13.03.1930
Efri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (2762)

158. mál, skráning skipa

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Fyrir hönd allshn. hefi ég litlu að bæta við nál. hennar á þskj. 251. Þar er tekið fram, hver sú aðalbreyt. er, sem í frv. felst. Hún er sem sé sú, að færa hin daglegu störf við skráning skipa úr fjármálaráðuneytinu yfir á skrifstofu skipaskoðunarstjóra.

Frv. þetta tekur lögin upp í heild aðeins vegna þess, að samræma þurfti breytinguna við flestar gr. frv. að örlitlu leyti!

Önnur breyt. er í þessu frv., að gera að skyldu að halda skráningu yfir alla opna báta, sem skoðunarskyldir eru. Eftir núgildandi lögum er það ekki skylda, enda þótt þeir séu sumstaðar skráðir. Þykir rétt að taka þetta ákvæði formlega upp í lög.

Um kostnað af þessari breyt. er það að segja, að litlar líkur eru til, að hann aukist neitt verulega fram yfir það, sem hlýtur að koma fram við aukningu fiskiflotans.

Á eitt vildi ég benda til athugunar við prentun þessa frv. í Stjtíð., ef að lögum yrði. Á bls. 5 í frv., í 13. gr., er prentvilla, þar sem er vitnað í 6. gr. frv„ en á að vera í 7. gr. Einnig má segja, að brtt. n. við

12. gr. sé leiðrétting á prentvillu að nokkru leyti. En með henni eru einnig fyrirmæli gerð nokkru gleggri, og töldum við því rétt að flytja um það brtt.

Fleira er ekki ástæða til að taka fram um frv. þetta. Ég vænti þess, að hv. deild samþ. það. Ég tel, að af þessu frv. ætti að leiða það, að skráning skipa verði í betra lagi en reyndin hefir verið á undanförnum árum.