01.04.1930
Neðri deild: 68. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (2874)

132. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Ég skal ekki rekja lengi sögu þessa máls, þó að hún sé í sjálfu sér töluvert eftirtektarverð og í raun og veru aldarfjórðungs gömul. Nú eru 25 ár síðan Fiskveiðasjóður var lögfestur og fyrsta tilraunin gerð til að veita vélbátaútveginum fjárhagsstuðning með lánum. Þetta gerðist á þeim árum, þegar hann var að byrja, og eins og kunnugt er, hafa ávextirnir af þessari stofnun orðið fremur litlir. Orsakirnar eru margar. Þegar sjóðurinn var myndaður árið 1905, voru tiltölulega fáir menn, sem leituðu sjóðsins eða þurftu að halda á þessum lánum, meðan róðrarskip og árabátar voru meginið af öllum fleytum í sjávarþorpunum. Hinsvegar var fjármagn sjóðsins mjög takmarkað, svo að hann gat ekki fullnægt þörfinni, þegar hún tók að vaxa ört og fleytunum fjölgaði. Í upphafi var sjóðnum ætlað 100 þús. kr. stofnfé úr ríkissjóði og árlegt tillag, 6 þús. kr. Auk þess var honum ætlað að njóta 1/3 sektarfjár fyrir ólöglegar fiskiveiðar og 10% af síldartolli frá 1907. En þessi tíundi hluti af síldartollinum var tekinn frá sjóðnum árið 1919 og sektarfjárþriðjungurinn árið 1920 með lögum um bann gegn botnvörpungaveiðum. Sjóðurinn hefir því undanfarið ekki haft úr öðru að spila en tekjum af upphaflega stofnfénu ásamt síldartollinum og sektarfénu fyrstu árin og þessu 6 þús. kr. ríkistillagi. Síðari árin hefir sjóðurinn aðeins getað sinnt sárfáum lánbeiðnum. En mest hefir þó það dregið úr getu hans, að fyrir nokkrum árum var tekin mestöll innstæða hans, sem þá mun verið hafa á 4. hundrað þúsunda, lánuð til hafnargerða á 2–3 stöðum á landinu og fest þar í margra ára afborgunarlánum. Frá undanförnum þingum þekkja allir tilraunir þær, sem gerðar hafa verið til þess að efla þennan sjóð og gera hann megnugan þess að veita bátaútveginum verulegan stuðning. Eftir þær margendurteknu tilraunir ætti málið nú að vera komið svo langt, að það gæti gengið fram á þessu þingi. Nú liggja fyrir þinginu 2, eða mætti segja 3 frv., sem stefna að einhverri lausn á þessu máli. Með brtt. sjútvn. á þskj. 370 er efni hinna tveggja frv. að nokkru leyti tekið upp í þetta frv. á þskj. 132, og treystist n. ekki til að ganga lengra en þar er gert um fjáröflun til sjóðsins.

Með frv. eftir till. n. vona ég að takist að undirbyggja bátaútveginn á sama hátt og reynt var á síðasta þingi að undirbyggja atvinnuveg sveitanna, með stofnun Búnaðarbankans.

Það hefir hér farið svo, að eftir því, sem fleiri hafa flutzt á mölina, eftir því hafa fleiri orðið efnalega ósjálfstæðir, og þaðan stafar sú knýjandi þörf á stofnlánum til efnaminni útvegsmanna. Mikill fjöldi kaupstaðarbúa, sem nú eru orðnir meiri hluti landsbúa, hefir orðið að lúta að því að selja vinnu sína öðrum, með þeim afleiðingum oft og tíðum, að kjör þeirra hafa orðið ótrygg og stopul atvinnuleit í tvísýnni sjálfsmennsku. Þeir hafa því margir sett sig í varnarandstöðu gegn þeim, sem kaupið áttu að greiða og atvinnu veittu. Þannig hafa komið upp kaupdeilur, sem allir vita að nálgast það að vera orðnar að landplágu. Í sveitunum hefir þessi faraldur aldrei þekkzt, vegna þess að þar fengu flestir eða allir, sem dug og framsýni áttu, færi á að komast einhverntíma í sjálfstæða stöðu. Margreynt er, að ungir menn, sem þrá að brjóta sér braut, ráða eigin heimili og komast í sjálfstæða stöðu, halda, að þessar vonir rætist fljótar við sjóinn en í sveitinni, og þetta hefir margan blekkt. En reyndin hefir orðið sú fyrir fjölmörgum, að öflun fjár til búrekstrar á eigin spýtur hefir verið þeim um megn og framleiðslutækin þar heimta meira fé en frumbýlingar í sveitinni oftast hafa til umráða.

