08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

3. mál, landsreikningar 1928

Fjmrh. (Einar Árnason):

Umr. virðast upp á síðkastið komnar nokkuð út frá því, sem fyrir liggur. Væri réttara að halda sér betur við það. Mönnum kemur ekki saman um, hvernig færa skuli innskotsfé ríkissjóðs í Landsbankanum. Ég verð frekar að hallast að skoðun hv. 1. þm. Reykv. í því efni. Annaðhvort á þessi upphæð í heild að vera í landsreikningnum eða ekki að vera þar. Það, sem okkur hv. 1. þm. Reykv. ber á milli, er, að hann telur rétt, að þetta sé fellt niður sem tap. Þó að þessir peningar skyldu vera tapaðir, þá skuldar Landsbankinn stranglega tekið ríkissjóði þessa upphæð. Ef liðurinn er strikaður út, er viðurkennt með því, að bankinn þurfi aldrei að standa skil á þessu fé. Því má ekki gleyma, að í lögum er svo ákveðið, að Landsbankinn skuli greiða ríkissjóði gjald fyrir þetta fé, hvort sem það er nú kallað vextir eða ágóðahluti. Því álít ég, að þetta sé skuld, sem ríkissjóður geti að vísu ekki krafið hann um, en verði þó að standa sem eign ríkissjóðs í Landsbankanum, og að bankinn verði á sínum tíma að greiða ágóða af henni. Mér virðist millivegur hv. fjhn. hvorki vera fugl né fiskur bókfærslulega séð. Nú liggur hvort sem er ekki fyrir að greiða atkv. um neinn úrskurð á því, hvernig þetta verði útkljáð, hvernig eigi að færa þetta framvegis. Stj. hefir tekið upp þá reglu, sem hún telur réttasta.

Hv. 1. þm. Skagf. minntist á nokkrar aths. við landsreikningana, þær sem gerðar eru af yfirskoðunarmönnunum og hér eru prentaðar. Þessum aths. hefir verið svarað, eins og venjulegt er, og þau svör liggja hér fyrir. Ég sé ekki ástæðu til að fara að rifja upp hverja aths. Sumt af því, sem hv. sagði, var eiginlega endurhljómur af því, sem talað var um á eldhúsdegi í fyrra, og síðan uppi í Borgarfirði og víðar. Það var t. d. kostnaður af hestaeign og bifreiðum. Ég held, að það þýði ekki fyrir okkur að fara að jagast út af þessu. Það má búast við, að bifreiðakostnaðurinn fari heldur vaxandi en minnkandi í framtíðinni, a. m. k. get ég ekki gefið neina von um, að hann hverfi. (MG: Fari vaxandi hjá landhelgissjóði?). Fari vaxandi hjá ríkinu yfir höfuð. Sama hvar það verður fært. Hv. þm. spurði um viðlagasjóð og skuld hans við ríkissjóð. Ég sé í rauninni ekki ástæðu til að segja annað en það, sem stendur í svörum við aths. endurskoðendanna um þetta allt saman. Ráðstafanir hafa verið gerðar til, að ríkissjóður geti fengið sitt frá viðlagasjóði, því að ég taldi ekki rétt, að hann festi þar fé sitt. Til þess þurfti viðlagasjóður að taka lán. Ég skal taka fram, að skriflegir samningar voru ekki komnir á um það við áramót, en svo var frá gengið, að ég býst ekki við öðru en að þessi skuld hverfi á árinu. (MG: Hvar er lánið tekið?). Ég get að svo stöddu ekki skýrt frá því, enda skiptir það ekki máli. Ég sé ekki ástæðu til að lengja orðræður um þetta: Um greiðslurnar frá 1928 hefi ég lítið að segja. Ég átti ekki sæti í stj. þá þó að mér að sjálfsögðu beri nú formlega að svara fyrir þær. En ég sé ekki ástæðu til að taka upp neinar eldhúsumr. um þessar löngu liðnu ráðstafanir.