15.02.1930
Efri deild: 26. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Jón Baldvinsson:

Það er eins og vant er, að þótt hv. 3. landsk. sé skýr maður, þá eru oft ræður hans og fyrirlestrar, á þingi og utan þings, utan við það málefni, sem á að ræða um, og snertir ekki kjarna þess. Svo var og um þessa ræðu hv. þm., að um þau atriði, sem snertu aðalkjarna þessa máls, var hann fáorður. En áður en ég kem að málinu sjálfu, ætla ég að segja örfá orð um það, sem hv. þm. ýmist sneri út úr mínum orðum eða dró rangar ályktanir af þeim.

Fyrst gerði hv. þm. gys að mér fyrir það, að ég hefði sagt, að Íslandsbanki væri ekki seðlabanki; en ég veit ekki betur en að hv. 3. landsk. hafi verið einn þeirra manna, sem afgreiddu lög um það að samþykkja að taka af bankanum seðlaútgáfuréttinn. Má þar vitna til laga 1921, um seðlaútgáfu Íslandsbanka, hlutafjárauka o. fl. Segir þar í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Til 31. okt. 1922 fer Íslandsbanki með seðlaútgáfu í ríkinu, að undanteknum þeim ¾ millj., sem ríkissjóður gefur út af seðlum.“

Þarna er sett lokamark fyrir því, hve lengi Íslandsbanki á að halda áfram með seðlaútgáfuna í ríkinu. Lögin, sem svo eru sett árið 1922 sem breyt. á þessu, þau slá hinu sama föstu, en benda jafnframt til þess, að ef frekari seðlaútgáfu þurfi með en þeirrar, sem um ræðir í þeim lögum og í 1. gr. getur, vegna viðskipta innanlands, skal ríkisstj. hlutast til um, að settir verði í umferð þeir seðlar, sem þarf. Í lögunum um seðlaútgáfu Íslandsbanka 1922 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef frekari seðlaútgáfa en sú, er ræðir um í þeim lögum, sem í 1. málsgr. getur, er óhjákvæmileg vegna viðskipta innanlands, skal ríkisstj. hlutast til um, að Landsbankinn seti í umferð þá seðla, er nauðsyn krefur“.

Þarna er seðlaútgáfurétturinn tekinn af Íslandsbanka og fluttur yfir til ríkisins, og Landsbankinn á að gefa út frekari seðla. Þegar rætt var um þetta á þingunum 1921 og 1922, voru allir sammála um það, að rétturinn væri tekinn af Íslandsbanka, því að það væri seðlabankinn, sem gæfi út „topp“-seðlana, eins og það þá var kallað. Þessi réttur var þannig fluttur yfir til ríkisstj., og þótt endanleg lög væru ekki samþ. um að flytja þessi réttindi yfir til Landsbankans fyrr en á þinginu 1927, þá hafði Íslandsbanki ekki lengur réttinn, heldur ríkisstj. og Landsbankinn í sameiningu, svo að það er rangt hjá hv. 3. landsk., að Íslandsbanki sé seðlabanki, en það var rétt hjá mér, að hann væri hættur við seðlaútgáfuna.

Þetta er nú eitt af því, sem hv. 3. landsk. vildi láta vera stórt atriði og ástæðu fyrir ríkissjóð og fyrir þingið til þess að taka ábyrgð á skuldbindingum Íslandsbanka, eða styrkja hann svo freklega, að hann geti starfað áfram, og þegar sést, að grundvöllurinn undir þessari ástæðu er fallinn burtu, þá eru líka margar aðrar ástæður hrundar um leið. Það er skylda ríkisins að styðja seðlabanka, en Íslandsbanki sem seðlabanki er þá ekki til. Það, sem eftir er hjá Íslandsbanka, er ekki annað en það að draga inn þá seðla, sem voru í vörzlum hans þegar þessi lög voru sett, og það voru sett ákvæði um það, að þetta skyldi gert, og ef þeim ákvæðum hefði verið fylgt, væri ekki eftir nema ein millj. kr. í seðlum; en Íslandsbanki hefir á undanförnum þingum fengið stöðugar undanþágur frá því að draga inn seðla, sem sett var í lög 1921 og 1922. Til stuðnings þessu má segja, að í landsbankalögunum frá 1927 og 1928 eru sett ákvæði, þar sem því er slegið föstu, hver seðlavelta Íslandsbanka hafi verið árið 1922, þ. e. 8 millj. Svo er Landsbankanum lögð sú skylda á herðar að endurkaupa af Íslandsbanka víxla vegna inndráttar seðla hans, og í rauninni hefir Íslandsbanki fengið endurkeypt af Landsbankanum meira en sem svarar þessu, svo að þessi kreppa, sem hann er kominn í, stafar ekki frá seðlainndrættinum; hann hefir fengið það uppborið annarsstaðar frá. Hitt vita allir, að slíkt veldur nokkrum ruglingi á viðskiptum hans, en sú seðlafúlga, sem hann hefir dregið inn á hverjum tíma, hefir verið honum endurgreidd, sumpart keypt gull, sem losnað hefir úr tryggingu, sumpart með endurkaupi víxla. Á þessum árum hefir Íslandsbanki dregið inn 4 millj., og hefði þurft að vera meira. En á þeim tíma hefir hann fengið 5 millj. kr. frá Landsbankanum, auk þess sem bankinn hefir selt af gulli, ég man ekki hve mikið, en sem eru sjálfsagt nokkrar millj., svo að það er miklu meira fé, sem hann hefir fengið, heldur en það, sem hann hefir inndregið. Það er því engin ástæða til þess að ríkið fari að styrkja bankann þess vegna.

