11.04.1930
Neðri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (2135)

361. mál, fjáraukalög 1929

Pétur Ottesen:

Ég skal taka það fram, að ég snéri máli mínu ekki til hv. 2. þm. Árn., heldur eingöngu til hæstv. stj. Stj. verður í þessu efni vitanlega að bera ábyrgð á gerðum sínum gagnvart þinginu, en ekki hv. 2. þm. Árn. Hvað farið hefir milli hans og hæstv. stj., kemur þinginu ekki við. Það er eingöngu stj., sem ég snéri máli mínu til. Hér eru 2 ráðh. staddir í deildinni, og er ég í mínum fyllsta þingmannsrétti, er ég geri kröfu til, að upplýst sé um, hvernig á þessari greiðslu stendur. Fáist engar upplýsingar um þetta mál frá stj., verður hver þdm. að gera upp við sig, hvernig hann lítur á heimild stj. til fjárgreiðslna í heimildarleysi, án þess að gera grein fyrir þeim.

Þar sem hv. 2. þm. Árn. talaði um að taka mig til bæna við eina umr. fjárl., skal ég játa hann vita, að ég mun að mér heilum og lifandi vera viðstaddur og láta það koma á móti bænargerðinni, sem við á.

Það var ástæðulaust af hv. 1. þm. Rang. að tala um, að ég beindi skeytum að hv. 2. þm. Árn. Það gerði ég alls ekki, heldur beindi ég máli mínu til stj., því að hún ein ber ábyrgð gagnvart þinginu.

Magnús Jónsson: Ég skal leyfa mér að gera grein fyrir atkv. mínu. Málinu hefir verið snúið á skakka braut, með því að ræða svo um það sem styrkþeginn ætti sjálfur að endurgreiða féð, af því að svo hittist á, að hann er sjálfur þm. Hér er að ræða um stjórnarathöfn, og ef þingið fellir niður aukafjárveiting, sem stj. ein ber ábyrgð á, er aðeins verið að víta hana fyrir að veita fé í heimildarleysi, án þess að gefa réttum aðiljum skýrslu. Þetta er svo vítavert, að ég get ekki annað en greitt brtt. atkv. Ég álít, að það sé minnsta krafa, að stj. geri grein fyrir styrknum, og sé ekki, að komizt verði hjá að gera aths. við þennan lið í landsreikningnum, þegar þar að kemur.