15.02.1930
Efri deild: 26. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (2472)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. 3. landsk. hefir nú haldið alllanga ræðu hér í deildinni um Íslandsbankamálið. Hann talaði æsingalaust, og er það vel farið. En ég saknaði þess að heyra hann flytja fram eitthvað, sem nýtt væri í þessu máli. Í ræðu hans var ekkert, sem ekki hefir áður verið flutt hér í þinginu. Skeyti þau, sem hann las upp, hafa öll verið lesin upp í Nd., og sum oftar en einu sinni, svo að þau koma þá minnst tvisvar til þrisvar í Alþt. Sama er að segja um meginmál ræðu hv. þm.

Það er nú svo, að þetta er ekki í fyrsta sinn, sem Íslandsbanki er til umr. í þinginu. Ég er hræddur um, að þau fari nú að verða ærið mörg þingin, þar sem Íslandsbanki hefir dregizt inn í umr. og deilur. Það er ekki laust við, að svo virðist, sem þessi stofnun hafi frá öndverðu verið hálfgert vandræðamál.

Hv. 3. landsk. drap nokkuð á forsögu bankans, allt frá því fyrstu lögin um hann voru sett. Stiklaði hann léttilega á einstökum atriðum úr sögu bankans og fór hratt yfir. Hefði þó verið ástæða til þess að fara nánar út í sumt, sem hann drap lauslega á. T. d. hefði hann gjarnan mátt víkja örlítið að aðdragandanum að hinni alvarlegu kreppu 1921. Þess hefir verið getið í Nd., og er enda öllum ljóst, að næstu árin á undan hafði bankinn gert sig sekan í einhverju hinu mesta fjármálaglapræði, sem nokkur seðlabanki getur gert, nefnilega að gefa út óhæfilega mikið af seðlum. Það skal þó játað, að ríkisstj. og þing gengu að nokkru leyti inn á þetta, en munu hafa kastað yfir á stjórn bankans áhættunni og ábyrgðinni af því að ákveða, hvað hæfilegt væri að gefa út mikið af seðlum. Ég minnist þess nú, að í hópi þm. voru ýmsir, er vildu stemma stigu fyrir þessari óhæfilegu seðlaútgáfu, með því að láta bankann greiða hærra seðlagjald, eftir því sem hann gæfi meira út af seðlum. En þessu var tekið mjög fjarri af formælendum bankans, en þó held ég, að þessi uppástunga hafi. verið í rétta átt. Það er alveg vafalaust, að þessi mikla seðlaútgáfa átti verulegastan þáttinn í því að lækka krónuna og koma bankanum í vandræði 1921. Og ég er yfirleitt á þeirri skoðun, og að henni hníga sterk rök, að Íslandsbanki hafi alls ekki haldið uppi lánstrausti landsins út á við hin síðari ár, heldur jafnvel þvert á móti. Að þessu athuguðu er það mjög mikið vafamál, hvort lánstrausti landsins yrði að fullu borgið, þótt ríkið gengi nú í fulla og ótakmarkaða ábyrgð fyrir bankann. Hér sýnist um tvær leiðir að velja. Önnur er sú, að ríkið taki ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans og láti honum nýtt rekstrarfé í té. Hin leiðin er að láta loka bankanum og gera hann endanlega upp. Nú hefir þingið ekki treyst sér til þess að fara fyrri leiðina, a. m. k. ekki án frekari rannsóknar. Mönnum er það ljóst, að hér er um svo mikla og viðtæka ábyrgð að ræða, að ekki verður séð út yfir hana. Mér hefir skilizt á hv. 3. landsk., að hann teldi þó þetta sjálfsögðu leiðina, en það er vissulega til of mikils ætlazt, að þingið geri þetta að órannsökuðu máli. Það ber því sízt að áfella meiri hl. þingsins, þótt hann vilji sjá fótum sínum forráð í þessu máli. Báðum leiðunum fylgir fjárhagsleg áhætta, og það þarf að meta, hvor er meiri. Til þess þarf fyrst að fá að vita, hvernig bankinn stendur. Hv. 3. landsk. virðist telja þá leið áhættuminni, að endurreisa bankann. Ég áfelli hv. þm. vitanlega ekkert fyrir það, að hann hefir þessa skoðun, en það verður, áður heldur en hægt er að sannfæra meiri hl. þingsins um, að þetta sé rétt, að gera rannsókn, sem geti gefið einhverja hugmynd um það, hvernig fjárreiðum bankans er í raun og veru varið.

Hv. 3. landsk. sagði, að það væru, að mér skildist, þrjár aðalástæður fyrir því, að sjálfsagt væri að taka bankann til endurreisnar. Fyrsta ástæðan er sú, að þátttaka ríkisvaldsins um stjórn bankans væri svo stór þáttur í þessu, að það yrði að líta svo á, að í raun og veru bæri ríkissjóður siðferðislega ábyrgð á bankanum. Það er nú eins og hv. 4. landsk. minntist á í sinni ræðu, að bankinn var þann veg stofnaður, að þeir, sem það mál fluttu og að honum stóðu, þeir munu hafa verið hyggnari heldur en hinir, og komu því svo fyrir að setja þann stimpil á bankann, að út á við gæti það litið svo út, að þetta væri ríkisstofnun. En um bankaráðið er það að segja, að það var svo vendilega frá því gengið, að það hefði í raun og veru ekkert um stjórn bankans að segja; ég veit ekki t. d., að það hafi verið nein ákvæði um það, að bankaráðsmennirnir ættu að eiga heima í nánd við Reykjavík, heldur máttu þeir eiga heima úti um allt land, og gátu því ekki fylgzt neitt með störfum bankans.

