04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (2732)

64. mál, vigt á síld

Sveinn Ólafsson:

Ég ætla ekki að leggja neitt kapp á afgreiðslu þessa máls, þó að ég álíti rétt, að það gangi fram.

Það er kunnugt, að ákveðið hefir verið unt flestar varningstegundir, að þær skuli seldar eftir vigt, en ekki eftir máli. Þetta getur engu síður átt við um síld en aðrar varningstegundir, og er það oftast tryggilegra að vega en mæla. Ég hefi oft verið við síldarsölu og síldarveiðar og hefi tekið eftir því, að síld mælist misjafnlega vel, eftir því, hvort hún er fyrir stuttu eða löngu veidd.

Annars er það um aths. hv. 2. þm. G.K. að segja, að ég get ekki verið honum sammála um, að þessi fyrirmæli um að vega síldina baki kaupendum og seljendum nein sérstök óþægindi. Að vísu þarf að vera til vog og sérstakur maður til að vega, og ennfremur hverskonar ílát, sem notuð eru. Ég hygg, að víðast séu vandlaupar hafðir til þess að losa síldina í. En að það þurfi að tefja verkið eða valda sérstökum óþægindum, þó að síldin sé sett á vog, get ég ekki skilið. Kostnaðaraukinn er enginn annar en vog, en hún hygg ég sé til á öllum söltunarstöðvum og er nauðsynlegt áhald hvort sem er.

Ég get sem sagt ekki skilið, að það geti neitt verið því til fyrirstöðu frá hendi seljenda, þó að svona verði að farið. Hugsanlegt aðeins, að kaupendum þætti miður að þurfa að hafa vogir standandi á bryggju, af því að þær geta hæglega orðið fyrir áfalli. En ég sé heldur ekki annað, sem gæti verið athugavert við þetta frá kaupenda hálfu.