26.03.1930
Efri deild: 61. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2219 í B-deild Alþingistíðinda. (2945)

91. mál, gagnfræðaskóli

Frsm. meiri hl. (Erlingur Friðjónsson):

Hv. 3. landsk. helgaði fyrri hluta ræðu sinnar því, sem ég sagði um þetta mál í gær. Skrifaði ég hjá mér örfá atriði, sem ég vildi ræða um við hann dálítið nánar. Hv. 3. landsk. sagði, að enginn mundi neita því, að verzlunar- og iðnaðarfólk væri alþýðufólk. (JÞ: Þó það sé ekki alþýðuflokksmenn). Ég efast nú um, að iðnaðarfólkið og verzlunarfólkið hér í bæ þakki honum nokkuð fyrir að spyrða það saman við verkafólkið. Flokkaskiptingin hér í Reykjavík a. m. k. bendir ekki á það, að þessar þrjár stéttir eigi samleið, þar sem tvær þeirra sameinast á stjórnmálasviðinu gegn þeirri þriðju, nefnilega verkamönnum. Eftir túlkun hv. 3. landsk. á orðinu „alþýðumaður“ mætti eins telja hann sjálfan til alþýðunnar. (JÞ: Það væri víst ekki fjarri sanni). Ég býst við því. Hann er bæði verkfr. og kaupm. Þó hann sé verkfræðingur, verður hann líkl. varla talinn til iðnaðarmanna, en það er nóg, að hann telst til verzlunarstéttarinnar, til þess að eftir hans kenningu megi telja hann alþýðumann. Hv. 3. landsk. beitir svipaðri aðferð nú eins og þegar ónefndir menn eru að biðla til alþýðunnar á kjósendafundum. Hann álítur heppilegt að telja þessar tvær stéttir til alþýðunnar, af því hann vill láta ríkið taka að sér kostnaðinn við fræðslu þeirra jafnframt því, að alþýðumenntuninni er ráðstafað, og því gerir hann sig tungumjúkan sem alþýðumann. Ég er hv. 3. landsk. raunar sammála um það, að ríkið eigi í framtíðinni að sjá um menntun iðnaðarmanna og verzlunarmanna, en ég tel alls ekki sjálfsagt, að það taki hana að sér jafnframt alþýðumenntuninni. Til frekari skýringar má benda á, að það er nú þannig með gagnfræðaskólana,að þeir búa unglingana almennt undir æðri menntun, á hvaða sviði sem er. Það má gera ráð fyrir, að sá, sem gengur gegnum gagnfræðaskóla, haldi áfram gegnum æðri skólana og verði t. d. prestur, sýslumaður eða læknir, og þeir verði m. ö. o. þjónustumenn þjóðarinnar í heild. Það verður ekki sagt um iðnaðarmenn og verzlunarmenn, að þeir séu þjónustumenn þjóðarinnar í heild. Þannig er hægt að greina þá menntun, sem iðnskólar og verzlunarskólar veita, frá gagnfræðafræðslunni. Verzlunar- og iðnskólarnir búa menn undir verzlun og iðnað, en gagnfræðaskólarnir veita einkum þeim undirstöðufræðslu, sem ætla að búa sig undir opinber þjónustustörf.

Þá sagði hv. 3. landsk. til sönnunar því, hvað nauðsynlegt væri að mennta verzlunarstéttina sem bezt, að afkoma þjóðarinnar færi ekki eftir því, hvað mikið aflaðist, heldur eftir því, hvað mikið fengist fyrir aflann. Sé það rétt hjá hv. þm., að verzlunarstéttin geti ráðið, hvaða verð er á sjávarafurðum, þá er óhætt að segja, að henni hefir stórlega mistekizt að verða þjóðinni að því liði, sem hún hefði getað orðið. Mér er spurn: Heldur hv. 3. landsk., að nauðsynlegt sé að taka verzlunarmenntunina úr höndum verzlunarstéttarinnar sjálfrar og láta hið opinbera sjá um hana, til þess að verzl.mennirnir geti orðið að því gagni fyrir þjóðfélagið, sem hann álítur þá geta orðið? Mér finnst, að maður, sem eins mikla trú hefir á frjálsu framtaki einstaklingsins eins og hv. 3. landsk., ætti sízt að halda því fram, að taka eigi af kaupmönnunum aðstöðuna til að mennta vinnufólk sitt, sem síðar tekur svo við verzlunarfyrirtækjunum, og fá hana í hendur þjóðinni í heild. Slík skoðun kemur mjög í bága við það, sem þessi hv. þm. hefir áður haldið fram, bæði í ræðu og riti. Ég skal ekki draga það í efa, að mikils sé um það vert, að verzlunarstéttin sé vel menntuð. En ég efast um, að hún verði sérstaklega vel menntuð, ef taka á unglingana á aldrinum 13–16 ára til að troða í þá verzlunarþekkingu. Ég er hræddur um, að sú þekking, sem þroskalausir og hugsunarlitlir unglingar taka við, geri verzlunarstéttina aldrei færa um það hlutverk, sem hv. 3. landsk. telur hana hafa.

Líka mætti benda á það, að þó menntuð verzlunarstétt eigi hlut að máli, skortir ekki æfinlega mistök í verzlunarmálunum. Nægir því til sönnunar að benda á ástandið, sem nú ríkir í Bandaríkjunum í Ameríku. Er það talið stafa af mistökum verzlunarstéttarinnar, og er hún þó betur menntuð þar en víðast annarsstaðar. Verzlunarþekking er því ekki einhlít til að gera verzlunarmenn hæfa til síns hlutverks. Og ef ríkið á að taka verzlunarfræðsluna að fullu í sínar hendur og þjóðin í heild að leggja fram fé til hennar, þá verður að gerbreyta öllu fyrirkomulagi hennar frá því, sem nú er, til þess að hún komi að notum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það, sem hv. 3. landsk. beindi til mín. Ég geri ráð fyrir, að það hafi ekki sannfært aðra hv. dm., og mig sannfærði það áreiðanlega ekki.