07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (2516)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég get þakkað hv. n. fyrir það, að hún hefir veitt þessu máli skjóta afgreiðslu. — Ég hefi ekkert út á afstöðu meiri hl. n. að setja. Mér hefir skilizt, að meiri hl. hv. n. muni fylgja þessu frv. óbreyttu, eða því sem næst, og þess vegna hefi ég ekkert að athuga við það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði af n. hálfu. Hinsvegar kom hann með nokkrar hugleiðingar frá sjálfum sér, og vildi ég aðeins drepa á einstöku atriði af því.

Hv. þm. sagði m. a., að það væri auðséð á þessu frv., að það væri ekki tilgangurinn, að Íslandsbanki ætti að deyja. Ég skal ekkert metast við hv. þm. um það. Það, sem ég vildi segja um þetta, er það, að viðskipti Íslandsbanka eiga að lifa, þau, sem eru þess verð. Ef hv. þm. er einhver hugnun í því, að við köllum bankann lifandi Íslandsbanka, þá er náttúrlega ekkert út á það að setja frá minni hálfu, — það er eins og segir í vísunni:

Vakri Skjóni hann skal heita,

honum vil ég nafnið veita,

þó að meri það sé brún.

Hv. þm. sagði ennfremur, að aðaluppistaðan í þessum nýja banka væri Íslandsbanki og hans fé. Nú er þetta í raun og veru svo, að þessi nýi banki tekur við banka, sem á minna en ekki neitt, og þá kem ég að því, sem hefir verið rætt hér um, bæði í hv. Ed. og eins kom fram hjá hv. frsm. meiri hl., að það væri réttari leið og kurteisari, að mér skilst, að meta hin gömlu hlutabréf Íslandsbanka heldur en að ákveða það með lögum, að þau skuli felld úr gildi sem einskis virði. Þeir hv. þm., bæði í hv. Ed. og neðri, sem á þetta hafa minnzt og haldið þessu fram, þeir hafa jafnframt látið það í ljós, að það væri þeirra skoðun, að þessi bréf væru einskis virði. En ég skil ekki, hvers vegna þá á endilega að fara að setja á stað eitthvert „apparat“ til að meta hluti, sem allir vita, að eru einskis virði; mér sýnist það ekki vera neinn sérstakur hrekkur við eigendur þessara hlutabréfa, þótt þeir verði sjálfir látnir sækja þann rétt á hendur ríkinu, sem þeir þættust kunna að eiga.

Það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að þegar matið fór fram á Íslandsbanka um daginn, þá var hann ekki metinn í þeim tilgangi, að það ætti að koma fram, hvers virði gömlu hlutabréfin væru, því ef það hefði átt að gera, hefði orðið að meta eftir allt öðrum reglum. Ef hefði átt að meta hann þannig, þá hefði orðið að meta hann eins og hann liggur nú ósjálfbjarga, þegar hluthafarnir hafa ekki verið færir um að reisa hann við, og ef ætti að meta bankann þannig, að ráð væri gert fyrir því, að hann ætti að fara til skiptameðferðar, mundi hagur hans verða talsvert verri heldur en hjá þeirri n., sem mat hann síðast.

Þá minntist hv. frsm. meiri hl. á IV. kafla þessa frv. og taldi það óþarfa rófu á gullkálfinn. Nú er það, eins og hv. frsm. meiri hl. veit, að náttúran hefir skapað rófuna á þau dýr, sem bera hana, í einhverjum vissum tilgangi, og hún er þeim nauðsynleg á margan hátt. En nú vil ég segja, að það, sem hv. frsm. meiri hl. kallaði óþarfa rófu, það hefir orðið mjög ráðandi um það, hvernig þessu máli lyktar að lokum, því að það vil ég fullyrða, að ef það frv. hefði ekki komið fram, og ef það hefði ekki gengið eins langt og það gekk í þinginu, þá hefði aldrei verið hægt að knýja fram það framlag, sem fengizt hefir hjá þeim, sem inni hafa átt hjá Íslandsbanka. Nei, það er áreiðanlegt, að þessi rófa er ennþá nauðsynleg á þessu frv., því hún er til þess gerð á dýrunum að verja þau fyrir ágangi flugna og ýmsra annara kvikinda, og þessi rófa hefir verið mjög heppilegur vöndur á þá, sem í byrjun þessa máls vildu óvægir ganga lengst í því, að ríkissjóður tæki þennan ósjálfbjarga banka að fullu og öllu upp á sína arma.

