02.04.1930
Neðri deild: 69. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2238 í B-deild Alþingistíðinda. (2958)

91. mál, gagnfræðaskóli

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég ætla að þessu sinni aðeins að segja fáein orð fyrir þessu frv. — Það er hér gert ráð fyrir því, að þessir gagnfræðaskólar hafi svipaða alþýðufræðslu á hendi fyrir kaupstaðina og héraðaskólarnir hafa fyrir sveitirnar eftir l. í fyrra. Það er gert ráð fyrir, að gagnfræðaskólar verði í öllum kaupstöðunum nema Seyðisfirði. Hann er nú svo fámennur, að reynslan hefir sýnt, að þar hefir ekki verið hægt að halda uppi unglingaskóla undanfarna vetur. En ef bærinn vex aftur, sem vel getur verið, þá er ranglátt að hafa hann ekki með. Ég ætla að taka þetta strax fram, því annars mætti álíta, að Seyðisfjörður færi hér á mis við hlunnindi, sem hann gæti risið undir.

Nú sem stendur eru gagnfræðaskólar í Reykjavík, Hafnarfirði, Ísafirði og Akureyri. Þá er einnig gert ráð fyrir gagnfræðaskóla í Vestmannaeyjum og heimilað að stofna síðar meir skóla á Siglufirði og Norðfirði; a. m. k. mun Siglufjörður fljótlega nota þá heimild.

Það er gert ráð fyrir, að þessir skólar hvíli bæði á ríkissjóði og bæjarfélögum, í ákveðnu hlutfalli, og hygg ég það yfirleitt sanngjarnt.

Þá gilda yfirleitt sömu fyrirmæli um kennslu og starf allra skólanna. Þó skal það tekið fram, að af sérstökum ástæðum er ætlazt til, að í Vestmannaeyjum verði skólaárið styttra en annarsstaðar, því að í janúar fer unga fólkið að vera svo upptekið af vertíðinni, að það hættir að sinna skóla. Það getur því orðið það fyrirkomulag, að skólinn þar starfi aðeins 4 mánuði á hverjum vetri, en þá verður það að taka fleiri vetur en annarsstaðar, ef neina skal jafnmikið í öllum skólunum.

Yfirleitt er þetta frv. rúmt, svo hægt er að taka tillit til sérþarfa hvers staðar. Það er líka mjög líklegt, að í kaupstöðum sem Siglufirði, Norðfirði, Ísafirði og Vestmannaeyjum verði fljótt komið á kennslu í vélfræði, og yrði húsrúmið þá notað fyrir námsskeið, þó að fyrst og fremst eigi að nota það til almennrar fræðslu.

Ég hefi lýst því yfir við umr. í Ed., að að öllu forfallalausu muni fræðslumálastjórnin undirbúa fyrir næsta þing frv. um iðnfræðslu, ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, nær fram að ganga. Ég hugsa mér, að það yrði þá áframhald af þessari starfsemi.

Ég óska svo, að máli þessu verði að umr. loknum vísað til menntmn.