10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (2420)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það, sem fyrir mér vakti, er ég vildi hraða þessu máli, var það, að í þessu frv. eru ýmis ákvæði, sem komast þurfa sem allra fyrst í gildi, enda þótt ekki sé komið álit þeirra manna, sem meta eiga bankann. Bankanum getur komið illa á næstu dögum að hafa ekki einhverja vernd í lögum; þess vegna verður að hraða málinu.

Í sambandi við þá matsnefnd, sem skipuð verður, og út af orðum hv. 1. þm. Skagf. um það, að hann þyrfti að vita fyrir 3. umr., hverjir yrðu útnefndir í n., þá vil ég aðeins geta þess, að ég fæ með engu móti skilið, að það þurfi að breyta afstöðu hans til málsins við 3. umr. Og þó að hv. 1. þm. Skagf. væri að einhverju leyti óánægður með útnefningu mannanna, þá fæ ég ekki heldur séð, að sú óánægja sé því til fyrirstöðu, að málið fái að ganga sinn gang.

Ég vil ekki fara frekar út í ræðu hv. 2. þm. G.-K. Hann virtist ganga út frá því þegar fyrirfram, að einhver hlutdrægni mundi eiga sér stað um nefndarskipunina. (ÓTh: Alls ekki!). Mér skildist ekki betur af þessum margendurteknu orðum hans um „pólitíska öfgamenn“ en hann gefa í skyn, að hlutdrægni mundi verða beitt í rannsókn bankans. (ÓTh: Nei, nei, alls ekki!). Ja, þá var ræða hans um þetta efni alveg þýðingarlaus. Enda finnst mér það ekki vel viðeigandi, hvorki af honum eða öðrum, að flytja hér tortryggnisásakanir út af þessari fyrirhuguðu nefndarskipun.