09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Jónsson:

Það er ekki óeðlilegt, þó að lítill svipur kunni að þykja vera yfir brtt. fjvn., því að þær valda yfirleitt lítilli röskun, en svo á það að vera, ef Nd. hefir gætt skyldu sinnar í meðferð fjárl. Þegar fjárlagafrv. kemur hingað frá Nd., eiga að réttu lagi að vera fram komnar aðalóskir þingsins um breytingu á því. Eftir eiga þá ekki að vera nema óskir einstakra þm. í Ed. og endurskoðun fjvn. þar á frv., til að laga smá misfellur, sem kunna að hafa orðið í Nd. Með þetta fyrir augum hefir fjvn. hagað störfum sínum að þessu sinni, og jafnframt hefir hún reynt eftir megni að stuðla að því, sem hún telur ríkasta skyldu sína, að afgreiðsla fjárl. verði sæmileg, þannig að gjöld og varlega áætlaðar tekjur standist á.

Flestar till. n. eru smávægilegar, og eru fólgnar í því að strika burt smá misfellur. Flestar brtt. ganga í þá átt að fella niður styrki til einstakra manna. Þetta er ekki gert vegna þess, að fjvn. álíti ekki, að sumir þessir styrkir geti verið réttmætir, heldur vegna þess, að n. álítur það ófært verklag, að þingið meti verðleika manna til þessara styrkja á hverju ári, heldur beri að veita heildarupphæð til náms, ritstarfa og utanferða, sem menntamálaráðið úthluti. Vildi ég mælast til, að hv. d. féllist á sem flestar af lækkunartill. þessum. Um hitt mætti síðar tala, hvort ástæða væri til að hækka heildarupphæð þá, sem menntamálaráðið hefir nú til úthlutunar.

Lækkunartill. n. nema samandregnar 60 þús. kr., en hækkunartill. 50 þús. kr. Þetta er varlega í sakirnar farið, og væri gott, ef hv. d. gæti afgr. fjárl. þannig.

Þá eru nokkrar brtt. frá einstökum mönnum. N. hefir ekki unnizt tími til að taka afstöðu til nema örfárra af þeim. Allar þessar till. eru í hækkunaráttina, og hafa samtals 50 þús. kr. hækkun í för með sér, ef samþ. verða. Má segja, að þetta sé ekki há upphæð, en ef hún bætist við þann 26 þús. kr. tekjuhalla, sem var í fjárl., er þau komu hingað, má segja, að fjárhagsáætlunin sé ekki varleg, þar sem tekjuáætlunin mun þegar vera orðin fullhá. Svo er þess að gæta, að í fjárl. vantar ýmsa liði, sem leiða af lögum, sem samþ. verða á þessu þingi. T. d. mun stuðningur ríkisins við Útvegsbanka Íslands hafa allmikla vaxtabyrði í för með sér. Verði fjárl. samþ. með þeim brtt., sem hér liggja fyrir, má búast við, að lækkunartill, við 3. umr. verði að koma niður á verklegum framkvæmdum, en þær býst ég við að okkur sé öllum sárast um.

Þá vil ég víkja lítið eitt að brtt. einstakra þm.

Kem ég fyrst að II. brtt. á þskj. 454. Ég hygg, að læknishérað það, sem hér er um að ræða, hafi fengið hlutfallslega jafnháan styrk til byggingar læknisbústaðar og önnur læknishéruð og tel varhugavert að fara inn á þá braut að veita einu héraði meira en öðru í þessu skyni. Ein af ástæðum hv. flm. var sú, að einn hreppur hefði skorazt undan þátttöku í byggingunni. Ég tel það hæpin meðmæli með þessari styrkbeiðni, að ráðizt skuli hafa verið í bygginguna af svo rasandi ráði, að ekki hafi verið fengið samkomulag um hana innanhéraðs áður. Ég tel mjög varhugavert að ljá þessari till. fylgi.

Hæstv. fjmrh. hefir þegar minnzt á byggingarstyrkina, og hefi ég þar litlu við að bæta. Í öðru því tilfelli, sem hér um ræðir, er svo mikil greiðasala og hagnaður af henni, að ekki getur verið ástæða til opinbers styrks, enda lýsti flm. því svo, að að bænum lægju þjóðbrautir úr öllum áttum. Það er sagt, að þarna á Egilsstöðum séu krossgötur fyrir alla, er um Héraðið fara. Eftir því ætti gistihús að bera sig án ríkisstyrks. Það er að vísu nokkur vorkunn, þó að hv. 2. þm. S.-M. komi með þessa fjárbeiðni, þegar samskonar liður stendur í fjárl. um styrk til gistihúss á Húsafelli. Margir nm. voru að vísu með því að taka þann lið út, og ætti að gera það við 3. umr. Þetta er ekki sambærilegt við það, að ríkið veitti fé til að byggja upp í Fornahvammi og fyrir norðan í Bakkaseli, því að ríkið á báðar þær jarðir og húsin auka þannig eign þess. Auk þess eru þeir bæir við einhverja allra fjölförnustu fjallvegi landsins og þannig settir, að ekki er um aðra nálæga gistingarstaði að velja.

