19.02.1930
Efri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (2488)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Einar Árnason):

Út af fyrirspurnum frá hv. 4. landsk., sem mér skildist vera á þá leið, hvort loforð væri fyrir hendi frá stj. og Framsóknarfl. um það, að beita sér fyrir því, að Íslandsbanka væru veittar 3 millj. kr. innskotsfé, vil ég taka það fram, að ekkert þessháttar liggur fyrir, hvorki frá stj. eða Framsóknarfl.

Mér sýnist engin deila þurfi að verða milli okkar hv. 3. landsk. út af því, sem ég spurði hann um. Svar hans nægir mér. Hann hefir sagt, að hann hafi það ekki frá bankastj., og ég veit, að hann hefir það ekki frá ríkisstj.. Þess vegna getur þessi fullyrðing hv. 3. landsk. fallið niður sem marklaust hjal. Ég hefi minnzt á þetta hér vegna þess, að það var tekið fram í ræðu hans um daginn, að stj. hefði leitað upplýsinga, sem hún hefði átt að gefa þinginu, sem ekki var ástæða til, að hann hefði þurft að hafa fyrir að gefa.

Stj. hefir engu leynt, því hún hefir aldrei lagt þessa spurningu fyrir stj. Landsbankans, og hún því aldrei svarað henni. Ég geri ráð fyrir, að leita megi til landsbankastj. og hún muni fullkomlega viðurkenna það, sem ég hefi sagt hér.