstv. ráðh. vildi taka sér eitthvað sæmilegra en Mbl. til samanburðar, og að hann mundi ekki miklast af því, þó að hann stæði Morgunbl. framar að rithætti. Hæstv. ráðh. var upphaflega mótfallinn kröfum Spánverja. En nú virðist mér það vera meining hæstv. ráðh., að hann vilji ekki leggja út í þá glæfrapólitík að leita eftir því, hvort fáanlegar eru breytingar á samningnum við Spánverja. Þetta fæ ég ekki skilið. Það er sitt hvað að segja samningnum upp, eða að leita eftir því, hvort unnt er að fá honum breytt, t. d. þannig, að fækka megi útsölustöðum vinanna o. s. frv. Það er hreinasta fjarstæðu að nefna slíkt glæfrapólitík. Við getum boðið Spánverjum ívilnanir í tollkjörum á öðrum vörum, t. d. salti, ávöxtum og ýmiskonar iðnaðarvörum, sem við kaupum af þeim, og fjárhagslega mundu þeir hafa meira upp úr því heldur en vínsölunni.

En setjum nú svo, að þetta væri glæfrapólitík. Var það þá ekki líka glæfrapólitík, þegar hæstv. dómsmrh. krafðist þess áður sem þm. af íhaldsstj., að hún legði niður ýmsa útsölustaði vínanna. Nema að hann þá hafi aðeins gert það til þess að sýna þjóðinni hina góðu viðleitni sína. En vafasamt er, að sú viðleitni komi honum að haldi nú. Hæstv. ráðh. má gæta þess, að tekin er að dofna sú tiltrú, sem þjóðin hafði fengið á áformum hans í þessu máli. Veldur því aðgerðarleysi hans síðan hann komst að völdum, til þess að draga úr vínsölunni í landinu.

Í þessu sambandi vil ég gera þá fyrirspurn, hvort að Hótel Borg hafi fengið vínveitingaleyfi. Ég geri ráð fyrir, að það sé alveg ónauðsynlegt með tilliti til Spánarsamninganna. Ég hefi heyrt sagt, að það vínveitingaleyfi, sem eigandi að Hótel Ísland hafði, hafi fallið niður þegar hann dó, og ekki fylgt með í sölunni. Hér er um beina aukningu að ræða frá því sem áður var, stærra húsnæði og þess vegna meiri vínsölu.

Þá vil ég víkja lítið eitt að ræðu hv. þm. Mýr. Ef ég þekki rétt blaðið Tímann og málstúlkun Framsóknarflokksins, þá býst ég við, að bráðlega komi grein í Tímanum undir þessari fyrirsögn: Kenning Bjarna Ásgeirssonar í vaxtamálinu, og önnur, sem héti: Kenning Bjarna Ásgeirssonar um hlutverk miðflokka.

Ég hlýddi á vaxtafræði hv. þm. með mikilli athygli, en sé ekki ástæðu til að víkja að þeim hluta ræðunnar nú, enda var þar lítið nýtt og ekkert, sem máli skipti.

Hv. þm. talaði um tilverurétt milliflokka og taldi þeim margt til gildis, og aðallega það, að úti í löndum væru jafnaðarmenn orðnir milliflokkar á milli kommúnista annarsvegar og íhaldsmanna hinsvegar. Ég hefi ekki rætt þetta spursmál og fer ekki langt út í það nú. En ég álít, að í stjórnmálabaráttunni hljóti milliflokkarnir smám saman að þverra og líða undir lok.

Ég hafði aftur á móti talað um samloðunarleysið eða sundrungina í Framsóknarflokknum. En að því vildi hv. þm. lítið víkja, enda er það mál honum viðkvæmt og nákomið.

