17.02.1930
Efri deild: 27. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2277 í B-deild Alþingistíðinda. (3038)

117. mál, jarðræktarlög

Flm. (Jón Jónsson):

Það er ekki nema eðlilegt, að menn spyrji um það, hve mikil útgjöldin muni verða, en það er nú svona með ýmsar framkvæmdir, að það er ekki gott að svara fyllilega til þess. Ég hefi samt athugað þetta og hygg, að það sé hægt að áætla það nokkuð. Það eru til skýrslur um það, hve mikilla heyja sé aflað á öllu landinu, en því miður eru ekki til skýrslur, sem búið er að vinna úr, um það, hve miklar hlöður séu til á öllu landinu. Þeirra upplýsinga ætlaði ég að afla mér, en það er svo geysilegt verk að safna þeim. Það eru til í fasteignamatinu frá 1920 skýrslur um það, hve miklar hlöður voru þá til á landinu, og sömuleiðis er hægt að fá að vita það hjá Búnaðarfélaginu, hve mikið hafi verið reist af hlöðum síðustu árin. Sögðust þeir í Bf. Ísl. geta fundið þetta allt, ef ég vildi leggja til, að farið væri í gegnum allt fasteignamatið, en ég taldi það úr.

Ég hefi því ekki lagt fram skýrslur um þetta, en er fús til að ræða þetta við hv. 4. landsk. í landbn. og býst við, að við getum komizt að einhverri niðurstöðu. En eitt þykist ég geta fullyrt, og það er, að þetta mundi ekki nema eins mikilli upphæð og það, sem sparast við það, hvernig breytt var til um dagsverkamatið á síðastl. sumri. Ég tek það fram í grg. frv. að ég telji þá breyt rétta, en þetta allt get ég rætt við hv. þm. síðar.

Hvað því viðvíkur, að þetta muni draga úr öðrum framkvæmdum manna á landinu, þá getur það kannske verið, þótt þarna verði varla um svo stóra upphæð að ræða, að það geti haft áhrif á ríkisreksturinn. En ég vil líka benda á það, að um leið og landbúnaðinum er gert svona létt fyrir, verður það vitanlega til þess að auka stórkostlega tekjur hans og gjaldþol, og ég hefi þá trú á landbúnaðinum, að hann geti endurgoldið þetta allt með vöxtum og vaxtavöxtum, ef tekst að breyta honum nógu fljótt í rétt horf.

Ég skal geta þess, að ein prentvilla er í grg. frv. Þar er sagt, að stafað hafi gjaldahækkun af breytingunni á því, hvernig jarðabætur eru nú lagðar í dagsverk, en á auðvitað að vera gjaldalækkun.

Hv. þm. var að tala um, að ég væri að stofna þarna til byltingar. Ég kannast hiklaust við það, að ég vildi mjög gjarnan koma þeirri byltingu á, að landbúnaðurinn tæki þeim breytingum, að það væri hægt að reka hann eftir nútímans kröfum, en það er allt önnur bylting og heilbrigðari en sú, sem hv. þm. og flokksmenn hans vilja koma á í þjóðfélaginu.