16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

1. mál, fjárlög 1931

Halldór Stefánsson:

Hv. frsm. fjvn. lét í ljós mikla óánægju yfir einstöku breytingum, sem hv. Ed. hefði gert á frv. Virðist slíkt hafa litla þýðing, og má skoðast aðeins sem nöldur, þar sem þegar mun ákveðið að taka við frv. óbreyttu frá hv. Ed. En þar sem hv. frsm. minntist á einstök atriði, sem hann átaldi hv. Ed. fyrir, voru tvö, er hann talaði um af fullum ókunnugleik.

Hv. frsm. átaldi, að fjárveitingin til laxastiga í Lagarfljóti hefði verið hækkuð og jafnframt hlutfallið við framlag héraðsbúa. Þetta er að vísu rétt, en engin ástæða til að vera óánægður eða átelja þetta, því að hér stendur alveg sérstaklega á. Hér er að ræða um stór fellda tilraun, sem getur orðið heilu héraði til mikils gagns, ef vel tekst, en engin vissa er um árangur. Má vera fyrir þessu Pálma rektor Hannesson, sem fenginn var til þess að rannsaka málið og gaf um það skriflegt álit, sem lá fyrir Alþingi í fyrra.

Hitt atriðið voru átölur hv. frsm. vegna viðbótarstyrks til sjúkraskýlisins á Hjaltastað. Hér voru einnig sérstakar ástæður. Nokkur hluti læknishéraðsins, allt að þriðjungur, hafði skorazt undan að taka þátt í byggingu sjúkraskýlisins, og engin lög í landi, er gætu neytt þá til þess að taka þátt í kostnaðinum. Þennan viðbótarstyrk er þá að skoða sem svarandi til þess, sem þessi hluti hefði átt að leggja fram. En að greina ástæður til þess, að þessi hluti læknishéraðsins skoraðist undan að leggja fé til sjúkraskýlisins, mundi langt mál, en það var ágreiningur um það; hvar læknisbústaður skyldi vera, og að hann hafði verið fluttur.

Þá skal ég víkja að ummælum hv. þm. N.-Þ. út af þáltill. um fullnaðarskil við Pál Torfason vegna afskipta hans af enska láninu 1921. Hv. þm. gat þess ásökunarlaust að vísu, að till. hefði ekki verið afgr. frá fjhn. Ég vil þó geta um ástæðurnar til þess, að till. var ekki afgr. í n. En ástæðan til þess var sú, að till. var þannig úr garði gerð, að gagnslaust var að samþ. hana. Hún fól í sér þann fyrirvara, að tilgangslaust var að. samþ. hana, enda gat hæstv. fjmrh. þess í umr. um hana, að óvíst væri að hann greiddi herra Páli Torfasyni nokkuð, þó till. yrði samþ. Og þar sem málið var engu betur upplýst fyrir n. heldur en í fyrra, þegar það lá fyrir 2 n. öðrum og stj., var ekki við því að búast, að fjhn. gæti komizt að ákveðnari niðurstöðu en aðrir.

Hv. þm. (BSv) tók svo til orða, að enn væri ógreitt herra Páli Torfasyni meiri hl. af ómakslaunum hans. Ég skal ekki véfengja, að þetta sé hans álit, en í skjölum málsins eru ekki skýlaus gögn fyrir því, að svo sé, enda ágreiningur um það, og fyrirvarinn í till. bendir á, að ekki sé þetta ágreiningslaust. Ég hygg, að eins vel mætti leiða rök að því, að herra Páli Torfasyni hefði verið að fullu greitt, eða ef til vill ofgreitt. En ættu menn að fá fulla vissu í þessu efni, þyrfti að reka þetta sem dómstólamál, með réttarprófum yfir öllum þeim, sem við málið hafa verið riðnir. En þess vil ég geta, að komi skýlaus gögn fyrir því, að herra Páll Torfasyni hafi verið vangreitt, hygg ég,að enginn muni hika við að greiða því atkv., að hann fengi sitt að fullu. Nú virðist komin viðunandi lausn — a. m. k. í bráðina — á þetta mál, með áskorun þeirri til hæstv. fjmrh. um að greiða herra Páli Torfasyni ákveðna upphæð, sem meiri hl. þm. hefir ritað undir. Skal ég því ekki rekja málarvexti frekar, enda er þeim svo varið, að það er ekki þægilegt.