Þá talaði hann mikið um skipulagsmál og atvinnumál. Það kann að vera, að ég hafi ekki fylgzt vel með ræðunni, enda átti ég erfitt með að skilja suma kafla hennar. Hann kallaði Framsóknarflokkinn samvinnuflokk í skipulagsmálum, en bændaflokk í atvinnumálum, og talaði margt um skipulagsmál og atvinnumál. Ég verð að játa þá fáfræði mína, að ég skildi ekki þessa þjóðhagsfræði hv. þm. að telja skipulagsmálin óskyld og óviðkomandi atvinnumálum. Ég hefi álitið, að þetta tvennt yrði ekki aðgreint, hvort út af fyrir sig, skipulagsmál og atvinnumál. Því orðið skipulagsmál fjallar einmitt um skipulagið á atvinnumálum, verzlun, síldarútveg, landbúnaði o. s. frv. Kenning hv. þm. Mýr. í hagfræði er nýstárlegri en í vaxtamálunum. Hvort sem einn flokkur hefir samvinnu- eða samkeppnisskipulag á verzlun sinni og atvinnumálum, þá getur hann í báðum tilfellum verið bændafl. Hafi hv. þm. meint nokkuð af viti með þessu, þá hefir það farið fram hjá mér. — Hv. þm. lýsti ástandinu í sveitunum þannig, að þar væri róið upp á líf og dauða, og þess vegna væri rangt að telja eftir það fé, sem veitt væri til þess að rækta landið og bæta aðstöðuna í sveitunum. Ég held það sé ekki rétt, að þar sé róið upp á líf og dauða, fremur en fátæklingar gera, hvaða atvinnu sem þeir stunda. Ég hefi haft sérstaka aðstöðu til þess að kynna mér þetta við starf mitt í skattamálanefndinni. Í sveitum landsins og utan kaupstaðanna eru um 14 þús. gjaldendur til tekju- og eignaskatts, og miðað við fólksfjöldann er það hærri hundraðstala af íbúum en í kaupstöðum. Skatturinn, upphæðin, er að vísu mikið lægri í sveitunum en kaupstöðunum, því að hátekjumenn eru þar aðeins örfáir, en persónufrádráttur er þar jafn og í kaupstöðunum, 2500 kr. á hvert 5 manna heimili, en þetta eru mun lífvænlegri tekjur í sveit heldur en sama upphæð í kaupstað. Skattskýrslurnar sýna það líka, að eignirnar eru meiri í sveitunum, þegar miðað er við fólksfjölda, heldur en í bæjunum. Einhverntíma hafa þessar eignir safnazt. En ég viðurkenni fyllilega, að það eru nú að ýmsu leyti örðugri tímar fyrir landbúnaðinn en aðra atvinnuvegi. Það er ætíð svo, þegar verið er að breyta einhverri atvinnugrein í nýtt horf. Og það er það, sem nú er gert í sveitunum. Slíkt heimtar fyrst og fremst fé, mikið fé.

Ég tel það ekki eftir þó að varið sé miklu fé til þess að breyta landbúnaðinum í það horf, sem nútíminn heimtar. En ég tel það eftir, að fé því, sem varið er til að rækta jörðina og til samgöngubóta, skuli vera úthlutað sem gjöfum til einstakra manna, án þess að þjóðfélagsaðstaða bænda í framtíðinni sé nokkuð bætt, og vísa ég um það efni til þess, sem ég hefi áður svarað hæstv. forsrh.

Hv. þm. sagði, að með jarðræktinni væri aukið verðmæti landsins, sem er eign þjóðarinnar. Ef það væri rétt, þá þyrfti ekki út á það að setja. En það er ekki rétt. Jörðin er ekki eign þjóðarinnar, heldur tiltölulega fárra einstaklinga. Arðurinn af ræktun jarðarinnar og verðhækkun landsins rennur til þeirra, sem teljast eigendur jarðanna. Og þegar þeir svo selja jarðirnar dýru verði og flytja sig til kaupstaðanna, þá stinga þeir verðhækkuninni í sinn vasa, en láta notendur landsins borga sér afborgun og vextina af hinu hækkaða jarðaverði, sem hækkað hefir vegna opinberra umbóta.

Hv. þm. sagði, að sú króna, sem gengi til þess að ræktalandið, gæfi vexti um aldir, og það er rétt. En vextirnir renna í vasa þeirra manna, sem eiga jarðirnar og selja þær, og hverfa þannig frá landbúnaðinum. Þeir eru verðhækkunarskattur, sem ábúendur verða að greiða um aldir.