Önnur ástæða, sem hv. 3. landsk. bar fram, var það, að það hafi verið tekin ábyrgð á Landsbankanum fyrir tveim árum, og þá finnst hv. þm. einnig sjálfsagt eða rétt að taka ábyrgð á Íslandsbanka. Þessu hafa flokksmenn hv. 3. landsk. haldið fram í Nd., og þessu hefir hv. þm. einnig haldið fram hér, þótt hann hafi í öðru orðinu verið að láta skína í það, að hann sé ekki sérlega hrifinn af slíkri ábyrgð, en á lokaða fundinum var hv. þm. það alveg ljóst, að eina leiðin til að bjarga bankanum var fullkomin ábyrgð á öllum skuldbindingum hans, og ég rakti það nokkuð áðan, þegar ég talaði á fyrra fundinum hér í dag, að það er alveg sama, hvort ábyrgðin er tekin í smáskömmtum eða í einu, og þm. láta vonandi ekki blekkja sig á því, hvort ábyrgðin er tekin í þrennu eða einu lagi. En ég álít það mjög hættulegt vegna bankastarfsemi okkar og vegna Landsbankans að taka ábyrgð á öllum skuldbindingum Íslandsbanka, svo lítið sem menn vita hversu hagur hans er, og ég veit, að hv. 3. landsk. dettur ekki í hug í alvöru að halda því fram, að sá maður auki lánstraust sitt, hvorki inn á við eða út á við, sem skrifar upp á sem flestar ábyrgðir, en það er það, sem hv. þm. er að halda að okkur, að eftir að við höfum tekið ábyrgð á Landsbankanum, sem er 60–70 millj. kr., og þegar við bætum við Íslandsbanka með 30 millj. kr., þá sé öllu bjargað. En hv. þm. getur ekki blekkt þingið með slíku; þess meiri ábyrgðir sem ríkið tekur á sig, því erfiðara verður fyrir það að fá lán út á við, eins og það er erfiðara fyrir „privat“-mann, sem er í miklu ábyrgðum, að fá lán. Sama gildir fyrir ríki, og erlendir lánardrottnar myndu áreiðanlega meta það, hve mikið ríkið væri bundið innanlands vegna banka; þeir myndu líta á það, að ríkið hefði tekið ábyrgð á einkabanka, hefði verið í stöðugri kreppu undanfarin tíu ár, en eftir reynslu manna erlendis hafa þeir bankar venjulegast endað þannig, að það hefir þurft að gera þá upp. Það hefir venjulega verið þannig með hvern erlendan banka, sem riðaði eftir stríðið, að hér um bil enginn af þeim hefir hjarað áfram, þeir hafa flestir orðið að hætta og orðið að gera þá upp, því að það hefir löngum komið í ljós, að töpin hafa verið meiri en menn bjuggust við, og sama veit ég líka, að menn segja í þessu Íslandsbankamáli. Og þótt allt slampaðist einhvern veginn í góðærinu, þá er eftir að vita, hvernig fer þegar að kreppir. Við getum tekið dæmi af manni, sem skuldaði 1½ millj. kr., en ætti ekki eignir nema sem svaraði 600 þús. kr., en hefði samt í góðum árum getað borgað vexti af skuldum sínum, og við það miðað, að allt gæti draslað áfram.