Í þessu sambandi vil ég minna á það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði um það, að þetta fyrirkomulag yrði byrði á ríkissjóði. Það er alveg rétt. Þetta er byrði á ríkissjóði eins og komið er málefnum Íslandsbanka; en þó að þjóðin í heild sinni eigi enga sök á, þá var alveg óhjákvæmilegt, að þjóðin og ríkissjóður biðu skaða eins og komið var.

Hv. frsm. meiri hl. slær því föstu, að með þessu frv. taki ríkið á sig allar skuldbindingar Íslandsbanka og hljóti að bera þær. Mér fannst það mikill óþarfi hjá hv. frsm. meiri hl. að lýsa þessu yfir hér á þingi. Ég vil þvert á móti lýsa yfir því, að samkv. þessu frv. bera hluthafarnir alveg ábyrgð á bankanum, það sem hlutaféð nær, og mér finnst það óviðeigandi að gera slíka yfirlýsingu, sem hv. frsm. meiri hl. hefir gert um þetta. Hv. frsm. meiri hl. tók það fram oftar en einu sinni, að það hefði verið ódýrara og að það hefði verið betra að leggja bankanum lið strax í byrjun. Um þetta má auðvitað frá hans sjónarmiði deila, en ég vil minna hv. þm. á það, að þær fyrstu till., sem komu frá hans flokki, voru á þá lund, að ríkissjóður tæki á sig allar skuldbindingar Íslandsbanka, án þess að nokkuð kæmi á móti frá öðrum. (Margir þm.: Þetta er mesti misskilningur). Það kom fram sú till. á lokaða fundinum, þar sem skorað var á stj. að koma Íslandsbanka á stað aftur til starfrækslu, og það var ekkert talað um það, á hvern hátt stj. ætti að gera það, og á því stigi málsins var ekki hægt að telja annað fært en að taka fulla ábyrgð á bankanum.

Hv. frsm. meiri hl. spurðist fyrir um það, hvort hægt væri að gera ráð fyrir því, hvenær bankinn yrði opnaður. Ég get ekki gert grein fyrir því eða sagt það eins og stendur, vegna þess að það er enn eftir að leita þeirra samninga, sem gert er ráð fyrir hér í frv., við ýmsa skuldheimtumenn bankans. Og að öðru leyti getur það vel komið fyrir, þar sem hv. Ed. felldi eina gr. úr frv., þar sem var heimild til þess að veita bankanum greiðslufrest, að það geti frekar tafið fyrir bankanum heldur en hitt. Ég geri ráð fyrir, að það geri þá þörf enn brýnni að tryggja bankanum aukið rekstrarfé.

Ég get ekki sagt um það, hve langt er komið samningaumleitunum samkv. 12. gr. frv., það er komið nokkuð á stað, en það er ekki hægt að ganga frá neinu fyrr en séð er fyrir endann á afgreiðslu þessa frv. í þinginu, en undir eins og það er tilbúið, býst ég við, að allt sé til reiðu um að taka upp samningaumleitanir við þá útlendu lánardrottna, sem um getur verið að ræða.

Um það, hvort stj. hafi til þá 1½ millj. kr., sem gert er ráð fyrir að verði lögð Útvegsbanka Íslands, þá býst ég við, að ekki þurfi á því að standa. En jafnframt býst ég við, að það þurfi að gera frekari ráðstafanir um rekstrarfé fyrir bankann, og því sé ekki hægt að segja neitt um það, hvenær bankinn geti tekið til starfa, en vitanlega verður að hraða þeim undirbúningi eftir því sem föng eru á.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í þær brtt., sem hér hafa komið fram frá hv. minni hl. n. Ég get vitanlega ekki fallizt á þær; þær eru til að umturna frv., en þá er vitanlega engin önnur leið en sú, sem gert er ráð fyrir í 4. kafla þessa frv.