07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Ásgeir Ásgeirsson:

Í tilefni af þeirri skriflegu brtt., sem fram hefir komið, verð ég að endurtaka fyrri ummæli mín um það, að heppilegast muni, að frv. gangi nú óbreytt fram. Það er nokkuð líkt um þessa brtt. og sumar aðrar, að þær koma fullseint fram í málinu. Slík till. hefði helzt þurft að koma fram, þegar hlutafjársöfnunin byrjaði, til þess að valda á engan hátt tortryggni hjá þeim, sem lofað hafa að leggja fram hlutafé. Þar að auki hygg ég, að það muni ekki skipta ríkissjóð það miklu, hvort till. er felld eða samþ. Það hefði kannske vegna annara hluthafa verið eins gott að leggja til, að ríkið legði aðeins fram 1½ millj. og sleppa þá þessari 1½ millj., sem kölluð er stofnfé Útvegsbankans. Þeirri till. hefði ég raunar ekki getað fylgt heldur á þessu stigi málsins, þó fram hefði komið, þar sem margir góðir menn vilja láta auka hlutaféð frá því, er ég lagði til, enda verður bankinn mun öflugri við það. En hið aukna tillag má ekki verða þess valdandi, að nein tortryggni kvikni hjá öðrum, sem hafa lofað fé. Margir þm. hafa og gert ráð fyrir, að frv. yrði samþ. óbreytt, og þess vegna ekki borið fram þær brtt., sem þeir hefðu annars gert. Það gæti verið um breyt. að ræða á þessu frv., þótt þær væru ekki stórfellds efnis, sem ég hefði viljað fylgja, ef á annað borð nokkrar till. hefðu verið samþ. Ég hygg því, eins og ég hefi áður sagt, að málinu sé svo bezt farið, að það verði afgr. í kvöld sem lög frá Alþingi.

Hv. 2. þm. Reykv. mótmælti því, að Sveini Björnssyni hefði verið falin framkvæmd samninga við erlenda lánardrottna sem sendiherra. Mér finnst það gilda einu, hvort það er Sveinn Björnsson sem maður eða sem sendiherra, sem hefir framkvæmt þetta; honum hefir verið falið þetta starf og honum hefir farizt það mjög vel úr hendi. Honum var falið þetta af bankaráði Íslandsbanka, með leyfi landsstj. Og ef Sv. Bj. sendiherra er sómamaður, hygg ég, að Sv. Bj. sem „prívat“-maður sé það einnig. Ástæðan til þess, að honum var falið þetta nú, og ástæðan til hins, að hann er sendiherra okkar, mun vera ein og hin sama, að manninum er trúandi til að framkvæma ábyrgðarmikii störf.

Hv. þm. endurtók, að það væri tilraun til blekkingar, sem um getur í mínu frv., að kostur muni vera á góðum kjörum hjá erlendum lánardrottnum bankans. Hann spurðist fyrir um það, hverju danski ríkissjóðurinn hefði lofað, hverju Privatbankinn og hverju Hambrosbankinn hefðu lofað. En hví spyr hann mig um þetta? Hví spyr hann ekki hæstv. stj., vegna þess frv., sem hún hefir lagt fyrir þingið, hvort hún hafi von um að þetta sama náist? Ég hefi áður sagt nokkuð frá því, hvernig þessar stofnanir hafa tekið í málaleitanir og tel ekki ástæðu til að segja gerr frá því. Og þótt hv. þm. þyki allt þetta svífa nú í lausu lofti, vil ég biðja hann að minnast deilu okkar og frv. míns, ef sá skyldi endir á verða, að raunin yrði þessi, sem segir í mínu frv. og stjfrv. Skyldi það þá ekki eiga rót sína að rekja til þess, að eitthvað hafi verið litazt um, og einhverja hugmynd hafi menn haft um það nú, hverra kosta væri von. Ég sætti mig við það, ef þessi verður raunin á, án þess að pexa um það frekar við hv. þm., hvað hafi verið útkljáð, þegar mitt frv. kom fram.

