05.04.1930
Efri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Frsm. (Jón Jónsson):

Eins og þeir hv. þdm., sem viðstaddir eru, heyrðu, eru aðeins tvö atriði, sem ber á milli meiri hl. landbn. og hv. 4. landsk.

Hið fyrra er um kostnaðinn af grenjavinnslu í heimalöndum jarða. Meiri hl. leit svo á, að sanngjarnt væri, að sá, sem á að njóta hagnaðarins, bæri og kostnaðinn að sama skapi. Hv. þm. talaði um afdalakot, sem hefðu stórar lendur, og verð ég að játa, að ég er óvanur að heyra talað um „kot“ af því tægi. Það getur samt kannske komið fyrir, að mörg gren séu í landi sömu jarðar, þótt það muni vera næsta fágætt. Er og mjög ósennilegt, að fyrir þessar sakir verði mikill kostnaður af grenjavinnslu, nema eftirtekjan verði þá einnig talsverð. Þótt kostnaður kynni þá að fara fram úr hagnaði eitt árið, má búast við, að það ynnist upp á næsta ári eða fáum árum. — Hv. þm. talaði um, að ábúendur jarða, þar sem gren eru, hefðu goldið sinn skatt til grenjavinnslunnar með því, að fé þeirra mundi meira bitið en annara. En það er nú svo einkennilegt, að „sjaldan bitur refur nærri greni sínu“, og því verða þessir bændur oft fyrir minni skaða af dýrbit en nábúar þeirra, sem hafa engin gren í sínu landi. Ég get því ekki fallið frá brtt. n. um þetta atriði.

Dýralækniseftirlitið er hitt atriðið, sem hv. 4. landsk. lagði svo sérstaklega mikið upp úr. Ég veit nú ekki, hversu mikils virði það er, meðan búin starfa. Vitanlega er sjálfsagt að athuga dýrin ávallt, áður en þau eru send til annara landa. Annars sýndist mér meira vit í því að láta t. d. héraðslækni líta eftir refabúunum öðru hverju, heldur en að þurfa alltaf að kosta ferð dýralæknisins, máske heilan landsfjórðung á enda. Mér virðist hætt við, að það eftirlit yrði allkostnaðarsamt, og gæti það orðið til að draga úr mönnum um að ráðast í þennan atvinnuveg, sem sýnist vera að verða allblómlegur.