12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

1. mál, fjárlög 1931

Sigurður Eggerz:

Mér þótti hv. frsm. taka till. mínum allþunglega. Hann benti á það, að í samanburði við aðra vegakafla, sem beðið hefðu mörg ár og lítið fengið, þá næði till. mín engri átt.

En ég vil geta þess, að hér stendur alveg sérstaklega á. Þegar búið er að leggja veginn yfir Bröttubrekku, þá kemst eitt af stærstu landbúnaðarhéruðunum í samband við markaðinn. Það sjá því allir, hve mikils um er vert, að þetta svæði verði sem fyrst vegað, svo þetta nauðsýnlega samband komist á. Það eru því hinar allra ríkustu ástæður til þess að hraða þessu verki. Vegamálastjóri mundi ekki heldur hafa gert svo háar till., ef honum væri ekki alveg ljóst, að hér væri um mikla nauðsyn að ræða, sem lengi hefir dregizt að bæta úr. Ég held, að þetta svar mitt ætti að vera nóg til að skýra það fyrir hv. deild, að hér stendur alveg sérstaklega á. Hér er aðeins um það að ræða, hvort þessi framkvæmd kemst í verk á næsta ári eða næstu árum. Það er allur munurinn.

Annars skal ég geta þess, að ég hefi átt tal um þetta við hæstv. atvmrh., og staðfesti hann, að ég færi rétt með það, sem ég sagði, að hann hefði skrifað vestur.

Ég get ímyndað mér, að hæstv. atvmrh. komi máske fram með svofellda yfirlýsingu um málið, að ég geti séð mér fært að taka brtt. mína aftur að fullu. Ég tek hana nú til baka til 3. umr. og sé svo hvað setur.