07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

238. mál, útvarp

Hákon Kristófersson:

Ég ætla að vona, að það sé ekki á móti þingsköpunum, þótt ég kveðji mér hljóðs, hvort sem hæstv. forsrh. kvartar undan málþófi eða ekki. Mig furðar á andúð minna góðu vina, hv. þm. Dal. og hv. 2. þm. G.-K. gegn því, að þetta mál sé afgr. hér í dag. Mér finnst eins og þessir góðu menn hafi ekki lært mikið af sinni löngu reynslu, því að hv. minni hl. má vita það, að hversu merkileg nál. sem hann kemur með og hversu vel sem hann býr sig undir umr., þá stendur meiri hl. hv. þd. á móti öllum hans till. —, vitanlega ekki af heimsku, heldur af öðrum verri hvötum.

Minn góði vinur, hæstv. forsrh., sagði, að ég hefði verið harðorður í garð þess meiri hl. um daginn, sem tók tökum ranglætis og síngirni á vegalögunum hér í hv. deild. Það er nú alltaf svo, að sá er vinur, sem til vamms segir, en annars vona ég, að allir geti verið mér sammála um það, að í þetta skipti notaði ég þau hógværustu orð, sem hægt var eftir málavöxtum. En hvernig er það nú, sem hæstv. forsrh. sjálfur hagar orðum sínum við andstæðingana? Hann sagði hér áðan, að Íhaldið — þetta var víst mismæli hjá hæstv. ráðh., því að hann átti við Sjálfstæðisflokkinn — væri alltaf öfugt á móti, ef eitthvað gott ætti að gera fyrir almenning. Ég veit ekki, hvaða orð ég á að nota um þessi ummæli. Hvort er nú þinglegra að segja, að þau séu ómakleg eða ósönn? (HG: Hvorttveggja!). Hæstv. ráðh. hefir ekki komið með eitt einasta dæmi til að sanna þennan áburð sinn. Og ég segi það fyrir mig, að ég kæri mig ekki um að láta bera mig svona sökum, frekar en ég nota þær á aðra.

Ég hefi náttúrlega ekki mikið vit á þessu máli, allra sízt á við útvarpsstjórann nýja, sem mér er sagt, að síðan á nýári hafi verið kostaður úti um lönd til að kynna sér þessi mál, — og ekki leikur á tveim tungum um hæfileika hans til starfans —, eða aðrir þeir, sem þetta frv. hafa markað með fingraförum sínum. En ég vænti, að reynslan muni skera úr því, hvort það sé til mikilla heilla fyrir almenning að fara að stofna hér nýja einkasölu, svo að ég ekki noti orðið einokun.

Út af brtt. hv. nefndar — — (Raddir í deildinni: Hér er verið að ræða þingsköp! Málið er ekki komið til umr. ennþá!). Ég vil skjóta því til hæstv. forseta, hvort ég má ekki tala um frv. það, sem fyrir liggur, eins og hvert annað mál. Eða kannske það sé slíkur dýrgripur, að enginn megi á því snerta, nema hv. meiri hl. fjhn.? — —