Svo er hv. þm. að tvístíga yfir þeirri skoðun sinni, hve langt þingið eigi að ganga í því að taka ábyrgð á bankanum, og að þótt hann sem bankaráðsmaður hafi lagt þetta til, þá vilji hann ekki sem þm. leggja þetta sama til. Einn af þm. í Nd. skipti sjálfum sér svona í tvennt, vildi fá að tala um þetta sem þm. og öðruvísi en sem viðriðinn Íslandsbanka. Það er alveg eins hér, að þegar Jón í bankaráðinu gerir einhverja uppástungu um málið, þá kemur Jón þingmaður og setur sig á móti því, þótt þeir séu einn og sami maðurinn. Það er eins og það megi fara líkt að í þinginu og farið var að í skopleik, sem sýndur var hér í bænum í haust, að maður dró annan um gólfið í poka, lék svo tvo menn og talaði með breyttum málrómi og þóttist vera að rífast við sjálfan sig. Nei, það verður að taka tillit til hv. 3. landsk. sem bankaráðsmanns og líta á þær till., sem hann ber fram fyrir þingið, því að þá hlýtur hann að hafa hugsað sér, hvað gera skuli. Það játa líka allir, að það er ekki hægt að bjarga Íslandsbanka, nema því aðeins að taka ábyrgð á öllu.

Það hefir stundum verið skrifað mikið um það og mikið um það talað í þinginu, hversu mikinn stuðning Íslandsbanki hafi veitt atvinnuvegum landsins, og það er náttúrlega sjálfsagt, að það fé, sem hann hefir haft til meðferðar, hefir veitt þeim stuðning. Þó verð ég að segja það, að Íslandsbanki hefir innleitt þá reglu í viðskiptum, sem hefir sýnt sig að vera óholl, — hann hefir sem sé innleitt þetta smákónga-fyrirkomulag. Hann hefir eflt atvinnurekstur á nokkrum stöðum, einn mann á hverjum stað, eins og t. d. á Seyðisfirði. Þar hefir svo að segja allt það fé, sem bankinn hefir haft yfir að ráða, farið til eins manns, og það hefir farið illa þar. En hugsum okkur, að það hefði getað tekizt vel á einhverjum öðrum stöðum, þar sem bankinn hefir einbeitt fénu til einstakra manna, segjum, að mennirnir hafi grætt á því. Það er náttúrlega gott, en fyrir þjóðina í heild er vafasamt, hvort það er gott, því þegar maður, sem hefir eflzt á einhverjum stað, fellur frá, þá dreifast reitur hans víða um landið og það hérað, sem í raun og veru hefir safnað þessum auði, fyrir það, að hann var efldur til atvinnurekstrar þar, hefir misst þetta fé frá mönnum, sem í héraðinu störfuðu, svo þeir verða að byrja á nýjan leik að safna fé til nýs starfs, og þetta leiðir til kreppu eða einhverra erfiðleika á staðnum. Þegar svo þessir smákóngar falla frá, eða þegar atvinnurekstur þeirra hættir af öðrum ástæðum, þá er það venjulega svo, að eignirnar dreifast út í veður og vind. — Það er þetta fyrirkomulag, sem Íslandsbanki hefir stutt og sem sýnir sig að vera mjög óeðlilegt, því að það, sem tapazt hefir í bankaviðskiptum hér á landi, bæði hjá Landsbankanum og Íslandsbanka, er hjá tiltölulega fáum en stórum atvinnurekendum og fyrirtækjum.

Það er þessi hlið á bankastarfsemi Íslandsbanka, sem ástæða gæti verið að draga inn í umr. um þetta mál, og svo það, að starfsemi hans er ekki öll af því góða, þótt hún hafi veitt atvinnuvegunum stuðning, áður en hann komst í þá kreppu fyrir tíu árum, sem leiddi til þess, að honum var lokað.

Svo vil ég að endingu minnast á eitt, sem hv. 3. landsk. vék að í sinni ræðu, og það var um veltuféð, sem Íslandsbanki hefir haft undir höndum á síðastl. ári. Hv. 3. landsk. vill draga það í efa, sem ég sagði, að meginhlutinn af hans veltufé hefði komið frá Landsbankanum, vegna þess að erlenda féð, sem Íslandsbanki hefði, það hefir í raun og veru ekki verið notað innanlands; hann hefir flutt innieign sína úr Englandi og notað hana til þess að lækka með skuldir sínar í Danmörku. Þótt segja megi, að einhverjir peningar hafi komið hér inn, sem Privatbankinn hafi átt, þá hefir það skeð, að á sama tíma hefir bankinn flutt af því fé, sem hann mátti ávísa í Englandi, yfir til viðskiptamanna sinna í Danmörku, svo að ég sé ekki annað en að það, sem ég hefi um þetta sagt, sé á fullum rökum byggt. Veltuféð hefir verið látið annað en það, sem Landsbankinn hefir veitt honum.