Bankaráðið er ekki nema að nafninu til, en það er þannig samsett, að það setur nokkra gyllingu á það nafn, sem illu heilli hefir verið sett á þennan banka, sem er seðlabanki. Ríkissjóður hefir hingað til ekki treyst sér til að taka þennan banka upp á sína arma. Nú er sagt að hann beri svo mikla siðferðislega ábyrgð á bankanum, að nú sé ekkert undanfæri, en það er reynt að standa á móti því, að svo langt fari. Ég skal ekkert um það segja, hvernig sú barátta fer að lokum.

Annað atriðið, sem hv. 3. landsk. minntist á sem stórt atriði í þessu máli, var það, að lokun bankans kæmi svo mikilli truflun á atvinnureksturinn í landinu, að af því hlytist stórtjón. Ég býst við, að engum detti í hug að halda því fram, að ekki verði nokkur truflun af þessu; til þess hefir Íslandsbanki haft of mikil ítök í ýmsum fyrirtækjum í landinu, að það verði ekki að sjálfsögðu ýmsum þeirra mjög örðugur tími, ef honum verður lokað, það játa ég. En það væru heldur ekki mikil vandræði á ferðinni, ef ekkert hlytist af því, að banki í svo fámennu þjóðfélagi strandaði, og það hefir heldur engum dottið í hug að halda því fram, að af þessu hlytust ekki óþægindi, meiri eða minni.

Þá talaði hv. 3. landsk. í þriðja lagi um lánstraustsspjöll, sem af lokun bankans hlytust. Hv. þm. sagði, að ég hefði fullyrt það á einhverjum fundi — mér skildist hann segja á lokaða fundinum —, að þetta myndi verða til þess að auka traust landsins út á við. Þetta er ekki rétt; ég sagði ekki, að ég væri fullviss um það; ég sagði, að mér fyndist ekki ómögulegt, að traust landsins gæti aukizt við það að gera þetta hreinlega upp. Hv. þm. benti á, sem sönnun fyrir lánstraustsspjöllum erlendis, þessi skeyti, sem komið hafa. Hv. 4. landsk. minntist á þau í sinni ræðu, og þess vegna get ég farið fljótt yfir sögu. Það er í raun og veru mjög eðlilegt, að þessi skeyti komi frá þeim mönnum og stofnunum, sem hafa sent þau. Það er ekkert eðlilegra heldur en að þeir, sem eiga inni fé í bankanum, vilji, að honum sé lagt fé, til þess að tryggja innieign þeirra.

Það var eitt atriði í ræðu hv. 3. landsk., sem ég hjó eftir. Það voru þessar 625 þús. kr., sem nokkuð oft hafa verið nefndar í þinginu, og sem virðast hafa borið á milli um skilning á lögunum milli Íslandsbanka og Landsbankans. Ég ætla ekki að fara út í það, hvernig lögin beri að skilja, en ég vil aðeins leiðrétta það, að þessar 625 þús. kr. eru ekki rétt taldar, ef á að miða við það, að Landsbankinn endurkaupi víxla, sem svarar því, sem Íslandsbanki ekki fær borgað fyrir það gull, sem hann selur um leið og hann dregur inn seðlana.

Þetta skiptir ekki miklu máli, því að hvort sem um er að ræða 450 þús. kr. eða 625 þús., þá gat það aldrei hjálpað bankanum, svo að hann gæti haldið áfram starfsemi sinni, nema þá nokkrum dögum lengur. Það hugsa ég sé viðurkennt.

Hv. 3. landsk. virtist gera sér góðar vonir um það, að það myndi takast að afla fjár handa Íslandsbanka, svo að hann gæti komizt á stað. Ég verð að segja það, að það myndi gleðja mig, ef svo væri, að Íslandsbanki gæti hjálpað sér sjálfur af stað, án þess að ríkissjóður þyrfti að flækjast meira inn í fjárreiður hans heldur en nú þegar er orðið; það myndi sannarlega gleðja mig, ef úr þeim vonum gæti orðið. Fyrir mér er það að vísu svo, að það er aðeins um þetta eina frv. að ræða, en vitanlega geta komið fram nýjar uppástungur, og er þá sjálfsagt að taka þær til umr., en annars býst ég ekki við, á meðan ekki er lokið þeirri athugun á bankanum, sem nú stendur yfir, að maður geti skipt um skoðun og talið sér fært að ganga inn á það að koma bankanum skilmálalaust af stað, eða að ríkisvaldið sjái um það, eins og hv. 3. landsk. hefir lagt til. Ég get ekki hugsað mér, að meiri hl. þings gangi inn á það, fyrr en þá sú skoðun, sem nú er að fara fram, sýnir, að þetta sé gerlegt.

Hv. 3. landsk. vildi, að þetta mál færi í n. Ég skal í rauninni ekkert hafa á móti því, að það fari í n., og þá t. d. til fjhn., en ég vil gera það að skilyrði, að n. hraði svo störfum, að þetta mál geti komið til 2. umr. á miðvikudag án afbrigða, sem sé að nál. verði komið út svo snemma, að hægt sé að taka málið til 2. umr. á miðvikudag afbrigðalaust.