01.03.1930
Efri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

86. mál, kosningar til Alþingis

Jón Þorláksson:

Ég flyt brtt. við þetta frv. á þskj. 203, þess efnis, að í staðinn fyrir að ákveðinn sé landskjörsdagur sunnud. 15. júní, eins og gert er í frv. eins og það liggur nú fyrir, komi laugardagur 14. júní. Ástæðurnar fyrir þessari brtt. eru ýmsar, og er þá fyrst sú, að ég kann ekki við, að innleidd sé sú venja, eða réttara sagt óvenja, að kosningar séu hafðar á sunnudegi, hvort sem það eru kosningar til Alþingis, sveitarstjórnar- eða bæjarstjórnarkosningar. Það hefir ekki heldur þótt ennþá samsvara hugsunarhætti Norðurlandaþjóðanna að gera það, enda hefir engin þeirra tekið það upp ennþá. En aðalástæða mín er sú, að þessi kjördagur er sérstaklega óhagkvæmur, allt að því óhafandi fyrir kaupstaðina, eins og helgidagalöggjöfin er nú. Eftir þeirri löggjöf má ekki setja kjörfund fyrr en kl. 3. Brtt. á þskj. 206 er því óþörf, því að hún tekur ekkert fram nema það, sem er í núgildandi lögum.

Mér skildist á hæstv. forsrh., að stj. myndi haga kosningunum þannig, að þær færu ekki í bága við hámessu. Það er auðvitað hægt með því að hafa messu nógu snemma eða kjörfundinn seint, en ég get nú samt ekki séð, að stj. geti farið þar eftir öðru en gildandi lögum, en þau segja, að fund megi ekki setja fyrr en kl. 3, af því það er sunnudagur, en í fjölmennum kaupstöðum er allt of seint að setja kjörfund svo síðla dags. Og áður en almenningur getur komizt að kjörborðinu, verður annað að fara fram, sem tekur mikinn tíma í fjölmennum kjördæmum, en það er athugun og úrskurður á þeim atkv., sem greidd hafa verið utan kjördags, og í Reykjavík getur það tekið meira en 2 klst., og þá er orðið of áliðið að byrja á kosningum í slíku fjölmenni.

Nú vilja menn e. t. v. segja: „Nóttin er nú björt, og má því halda kosningum áfram fram að miðnætti“. En það er nú svo, að margir vilja þá heldur taka á sig náðir, eins og von er, en verða að bíða eftir því, að geta komizt á kjörstaðinn. Þetta er mjög óþægilegt á allan hátt, og álít ég því mjög illa ráðið að taka sunnudaginn fyrir kjördag, því að eins og helgidagalöggjöfin er nú, má ekki byrja fyrr en kl. 3.

Ég ætla ekki að taka fram fleiri ástæður fyrir þessari brtt., og ég held líka, að þýðingarlaust sé að hafa langar umr. um þetta; það er hvort sem er mikið áhugamál stjórnarflokkanna að hafa kosningar á sunnudegi. Ég geri ekki ráð fyrir að segja fleira; atkvæðin skera úr.