Hv. þm. notaði allhörð orð í sambandi við afskriftir gamla hlutafjárins og taldi mig segja beinlínis ósatt, þegar ég sagði, að samkv. mínu frv. mundi allt hlutaféð verða afskrifað, eins og hann vill verða láta. Inn í þetta atriði blandaði hann óskyldu máli og spurði, hvort ég þyrði að neita því, að ég hefði barizt á móti því, að jafnaðarmaður kæmist inn í matsnefndina, sem var skipuð fyrir þrem vikum. Ég bar fram mitt frv. eftir að sú matsnefnd hafði starfað, svo að það mat; sem gert er ráð fyrir í mínu frv., kemur ekkert við þessum fullyrðingum. En ég þori að segja sannleikann í þessu efni, þótt það komi ekki þessu við, og hann er sá, að ég amaðist við því, að jafnaðarmaðurinn Stefán Jóh. Stefánsson kæmi inn í matsnefndina. En af hvaða hvötum? Sennilega af þeim hvötum, segir hv. þm., að ég vilji þeim jafnaðarmönnum allt illt og hafi stöðugt gert þeim bölvun. Ég man samt þá tíð, þegar við höfum staðið hlið við hlið á móti vinnudómi, og ég hefi heyrt talað hér um varalögreglu og slíka hluti. En ég skal ekki vera að bera af mér þær ásakanir, sem hv. þm. vill bera á mig núna. Mínar hvatir voru þær, að ég óskaði, að skipuð væri matsnefnd, sem enginn grunur léki á, að væri pólitískur fulltrúi í. En eftir á skal ég geta þess, að ótti minn um, að þessi maður liti á sig sem flokksfulltrúa mun ekki hafa verið byggður á fullum rökum. Stefán Jóhann er sæmdarmaður, og matið, sem þessir þrír menn skiluðu að lokum, er sammála álit þeirra allra, bæði tölur og athugasemdir, Og matið sýndi líka, að stofnunin var sannarlega ekki verr stæð en það, að vel er kleift að koma henni á fót aftur, eins og reyndar allir flokkar þingsins eru nú sammála um.

Þetta tilheyrir sögu málsins, og hv. þm. má hugga sig við það, að ég hafi ekki viljað heyra jafnaðarmann nefndan í sambandi við matið. Ég vildi ekki heyra nefnda flokksfulltrúa, heldur aðeins óhlutdræga matsmenn.

Ég skal ekki víkja frekar að útreikningum hv. þm. eða slíku. Það er ekki ástæða til þess, enda mun landsstj. hafa komizt að þeirri niðurstöðu og sýnt það með frv. sínu, að hún telur hag landsins bezt borgið með þeirri aðferð, sem hún leggur til í frv. sínu. En auk þess, sem mætti sýna fram á það með tölum, að landið og Landsbankinn hefði tapað meira með „likvidation“ heldur en með endurreist, má ekki gleyma öllu því, sem græðist óbeint með þessu frv. Skattar og tollar verða öruggari heldur en ef Íslandsbanki hefði orðið að loka, lánstraust og vextir, sem þarf að borga út á við, og margir hlutir, sem ekki verða með tölum taldir. Ég hefi jafnvel haft grun um, að jafnaðarmenn væru ekki svo ákaflega mótfallnir þessari aðferð, þó að þeir hafi snúizt harðar gegn henni í kvöld en undanfarna tvo daga. En ég skal ekki lá þeim það, sérstaklega hv. 2. þm. Reykv., sem er fulltrúi þeirra manna, sem hafa allar upplýsingar sínar um bankamálið úr Alþýðublaðinu eins og það hefir verið ritað undanfarinn mánuð. Ég tel það skynsamlegt fyrir þann hv. þm. að vera á móti þessum till.

Annars mun ég ekki orðlengja þetta. Margir hafa lýst gleði sinni yfir þessum málalokum, og ég vil taka undir með hv. þm. Dal., sem hér hefir sætt allþungum ummælum frá hv. 2. þm. Reykv., að það sé ástæða til að gleðjast yfir þessum málalokum. En yfir hverju hefir hv. þm. Dal. ástæðu til að gleðjast? Hefir hann ástæðu til að gleðjast yfir því, að varðveita sína góðu stöðu? Nei, hann missir stöðu sína og fær enga leiðréttingu af því frv., sem hann gleðst yfir. Ég vil gjarnan vekja athygli hv. d. á þessu, að sá, sem verður verst úti, hann gleðst yfir málalokunum, eins og við hinir, sem þingmatur og góður þegn okkar þjóðfélags.

Það er sannarlega ástæða til þess að gleðjast og þakka hæstv. stj. fyrir þær endanlegu till., sem hún hefir gert í þessu máli.