Hv. þm. talaði um, að áttaviti okkar jafnaðarmanna væri gallaður. Við gætum ekki viðurkennt, að til væru aðrar áttir í stjórnmálum en austur og vestur, suðrið vildum við ekki telja með áttum, en það væri átt Framsóknarflokksins. Ég skal ekki deila við hann um það, hver muni vera átt Framsóknarflokksins. Ég held satt að segja, að hann snúist í allar áttir áttavitans. Og hv. þm. er áreiðanlega að fara meir og meir til vesturs, á sveif íhaldsins, og er það leiðinlegt um svo ungan mann, að hann skuli sækja svo fast í sólsetursáttina. Ég uni mér vel við austrið.

Hv. þm. kom með nokkrar athugasemdir um þjóðnýtingu og samvinnu. Grundvöllur samvinnustefnunnar er réttur eins og hann var lagður af forgöngumönnum félagsskaparins hér á landi, þar sem fjármagnið er ekki látið ráða, heldur þátttaka einstaklinganna í félagsskapnum. Slík samvinna er einmitt einn þáttur í þjóðnýtingunni, eða grein af henni, og hana geta jafnaðarmenn vitanlega aðhyllzt. Ríkisrekstur er ennfremur önnur tegund af þjóðnýtingu, en venjulega er þessu ruglað saman í riti og ræðum af þeim, sem lítið skyn bera á félagsmál og halda, að ekkert sé þjóðnýting nema hreinn ríkisrekstur.

Hv. þm. Mýr. lauk máli sínu með því að lýsa því yfir, að hann hefði ekki meint neitt ljótt með því, sem hann var að tala um kámið, sem hann hefði fengið af jafnaðarmönnum. Sagðist hann hafa átt við stjórnmálakámið almennt frá báðum andstöðuflokkum Framsóknar. Hann tók það nú fram, að þó að almenningur skildi ekki þessa aðstöðu Framsóknarflokksins, að vera stundum með íhaldinu og stundum með jafnaðarmönnum, þá verkuðu þau mök á víxl, til að hreinsa af Framsókn kámið af hinum flokkunum. Áhrifin úr austri yrðu til þess að upphefja áhrifin úr vestri.

Þó að þessi grautargerð hv. þm. sé lítt skiljanleg og gefi helzt í skyn, að flokkur hans geti ekkert gert, þar sem hann stöðugt er „undir áhrifum“, sem upphefja hvert annað, þá er það þó víst, að þetta er allt annað en það, sem kom fram í ræðu hans áður hér í deildinni, og bendir það á, að hv. þm. sé nú farinn að iðrast oflátungsháttarins og gífuryrðanna.

Það var skrítin samlíking hv. þm. um Framsóknarflokkinn og mjaltakonurnar, og ekki í góðu samræmi við það, sem kom fram í fyrri ræðu hans. Þar var svo að heyra, að jafnaðarmenn hefðu mjólkað Framsókn, en með samlíkingunni virðist hv. þm. hafa snúið þessu við, því að nú telur hann, að Framsókn mjólki bæði Íhaldsflokkinn og Alþýðuflokkinn. Ég hélt að þetta væri á annan veg samkv. þeim eftirtölum, sem hv. þm. hafði um stuðning Framsóknar við umbótamál jafnaðarmanna. Samlíkingin virðist því aðeins geta verið rétt, ef hún á við hann einan og hv. þm. viðurkennir, að sú mynd sem hv. 2. þm. Reykv. gaf af honum, sé sannleikanum samkvæm, þar sem hann lýsti því, hversu hv. þm Mýr. æti til skiptis úr jötum Íhalds og Framsóknar, og væri á stöðugum hlaupum á milli þeirra á víxl.

Ef hv. þm. vill heldur kalla þetta t. d. að sjúga til skiptis spena Íhalds og Framsóknar, þá má hann það mín vegna. Og þá er eðlilegt, að honum sé þörf þvottarins.

Ég er satt að segja í stökustu vandræðum með að svara hv. 2. þm. G.-K. Hann las upp með miklum fjálgleik sama kaflann úr Njálu, sem ég hafði lesið upp, kaflann um orðaskipti þeirra Snorra goða og Flosa. Og mér skildist hv. þm. álíta það, að þeir, sem nú léku hlutverk þeirra liðsmanna Flosa værum við jafnaðarmenn. Ég skal aðeins svara hv. þm. því, að eftir þeim kafla, sem hann las upp, höfðu þessir menn, Þorvaldur kroppinskeggi og Kolur verið í liði Flosa, en við jafnaðarmenn höfum aldrei verið íhaldsmenn og verðum það aldrei.