08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

3. mál, landsreikningar 1928

Ólafur Thors:

Ég verð að láta í ljós undrun mína á því, hversu lengi menn hafa getað deilt um það, hversu færa beri þá 1½ millj. króna, sem hér hefir verið til umr. Það orkar ekki tvímælis, að till. fjhn. er rétt. Ég skil ekki; hvernig á því stendur, að jafnglöggur maður og hv. 1. þm. Reykv. áttar sig ekki á þessu. En hann hefir endilega þurft að blanda sér í þessa deilu, til að sýna, að hann er þó ekki alveg óskeikull. Ef hér væri um „lifandi“ skuld að ræða, ætti vitanlega að telja hana með eignum ríkissjóðs. Ef hún væri algerlega „dauð“, þ. e. töpuð, ætti að strika hana út með öllu. En nú er þessi skuld hvorugt. Hún er að vísu „dauð“ í bili, en stendur svo á, að hún getur lifnað aftur hvenær sem er. Þess vegna er till., að telja skuldina til eigna ríkissjóðs, en bókfæra hana innan striks, alveg sjálfsögð. Ef haldið er þeirri aðferð, sem þeir vilja, hæstv. fjmrh. og hv. þm. V.-Húnv., þá er beinlínis um falskt bókhald að ræða. Ef einkafyrirtæki ætlaði að útvega sér lán, mundi það varða við lög að sýna bækur, þar sem einskisverðar eignir eru taldar með fullu því nafnverði, sem þær eitt sinn höfðu. Það er hlægileg viðbára hjá hv. þm. V.-Húnv., að frekar megi telja þessa skuld til eignar með fullu verði fyrir þá sök, að margt fleira í landsreikningi orki tvímælis.

Alveg sama máli gegnir um pundaskuldina. Það er vitaskuld rétt hjá fjhn., að hana á að færa með því gengi, sem nú er. Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að það ætti að gera, ef gjaldeyririnn væri verðfestur. Þetta er óþarfur fyrirsláttur, því að allir vita, að raunverulega er búið að festa íslenzku krónuna, þar sem hún er. Fyrir því getur hv. þm. eins verið því fylgjandi að leiðrétta þessa misfellu nú.

Út af umframeyðslunum til persónulegra styrkveitinga vil ég segja, að aðfarir hæstv. stj. eru mjög ógeðfelldar. Á það ekki sízt við nú, þegar hin mannfærri deild Alþingis er að taka ráðin af Nd. um persónulega styrki. Hér höfðu við meðferð fjárlfrv. verið samþ. nokkrar slíkar greiðslur, vitanlega á fullkomlega löglegan hátt. Nú eru þær því nær allar skornar niður við trog af harðstjórunum í hv. Ed., og er okkur 28 hér ætlað að sætta okkur við úrskurð þeirra 14. Þessi aðferð hv. Ed. er þeim mun undarlegri fyrir þá sök, að sú hv. deild hlýtur að vita, að hæstv. stj. virðir sparnaðarvilja hennar alveg að vettugi og bruðlar ríkisfé eins og henni sýnist til stuðningsmanna sinna, þótt ekki sé snefill af heimild til þess í fjárlögum. En það tel ég rangt, að ríkissjóður sé ausinn til þess að kaupa ríkisstj. fylgi, en þeir fái enga styrki, sem lögbær aðili — neðri deild Alþingis — hefir viljað veita þá.