Hv. þm. Ak. kvartaði um, að till. hans fengju daufar undirtektir. Ég efast nú um, að hann þurfi öðrum fremur yfir að kvarta. Stærsta till. hans fer fram á ríkisábyrgð fyrir 150 þús. kr. láni til Samvinnufél. sjómanna á Akureyri til að eignast fiskiskip, sem reka á með samvinnusniði. Ég verð að gleðja þm. með því, að þessari till. er ég mjög hlynntur. Mér finnst þessar sífelldu deilur milli útgerðarmanna og verkamanna, með verkföllum, er þeim fylgja, vera eitthvert alvarlegasta þjóðarbölið, og öruggasti vegurinn til að afstýra því sé að reka sjávarútveginn sem mest með samvinnufélagsskap.

Mig gleður það því mikið, að sjómennirnir beiti sér fyrir samvinnufélagsskap í þessu skyni, og tel ríkinu skylt að styrkja, þegar hægt er að gera það jafnáhættulítið eins og hér virðist vera, þar sem Akureyrarbær, sem er hvað fjárhagslega bezt stæður af bæjunum, er í bakábyrgð.

Þá er VII. brtt., við 14. gr. B. XV. 5., um 1.000 kr. styrk til Bjargar Sigurðardóttur, til að kenna síldarmatreiðslu, gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar að. Þessi styrkur var veittur í fyrra, og þá sagði flm. þeirrar till., að það ætti að duga í eitt skipti fyrir öll. Menn bjuggust þess vegna ekki við, að það yrði standandi liður. Það væri tilhlýðilegra að síldareinkasalan styrkti þetta heldur en ríkissjóður. Annars hugsa ég að héruðin væru vís til að styrkja slíka kennslu.

Því næst kem ég að IX. brtt., frá hv. þm. Snæf., við 15. gr. 17., um að hækka ritstyrk séra Árna Þórarinssonar úr 600 upp í 1.500, eða til vara 1.200 krónur. Þessi brtt. stríðir á móti till. fjvn., því að hún sá sér ekki fært að halda þessum ritstarfastyrkjum. Það verður alltaf undir mati komið, hvort rétt sé að styrkja þennan eða neita öðrum. Og þm. hafa ekki alltaf skilyrði til að dæma um það af nokkru viti. Ég hygg t. d., að fæstir dm. hafi séð nokkurn staf eftir þennan mann, sem hér ræðir um, og þá er nú hægt að geta sér til, hve góð skilyrði við höfum til að dæma um, hvort hann sé styrks verður. Nei, þetta er alveg óhæfa, að þingið sé að vasast í að úthluta persónustyrkjum í allar áttir til utanfara, skálda, listamanna og til ritstarfa. Þeim styrk, sem þingið treystir sér að veita í þessu skyni, ætti að sjálfsögðu menntamálaráðið að úthluta. Ef menntamálaráðið hefði með þetta að gera, eins og mér finnst sjálfsagt, mætti ætlast til, að það gæti kynnt sér málið.

Þá kemur X. brtt., frá tveimur hv. þm., við 15. gr. 21., um 1.500 kr. styrk til útgáfu myndabókar með verkum Ríkarðs Jónssonar. Þessi maður hefir verið allríflega styrktur og að því leyti verið betur settur en annað fólk hér í bæ, sem við listiðnað hefir fengizt, enda efa ég ekki, að hann sé meiri listamaður. Ég legg ekki móti brtt., en þó að hún yrði ekki samþ., stæði Ríkarður sjálfur samt betur að vígi en aðrir.

Þá er XI. brtt., frá hv. 4. landsk., við 15. gr. 41, um 1800 kr. til Guðbrands Jónssonar til að semja íslenzka miðaldamenningarsögu. Ef hv. d. tekur út aðra ritstyrki, þá er tæplega hægt að samþ. þennan, en geri hún það ekki, þá verður líklega að taka hann með.

XVIII. brtt., frá tveimur hv. þm., er við 22. gr. III., um að greiða h/f Eiríki rauða tap af Grænlandsför m/s Gotta 1929, 5 þús. kr. Ég verð að segja, að mér finnst það dálítið „flott“ að leggja til að greiða félaginu svona mikið. Öllum er kunnugt um árangurinn, hversu glæsilegur hann er fyrir landið: Þetta eina dýr sem lifir, er víst áreiðanlega dýrasta skepna í landinu. Að sönnu er til skýrsla, sem Grænlandsfararnir hafa sent þinginu. Þá vantar eitthvað 6 þús. kr. til þess að fá fullt kaup. Þeir munu aldrei hafa samið um það við landsstj. að verða skaðlausir. Það gæti komið til mála að sýna þeim nokkra viðurkenningu, en þetta er of mikið. Ég vildi mælast til þess við hv. flm., að þeir tækju brtt. aftur og kæmu heldur með aðra við 3. umr. Annars verð ég að leggja til að fella hana. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar brtt., en mun með atkv. mínu sýna, hvernig ég lít á aðrar till.