25.03.1930
Efri deild: 60. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2210 í B-deild Alþingistíðinda. (2942)

91. mál, gagnfræðaskóli

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

* Hæstv. dómsmrh. sló töluvert meira úr og í í ræðu sinni en ég hafði í raun og veru búizt við, eftir að hann hafði neitað tilmælum samflokksmanna sinna í n. og formanns n. um að ganga inn á grundvallarhugsunina í minni till., sem ég flutti í n., nefnilega sem heimild fyrir stjórnina. Hann hefir nú orðið að beygja sig það langt fyrir rökum í þessu máli hvað skólabygginguna snertir, að hann hefir lofað að taka til yfirvegunar til næsta árs nýja löggjöf, sem geri það mögulegt, að Iðnskólinn samrýmist gagnfræðaskólanum, og svo lítur út, að hann ætli að leggja eitthvað nýtt til frá sjálfum sér, svo að geti verið að ræða um einhverja verklega kennslu. En hæstv. ráðh. lét sér það um munn fara, að allt, sem minnti á samskóla, væri vanhugsað og grautarlegt.

Ég get sagt það sama um allt tal hæstv. ráðh. um verklegu kennsluna, sem hann er að gefa vonir um að ári. Hæstv. ráðh. hefir talað mikið um þessa verklegu kennslu, en það var allt vanhugsað og grautarlegt enn sem komið er. Eftir 1–2 ár verður ef til vill öðru máli að gegna. Hæstv. ráðh. dettur ekki í hug, hversu margvíslegar alþýðuskólaþarfirnar eru í Reykjavík, enda var tæplega von, að honum dytti það í hug, þar sem vanþekking hans er svo gífurleg, að hann setur í grg. frv. önnur eins ummæli og þau, að í Reykjavík hafi aldrei verið alþýðuskóli. Í einum kafla ræðu sinnar fór svo hæstv. ráðh. að reyna að verja mannorð sitt sem kennslumálaráðh. gegn því, hve freklega röng þessi ummæli eru. Hæstv. ráðh. kannast þá auðvitað við, að allir þessir skólar eru í Reykjavík, en bendir á, að það sé ekki Reykjavíkurbær einn, sem kosti þá, og ekki Reykvíkingar einir, sem sæki þá. Um þetta hefi ég ekkert sagt. Hæstv. ráðh. sagði, að engir alþýðuskólar væru í Reykjavík. og það hefi ég hrakið. Og hæstv. ráðh. skjátlaðist sorglega, þegar hann fór að reyna að fóðra þetta með því að gera grein fyrir skoðun sinni á því, hvað séu alþýðuskólar og hvað ekki. Að því leyti, sem rétt hugsun var í útskýringum hæstv. ráðh., var það sú hugsun frá fyrri öldum, að ekkert sé alþýðuskólar, þar sem kennt sé eitthvað það, sem geti komið þeim að sérstöku gagni við sérstaka atvinnu í lífinu. En þarna er hæstv. ráðh. svo sorglega á eftir tímanum. Hann virðist ekki skilja það enn í dag, að eins og tekið er fram í nál. mínu, skiptast atvinnuhagir og störf manna svo fjölmenninu, að hver maður verður að stunda einhverja sérstaka atvinnugrein, og löggjöfin tekur svo upp í sig mynd af þessari eðlilegu þörf. En allt öðru máli gegnir um sveitirnar. Þar stunda flestir menn sömu vinnuna. Þetta ætti hæstv. kennslumálaráðh. að vita og sjá í hendi sér, að það þýðir ekkert að kenna óbreyttum verkamönnum t. d. trésmíði eða úrsmíði, því að þeir mega ekki stunda þá atvinnu. Alveg sama er um ýmsa aðra að segja, t. d. verzlunarmenn. Hinsvegar er alveg óhugsandi að ganga út frá því, að alþýðumenntun geti orðið svo, að fyrst komi barnaskólanám til l4 ára aldurs, síðan gagnfræðaskólanám í 2 ár, og þá fyrst það nám, sem byggist á þeirri atvinnu, sem nemandinn ætlar að stunda, t. d. iðnskólanám. Þegar börnin hafa lokið barnaskólanámi, verða þau að fara að nema eitthvað, sem getur komið þeim að sérstöku gagni í lífinu. Í sveit aftur á móti, þar sem leggja verður mikla áherzlu á fjölhæfi hvers einstaklings, má halda áfram almennri menntun eftir fermingaraldur, en í kauptöðunum verður að koma atvinnunám. Þörfin hefir framkallað það hér, að þeir, sem ætla að gerast iðnaðarmenn, byrja á námi sínu tiltölulega fljótt eftir 14 ára aldur, a. m. k. þegar námið útheimtir ekki mikinn líkamsþroska. Þeir, sem ætla að verða verzlunarmenn, byrja sem sendisveinar eða því um líkt þegar eftir fermingu. Að byrja á lægsta stigi lífsstarfsins þegar á þessu reki, er áreiðanlega betri undirbúningur en framhaldsfræðsla beint aftan við barnaskólafræðsluna. En það er lífsspursmál fyrir menningin okkar, að unga fólkið, sem fer að vinna strax um fermingu, fari ekki á mis við framhaldsskólamenntun. Og nú hefir hæstv. ráðh. viðurkennt nauðsyn þess, að ríkisvaldið beini athugun sinni meira en áður hefir verið gert að iðnaðarnámi. Iðnaðarstéttin er fjölmennasta stéttin í bænum, og þar næst kemur verzlunarstéttin, svo að maður skyldi ætla, að hennar menntamálum þyrfti líka að sinna. En það finnst hæstv. ráðh. ekki koma til mála. Hann lætur sér nægja, að hér er skólakríli, samvinnuskólinn, sem styrktur sé af Sambandinu, sem sé einkafyrirtæki, og ef sá skóli nægi ekki verzlunarstéttinni, séu kaupmenn ekki of góðir til að halda uppi öðrum skóla, segir hæstv. ráðh. Kaupmennirnir hafi nóg fé. Hæstv. ráðh. sýnir sorglegan misskilning á því, hvað það þýði að eiga menntaða verzlunarstétt. Það er ekkert sérstakt hagsmunamál kaupmanna bæjarins, sem hafa því miður orðið að fara á mis við nauðsynlega sérmenntun, að koma upp menntaðri verzlunarstétt. Það er og á að vera hagsmunamál allra landsmanna. Ég skal leitast við að sanna þetta, af því að skilningsleysi hæstv. ráðh. á þýðing verzlunarstéttarinnar í landinu hefir bitið um of á ýmsa flokksmenn hans og sljóvgað sjón þeirra. Ég mætti Kristjáni Bergssyni, forseta Fiskifélagsins, á götu nýlega. Ég spurði hann, hvernig gengi með aflabrögðin, og við fórum að tala saman. Hann fór að tala um árferðið og sagði, að það færi ekki eftir því, hve mikið aflaðist, heldur hinu, hversu gott verð fengist fyrir aflann. Ég hugsa, að þeim þyki þetta ótrúlegt, sem ekki hafa athugað málið vel, en þeir geta flett upp í Hagtíðindum svo langt aftur í tímann, sem vísitölur eru haldnar, og séð, að verðlagssveiflurnar eru svo miklu meiri en sveiflurnar í framleiðslumagni, að þær verða yfirgnæfandi fyrir afkomuna. En þó að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að manna okkur sem bezt til þess að auka framleiðsluna, er það alveg ófullnægjandi, ef verzlunarstéttin bregzt sínu hlutverki, því, að koma framleiðsluvörunum í sem bezt verð. Ég segi það því hiklaust, að þegar farið er að tala um verklegt nám, sem þýðir sérnám við hverja atvinnugrein fyrir sig, má ekki ganga framhjá verzlunarnáminu, enda er það alstaðar viðurkennt í síðuðum löndum.