Fyrir þessa menn hefir hvergi verið lands að leita um haldkvæm lán fyrir bústofn eða útgerðartæki, og hefir þá ráðið helzta orðið að leita til kaupmanna eða efnaðra útgerðarmanna um lánin — manna, sem oft höfðu fé á aðra hönd — og með erfiðum lánskjörum. Þegar frumbýlingarnir svo í byrjun hafa hitt á rýra vertíð eða orðið fyrir óhöppum, þá hefir sagan oft orðið sú, að þeir hafa orðið að leggja árar í bát og fara að selja vinnu sína öðrum fyrir kaup, sem aðeins hrökk til að verjast skortinum, en ekki til að koma nokkru sinni fótum undir eigin atvinnu að nýju.

Fjöldi útgerðarfyrirtækja hefir komizt þannig á flot, að kaupmenn hafa ábyrzt fyrir byrjandann farkost og rekstur og smátt og smátt náð undir sig veiðitækjum og bátum, sem þeir hafa haft að veði. Til þess nú að aftra því, ef mögulegt er, að efnalitlir en dugandi menn þurfi að sæta þvílíkum eða lakari búsifjum, þarf slík stofnun sem þessi að komast upp.

Nú er í frv. á þskj. 132 gert ráð fyrir fiskveiðasjóði, sem verði þess megnugur að veita bátaútveginum tiltölulega mikinn stuðning, bæði með stofnlánum og rekstrarfé. En sjútvn. hefir, vegna breyttra ástæðna frá því frv. var borið fram, horfið að því að fella niður aðra deild sjóðsins, rekstrarlánadeildina, en hinsvegar efla stofnlánadeildina eftir því, sem föng voru á. Verkefni Útvegsbankans nýja hlýtur að verða það sama og rekstrarlánadeildinni var ætlað að vinna, og hinsvegar er fyrirsjáanlegt, að stofnun bankans hlýtur að binda mikið hreyfanlegt fjármagn og valda erfiðleikum miklum við fjáröflun til Fiskveiðasjóðsins, þó að ekki sé hugsað um meira en rekstrarlánadeildina eina. Einnig er svo ráð fyrir gert í lögunum um Útvegsbanka, að hann starfræki þennan sjóð, og er þá því minni ástæða til að láta Fiskveiðasjóð grípa inn á verksvið bankans sjálfs.

Ég skal þá stuttlega víkja að brtt. sjútvn. á þskj. 370. Allir nm. eru sammála um brtt. og afgreiðslu málsins eftir þeim, en einn hefir þó skrifað undir með fyrirsvara, og mér skildist það aðeins vera vegna formsatriða. Flestar brtt. n. lúta að niðurfellingu rekstrarlánadeildar sjóðsins, eða eru afleiðing af þeirri breyt. frv., og þá jafnhliða um efling stofnlánadeildar. Þannig er niður felld t. d. 3. gr., sem var um deildaskiptingu, en önnur kemur í staðinn um útgáfu vaxtabréfa.

Út af ágreiningi, sem á undanförnum þingum hefir verið um það, hvort sjóveð ætti að þoka fyrir veðrétti sjóðsins, þegar skip eru veðsett, hefir n. hallazt að því ráði að láta sjóveðin standa óhögguð, eins og þau voru ákveðin í siglingalögunum frá 1914, en leggja í þess stað lítilsháttar aukagjald á þá, sem lán taka í sjóðnum gegn veði í skipum, til eflingar sérstökum sjóði, sem ávaxtast eins og varasjóður og verja megi til að bæta Fiskveiðasjóði þann halla, sem hann kann að bíða vegna sjóveða í veðsettum skipum. Þessi breyt. felst í 7. gr. eftir till. n. Þá er þriðja aðalbreyt., sem n. leggur til, við 17. gr., og lýtur hún að því, að atvmrn. hafi á hendi stj. sjóðsins, þar til samningar takist við Útvegsbankann um rekstur sjóðsins, svo sem ráðgert er í stofnlögum þess banka. Hinar brtt. eru að mestu leyti gerðar formsins vegna, og virðist ekki ástæða til að fara fleiri orðum um þær.

Ég held, eftir því, sem komið er og á stendur, að ekki sé rétt að tefja tímann lengur við að ræða þetta mál. Ég á ekki von á, að risið verði gegn afgreiðslu þess í þessari mynd, en ef svo skyldi þó verða, þykir mér réttara að bíða, unz andmæli eru komin fram.