04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (2736)

64. mál, vigt á síld

Sveinn Ólafsson:

Ég vildi aðeins leiðrétta tvö atriði í ræðu hv. frsm. minni hl., hv. 2. þm. G.-K. Hið fyrra var það, að hann sagði, að ég hefði óskað eftir að taka að mér framsögu fyrir hönd meiri hl. n. Þetta er á misskilningi byggt. Frsm. meiri hl. var ekki viðstaddur, og varð ég því til að hlaupa í skörðin, þó að mér væri það nauðugt.

Hitt atriðið var það, að hv. 2. þm. G.K. dróttaði því að mér, að ég hefði léð þessu máli fylgi mitt af því, að jafnaðarmenn hefði borið það fram. Þetta er ofmælt, enda hygg ég, að jafnaðarmenn séu ekki sammála hv. 2. þm. G.-K. um þetta atriði. A. m. k. kvarta þeir yfir því, að við framsóknarmenn veitum þeim litla áheyrn um mál þeirra. Hinsvegar skal ég ekki neita því, að ég læt góð mál ekki gjalda þess, þó að þau komi frá jafnaðarmönnum. En um þetta mál er það að segja, að það stuðlar að betri og heilbrigðari viðskiptaháttum á sviði síldarútvegsins, og af þeim ástæðum er ég málinu fylgjandi. Og sannast að segja fannst mér hv. 2. þm. G.-K. ekki svo mikil alvara með þessum aðdróttunum í minn garð, að hann hefði ekki getað látið vera að núa þeim mér um nasir.