Ég gat þess, að ég vissi ekki nema það hefði kunnað að vera einhver hreyfing á sparisjóðsfé, þannig að Íslandsbanki hafi kannske haft úr meiru að spila, en það hefir ekki komið fram í þessum umr. og reikningar bankans ekki fyrir hendi. En þess má geta, að það fylgir hverjum reikningi yfirlit yfir sparisjóðsinnieign í Íslandsbanka, og geri ég ráð fyrir, að allir séu sammála um það, að fé, sem er fastbundið lán til 20 ára, eins og póstsjóðsféð frá Danmörku, að það komi ekki til mála að telja það sem sparisjóðsfé, en þetta hefir verið gert, mörgum árum eftir að búið var að binda þetta fé með föstum samningi. Það er ennfremur rangt að kalla það lán, því að þetta fé var „hamstrað“ í kringum 1920, á þann hátt, að póstsjóðurinn hér lagði inn peninga í Íslandsbanka og bað hann að yfirfæra, en þegar hann gat ekki yfirfært, fékk hann leyfi hjá dönsku stj. til að láta það standa, þangað til hann gæti greitt féð, og það var alltaf meiningin, að þetta fé yrði greitt í einu lagi. Þetta var skuld, sem skylda hvíldi á bankanum að greiða, af því að hún var þannig til komin. Það var sparifé, sem honum var trúað fyrir að geyma undir þeim skilyrðum, að það væri borgað undir eins og krafizt væri. En danska stj. gekk inn á hagkvæma samninga við Íslandsbanka um greiðslu á þessum peningum. Svo að það má segja, að Íslandsbanki hafi eftir á fengið samning um, að hann þyrfti ekki að standa skil á þessu fé nema á löngum tíma. Þessi samningur var gerður 1925, og mun ekki hafa verið nein ábyrgð fyrir láninu eða trygging. Það er ekki nema eðlilegt, að þeir séu órólegir út af því, sem engin trygging er fyrir, alveg eins og Hambrosbanki út af því fé, sem hann á ótryggt hjá Íslandsbanka.

Ég hefi lesið erlend blöð, sem hafa skrifað um lokun bankans hér, og það er nú ekki eins og neitt himinfall hafi orðið. Danska blaðið Börsen skrifar um það 4. febr. Það rekur sögu þeirrar lokunar réttilega, hvernig þessi banki hafi smám saman orðið að draga inn og hvernig hann síðustu árin hafi orðið að smáþrengja sér saman í kapphlaupinu við hinn sterka Landsbanka, sem sé með ríkisábyrgð. Það er ljóst, að blaðinu er vel kunnugt, að hinn síðarnefndi er þjóðbankinn, eins og raunar allir ættu að vita, þeir, sem við okkur skipta. Sumstaðar halda menn, að hér búi skrælingjar, þeir éti hrátt og drekki blóð. En við getum ekki tekið tillit til þeirra, sem sýna slíka fáfræði og skrifa í þessum tón um bankamálið.

Þá er í rauninni ekki annað í ræðu hv. 3. landsk., sem ég þurfti að svara og skiptir nokkru máli. Ég minntist eitthvað á skeytin, sem hann las upp. En það hefði verið nógu fróðlegt að vita um öll skeytin, sem fóru héðan um þetta efni. Skeytið, sem kom frá sendiherra okkar í Kaupmannahöfn, var víst lesið upp þrisvar sinnum í Nd. í gær og gert mikið úr þýðingu þess. En í rauninni er það skeyti ákaflega loðið. Sendiherrann þorir ekki að fullyrða, að ekki geti komið til mála, að lokun Íslandsbanka muni ekki skaða okkur!! Þetta skeyti frá Sveini Björnssyni sýndi ekki sterklega orðaðan kvíða. En við getum sjálfsagt allir séð, að það er engin furða, þó að lokum Íslandsbanka geti skaðað lánstraust landsins. En þá er spurningin bara, hvað skaðar lánstraust landsins meir, að gera bankann upp, eða að ríkið taki hann á sínar herðar. Það er þetta, sem hv. 3. landsk. þm. hefði átt að rekja sundur í, fyrirlestri sínum hér í dag. Hann hélt, að við hefðum ekki annað þarfara að gera en að hlusta á sínar ræður. Ég játa, að ég hefi ekki mikið á því grætt.