09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

2. mál, fjáraukalög 1928

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Hv. 1. þm. Skagf. hélt, að við í meiri hl. hefðum verið að flytja þessar brtt. bara til þess að gera fjáraukalögin eitthvað betri fyrir stj. Ég hafði aldrei vikið að endurskoðendunum eða hv. 1. þm. Skagf. um neitt hlutdrægt í þessu máli. En manni liggur við að ætla, að hann hafi einmitt sett þetta inn í fjáraukalagafrv. til þess að fá það hækkað svo, að það yrði eitthvað í námunda við fjáraukal. miklu, og til þess að geta haft þau með sér í töskunni við næstu kosningar. (MG: Ég get þá bara haft frv. stj. með!). Ég segi þetta aðeins af því að hv. þm. er að gera mér getsakir.

Um berklavarnakostnaðinn get ég sagt, að það er rétt, sem stendur í nál. meiri hl., að ekki hafi verið leitað aukafjárveitingar fyrir umframgreiðslum samkv. þessum lögum, sem hafa þó verið til frá 1921. Því hv. 1. þm. Skagf. ætti að vera það kunnugt, að lögin um berklavarnir gengu í gildi um miðjan nóv. 1921, og í landsreikningnum fyrir það ár stendur í 24. gr., að það sé greitt samkv. þessum lögum; og þó segir hv. þm., að sú greiðsla hafi farið fram samkv. öðrum lögum. Ef hv. þm. hefir rétt fyrir sér, þá er landsreikningurinn fyrir þetta ár rangur. (MG: Ég bjó hann ekki til og þarf ekki að svara fyrir hann). Hann getur verið rangur fyrir því, þótt það sé miklu ósennilegra.

Að hve miklu leyti þetta er framkvæmdaratriði, get ég ekki verið að þrátta um, því að meira og minna af þessum lagaákvæðum er framkvæmdaratriði, þótt umframgreiðslur hafi aldrei verið teknar í fjáraukalög. Ég held, að þetta atriði hafi ekki valdið miklu hjá endurskoðendum, þegar þeir gerðu sínar till., því að þeir tóku um 38 þús. kr. umframgreiðslu til sýsluvegasjóða, og þó veit hv. 1. þm. Skagf., að ríkisvaldið hefir ekki neinn ákvörðunarrétt um, hvað þetta er mikið. Það verður að borga út eftir því, hvaða ákvarðanir sýslunefndir taka í vegamálum sínum, nema ef telja má, að það sé ákvörðunarréttur, að vegamálastjóri á að leggja samþykki á framkvæmd slíkra mála í héraði. En það er þá seilzt alllangt eftir framkvæmdarvaldi ríkisins í þessum efnum.

Annars virðist mér það dálítið einkennileg aðstaða, að halda svo fast í þetta, þrátt fyrir ríkjandi venjur um að taka þetta ekki upp í fjáraukalög, þar sem á þingi 1923 voru felldar niður sumar af þessum umframgreiðslum, og allar brtt., sem gerðar voru við fjáraukalögin, voru samþ. með 22—24 shlj. atkv. Svo að þessir hv. þm. hafa gert annað tveggja, að greiða atkv. með þeim eða sitja hjá, en það hafa þó ekki margir gert.

Ég sé því ekki, að veruleg ástæða sé fyrir þá til þess að berjast svo fast fyrir þessu, því að þótt það væri tekið upp í fjáraukalögin, þá er svo langt frá, að komið sé nokkru nær þessu takmarki þeirra, nema örfáir liðir fleiri væru teknir upp. En þeir, sem eftir verða, eru einmitt liðir, sem frekar ættu að koma í aukafjárlög; t. d. ættu flestallar aukagreiðslur að koma þar, ef liðurinn um sýsluvegi verður settur í frv.

Um hitt atriðið, hvort ég vildi vera með þeim í því að samþ. þáltill. um að taka allar umframgreiðslur á útgjaldaliði, vil ég segja, að mín skoðun er sú, að það þurfi að breyta formi fjáraukalaganna og gera það — fullkomnara. En ég sé ekki, að ég geti lagt neitt ákveðið til í því efni nú. Ég vil láta stj. ath. það mál, eins og hún virðist líka vera ákveðin í því að leggja til, að breytt verði forminu á landsreikningnum og hann færður í fullkomnara og ljósara form en nú er. Ég vil, að þetta sé gert af stj. og því betra, sem það yrði fyrr gert.

En ég vil ekki vera með í því nú að ákveða eitthvert fast form, nema þá að halda sér við það form, sem nú hefir verið ríkjandi um tíma.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Það virðist á þingi 1923 hafa verið gengið alveg umræðulaust inn á brtt. n, við fjáraukalögin fyrir 1921, og það með miklum atkvæðamun, og mér þykir sennilegast, að allir þdm., sem þá voru við, hafi greitt atkv. með þeim. (SE: Vitleysan er ekkert betri, þótt hún hafi komið fyrir áður). Þá var sýnt fram á, að það væri í meira samræmi við stjskr.; það var talað rækilega um það og bent á það í nál., svo að það hefir ekki síður verið ljóst fyrir þeim þá heldur en nú. Og ég vænti þess, að hv. þm. Dal. og hv. 1. þm. Skagf. hafi það álit á Jakobi Möller, að hann hafi getað gengið svo frá þessu fjáraukalagafrv., að það væri nokkurnveginn forsvaranlegt að ganga inn á þær brtt., sem hann vildi við það gera, en nú virðist mér þeir jafnvel falla frá þeim skoðunum, sem þeir áður höfðu.

Og meðan þetta frv. svífur hálfgert í lausu lofti, þá er bezt að lofa því að vera í því sniði, sem þinginu hefir hingað til þótt réttast.