14.04.1930
Neðri deild: 79. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (3084)

117. mál, jarðræktarlög

Hannes Jónsson:

Hv. 1. þm. Reykv. datt ekki í hug að mótmæla því, að með ákvæðum frv. eru hinir efnaminni menn órétti beittir samanborið við hina ríkari. Þetta leiðir vitanlega af sjálfu sér, því að hinir efnaðri eru síður háðir árferði en hinir fátækari, en af því leiðir, að þeir fá hærri styrk eftir þessu frv.

Í sambandi við þessa skrifl. brtt., sem fram hefir komið, vil ég geta þess, að hún er alveg óþörf, vegna þess að alveg sömu ákvæði eru í jarðræktarlögunum, því þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Og skal þá veita þeim, er verkið lét framkvæma, styrk úr ríkissjóði, er nemi 1.50 kr. fyrir hvert metið dagsverk, þó aldrei meira en 1.200 kr. fyrir hvert um sig“.

Þetta eru nákvæmlega sömu ákvæðin og í frv. Ég legg mikla áherzlu á, að brtt. hv. þm. Mýr. verði samþ., því að kostnaðaraukinn er óverulegur í samanburði við það, að á þennan eina hátt verður nokkurt réttlæti í úthlutun styrksins.