06.03.1930
Neðri deild: 46. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Einar Árnason):

Þetta frv. hefir nú fengið allstóran viðauka frá því það var síðast til umr. í hv. deild. Það upphaflega frv., sem afgr. var héðan til hv. Ed. fyrir nokkru síðan, er 4. kafli þessa frv., sem hér liggur fyrir. En fyrstu þrír kaflar frv. eru að öllu leyti nýir. — 1. gr. 1. kafla frv. fjallar um stofnun hlutafélags, sem heita skal Útvegsbanki Íslands og á að hafa það verkefni að starfrækja banka, sem sérstaklega skal styðja sjávarútveg, iðnað og verzlun.

Þrátt fyrir allt, sem á milli hefir borið um þetta Íslandsbankamál, þá eru menn þó sammála um það, að hér þyrfti að vera til starfandi banki, sem hefði það sérstaklega með höndum að styðja og efla sjávarútveginn. Í 1. kafla þessa frv. er nú einmitt gert ráð fyrir slíkum banka. Það er gert ráð fyrir, að hann sé hlutafélag, og í 2. gr. frv. er mælt svo fyrir, að hlutaféð skuli vera 2½ millj. kr. Af þeirri upphæð skal ríkissjóður leggja til 1½ millj. kr. En viðbótarinnar skal aflað með hlutafjársöfnun innanlands, samkv. opinberu útboði. Það er gert ráð fyrir því, að þessum banka verði veitt réttindi til þess að reka alla almenna bankastarfsemi, taka við peningum að innláni, bæði með sparisjóðskjörum og á hlaupareikning, kaupa og selja víxla og ávísanir og veita lán gegn víxlum og tryggingum.

Um stj. þessa banka er það að segja, að aðalfundur hluthafa kýs 5 manna fulltrúaráð með hlutfallskosningu. Þetta fulltrúaráð er í rauninni yfirstjórn bankans og ræður bankastjóra, og ákveður jafnframt, hvað þeir skuli vera margir. En hvenær fyrsti aðalfundur skuli koma saman og hvernig, það er lagt undir forustu fjmrh.

Þetta frv. er nú í raun og veru þannig byggt, að það er nauðsynlegt að setja nánari fyrirmæli um ýms framkvæmdaratriði. Verður það að sjálfsögðu gert með samþykktum og reglugerðum, sem fulltrúaráðið setur, svo sem um bókhald bankans og reikninga, innstæður, hlutverk bankaráðs, laun þess o. fl.

Í þessu sambandi vil ég geta þess, að það er ekki ólíklegt, að næsta þing kynni að þurfa að endurskoða þessi lög, eftir þeirri reynslu, sem þá kynni að vera fengin, svo framarlega sem bankinn getur komizt á stofn. Ég get vel búizt við, að það þurfi að semja lögin nokkru fyllri en hér er gert ráð fyrir. En hinsvegar mun fyrst í stað mega komast af með það fyrirkomulag, sem hér er bent til, með því að fylla út í eyðurnar með reglugerðum.

Þá er 2. kafli frv., þar sem gert er ráð fyrir, að þessi banki geti tekið við og starfrækt Fiskiveiðasjóð Íslands, ef um hann skyldu verða sett lög, eins og ætlazt er til með frv., sem liggur fyrir þinginu. Verður þá sá sjóður sérstök deild í bankanum með sérstöku reikningshaldi.

a. kafli þessa frv. fjallar um Íslandsbanka. Þar er gert ráð fyrir, að núverandi Íslandsbanki renni inn í þennan útvegsbanka með vissum skilyrðum. Eru þau skilyrði nánar tiltekin í 11. og 12. gr. frv. Ég býst ekki við, að það þurfi að skýra þau neitt nánar. Aðeins vildi ég segja það, að á þessari stundu verður ekkert um það fullyrt, hvort þessi skilyrði, sem um ræðir í 3. kafla, verða fyrir hendi, þó að hinsvegar megi gera sér vonir um, að svo geti orðið. En vegna þess, að ekki er full vissa fyrir því, að þessi skilyrði verði fyrir hendi, þá kemur 4. kafli þessa frv., sem er einskonar varaákvæði, þar sem tiltekið er nánar, hvernig fara , skuli að um bú Íslandsbanka, ef ekki verður hægt að koma á því skipulagi, sem gert er ráð fyrir í 1. og 3. kafla þessa frv.

Ég þykist fullviss um það, að allir hv. þdm. hafi fylgzt svo vel með þessu máli, að það sé aðeins tímaeyðsla að fara út í nánari skýringar á því. Þess vegna læt ég þessi fáu orð nægja. Hinsvegar vildi ég mega vænta þess, að hv. deild greiði sem bezt fyrir þessu máli, svo að því geti orðið sem fyrst ráðið til lykta. Ef bankanefnd sú, sem hér var kosin á dögunum og hafði til meðferðar Íslandsbankamálið, og hv. d., telja nauðsynlegt og rétt að setja þetta mál í nefnd, þá vil ég ekki setja mig beinlínis á móti því, þótt ég hinsvegar hefði kosið, að það fengi afgreiðslu nú. En þá vildi ég vænta þess, ef málið verður sett í nefnd, að n. vildi flýta svo störfum, að málið gæti komið til umr. á morgun sem fyrsta mál klukkan eitt. Og ef svo færi, að málið væri látið ganga til n., þá tel ég ekki sérstaka nauðsyn á að ræða það nú. En sem sagt, ég vil láta hv. d. ráða því, hverja skipun hún hefir á þessu