12.02.1930
Efri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

86. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er hér flutt eftir beiðni hæstv. stj. En ástæðan til þess, að það er fram komið, er sú, að vegna alþingishátíðarinnar, sem á að fara fram síðustu dagana í júní næstk., er augljóst, að ekki er unnt að hafa kjördag til landskjörs í byrjun júlímán., svo sem nú er ákveðið í lögum. Verður því að færa kjördag annaðhvort fram eða aftur. En eftir að kemur fram um miðjan júlí, fer annríki að aukast svo mjög, að ekki þykir fært að flytja kjördag fram á sumarið. Þess vegna er hann samkv. þessu frv. færður aftur á bak, allt að 10. júní. En af því leiðir, að kjörskrár til landskjörs, sem samdar voru nú í janúarmán. og eiga að gilda frá 1. júlí 1930–30. júní 1931, verða að færast til og koma í gildi 10. júní þ. á. Meiri hl. allshn. flytur þetta frv., en þó ber ekki að skoða það svo, að hv. minni hl. (þm. Seyðf.) sé því andstæður. Við flm. frv. bárum það undir hann, en hann vildi ekki gerast meðflm., enda þótt hann kynni að styðja frv.

Málið liggur ljóst fyrir, og ég vænti, að það komi fram í umr., ef eitthvað þykir við það að athuga.