27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

86. mál, kosningar til Alþingis

Ólafur Thors:

* Hv. þm. V.-Húnv. var með sína venjulegu illskeytni í sinni stuttu ræðu. Ég sé ekki ástæðu til þess að svara honum; fullyrðingar hans eru svo barnalegar um það, að flokkarnir gætu komið sér saman um að láta ekkert ljótt koma fram í kosningunum.

Mér þykir það lýsa undraverðri gleymsku hæstv. forsrh., þegar hann telur, að kosningadagarnir séu ekkert annað en samkunda hinna rosknari kjósenda, sem séu að velja sér fulltrúa. Ég veit, að þeir eru eins og þegar hæst lætur í fuglabjörgum. Ég er viss um, að þótt hv. þm. Ísaf. eða hv. þm. Borgf. ætluðu að messa hér, þá mundi enginn heyra til þeirra fyrir bílaorginu kringum kirkjuna, og þó eru þetta rómsterkustu menn, sem ég þekki. Þetta er með allt öðrum hætti en þó að menn noti bíl til þess að bregða sér út úr bænum á sunnudögum, því að á kjördegi er einmitt öll bílaumferðin í kringum barnaskólann og kirkjuna.

Kosningadagurinn er nú einu sinni með þeim blæ, sem Reykvíkingar kannast svo vel við, að ekki þarf að lýsa honum fyrir þeim, og sem sízt er jólablær eða helgiblær. Ég býst við, að hæstv. forsrh. skildi þetta betur, ef ég kæmi með till. um að hafa jóladaginn fyrir kjördag.

Ég hefi ekki skilið afstöðu hæstv. forsrh. til þessa máls, fyrr en ég heyrði hv. 2. þm. Reykv. tala um, að þetta væri heppilegra fyrir verkalýðinn, sem er reyndar misskilningur; það er þá ekki frá guðfræðingnum í hæstv. forsrh. heldur frá sósíalistanum.

En um það, hvort menn þurfi að vinna á kjördag, þá er hv. 1. þm. Reykv. búinn að taka þá sneið frá mér, sem ég ætlaði að senda hv. 2. þm. Reykv., og þá jafnframt samherja hans, hv. 4. landsk., því að aldrei hefi ég séð þreyttari né sveittari né aumingjalegri menn heldur en þegar þeir eru að ganga undir karlægum kerlingum, til að draga þær á kjörstað.