Þegar hæstv. ráðh. átti tal við mig út af því, sem ég hafði borið fram í n., gaf hann vonir um, að það, sem ég hefi lagt til um iðnaðarnám, mundi verða hægt að framkvæma þegar á næsta ári, en ég sagði, að það væri ekki nóg, nema verzlunarstéttinni yrði sýnd samskonar úrlausn. Þá skildu okkar leiðir.

Ég geri ráð fyrir, að verzlunarstéttin, í víðasta skilningi, nefnilega þeir, sem annast verzlun og samgöngur, sé fjölmennari en nokkur ein sýsla á landinu. Það nær engri átt, að gengið sé framhjá henni, ef á að koma skipulagi á alþýðufræðsluna í landinu. Það eru bara tóm orð, að fræðsla iðnaðarmanna og fræðsla verziunarmanna sé ekki alþýðufræðsla.

Ég hefi þá endurtekið höfuðrökin fyrir því, að það má ekki ímynda sér, að verið sé að ráða bót á alþýðufræðslunni í Reykjavík, ef ekki er tekin með fræðsla iðnaðarmanna og verzlunarmanna. Þeir verða nógir, hinir, sem læra eitthvað í gagnfræðaskólum og geta svo komizt í stöður, t. d. í skrifstofum, þar sem þykir þægilegt að vera, en lítið er borgað fyrir.