04.02.1930
Neðri deild: 14. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2311 í B-deild Alþingistíðinda. (3092)

54. mál, lögskráning sjómanna

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Frv. þetta, sem við þrír samþm. flytjum hér í d., er, eins og segir í grg. frv., einn liður út þeim málum, sem n. sú, er endurskoðaði siglingalögin, hafði með höndum. Það er gerð nokkur grein fyrir því, hvers vegna það varð ekki samferða hinum öðrum frv., að þeir menn, sem unnu að þessari endurskoðun, urðu ekki sammála um, hvernig haga skyldi þessari löggjöf, og þess vegna gátum við ekki látið frv. frá okkur fara ásamt hinum. Ég leyfi mér því að bera frv. fram, sem ég hefi samið, ásamt þeim lögfræðingi, sem starfaði með nefndinni.

Þetta frv. er að mestu leyti sniðið eftir þeirri venju, sem hefir að nokkru leyti skapazt hér á landi um lögskráningu sjómanna, og mun sú venja nokkuð stafa frá þeim leiðarvísi, sem þáverandi landshöfðingi, árið 1890, gaf lögreglustjórum til að fara eftir við lögskráningu. Sá leiðarvísir var að mestu sniðinn eftir gildandi dönskum lögum, en í þessu frv. eru ýms nýmæli, sem ég síðar mun minnast á.

Á Norðurlöndum hefir þessari starfsemi verið skipað með sérstökum lögum. Löggjöf Dana er síðan um 1876, Norðmanna nokkru seinna, um 1892, og Svía um líkt leyti, ítarlegur lagabálkur, sem þeir hafa um þetta efni. Siglingalögin frá 1914 gera ráð fyrir því, í þeim greinum, sem fjalla um lögskráningu, að stjórnarráðið skuli semja leiðarvísi fyrir lögreglustjóra til að fara eftir, en ég hefi ekki getað séð, að sá leiðarvísir hafi nokkurntíma verið saminn, svo að í raun og veru hefir verið farið eftir þeirri venju, sem myndaðist og stafaði frá leiðarvísi þeim, er landshöfðingi gaf út 1890.

Við, n. sem endurskoðaði siglingalögin, vorum allir sem einn sammála um það, að nauðsynlegt væri að skipa þessu atriði farmannalöggjafarinnar með sérstökum lögum, en ekki að setja atriði um lögskráninguna inn í farmannalaga- eða sjómannalagafrumvörpin, sem nú liggja hér fyrir Alþingi, eins og áður hafði verið gert.

Lögskráning hefir í eðli sínu sýnt það, að hún er allverulegur liður í réttarfarslöggjöfinni. Það má segja, að lögskráningin sé hliðstæð þinglesningu á samningum og opinberum skjölum, því að hún er viðurkenning á samningi, sem tveir aðilar gera á milli sín; er sá samningur þannig orðinn lögfestur, svo að honum er ekki fært að rifta nema með samkomulagi beggja aðila. Þetta hefir lögskráningin í sér fólgið meðal annars.

Ennfremur það, að um leið og slíkur samningur er lagður fyrir valdsmann, á það að vera svo, að ekkert sé í þeim samningi, sem stríði á móti gildandi lögum, því að það á að vera föst regla, að valdsmaður bendi farmanni eða fiskimanni á það í samningnum, sem stríðir gegn lögum, og hafi heimild til að strika það út. Með því fæst trygging fyrir því, að engin slík meinloka komist inn í samningana.

Í lögskráningu er fólgið allmikið réttaröryggi fyrir þá menn, sem ráða sig á skip hjá öðrum. Hér á landi hefir verið allmikill misbrestur á framkvæmd þessara laga. Tala ég þar nokkuð af eigin reynslu, og sömuleiðis af þekkingu, sem ég hefi fengið af viðtali við sjómenn víðsvegar af landinu. Ég minnist þess, að áður en lögunum var breytt 1914, gengu lögreglustjórar miklu skörulegar að verki en síðar, og var nokkur ástæða til þess, því að með lögunum 1914 var fellt niður ákvæði, sem þýddi það, að lögskráningarstjóri hafði minna vald til að rétta hlut þess, sem skráður var, heldur en eftir fyrri ákvæðum. En úr þessu á að vera bætt með því frv., sem hér liggur fyrir, að réttaröryggi farmannsins á að vera miklu meira undir vernd lögskráningarstjóra en verið hefir.

Ég hygg, að reglunum um lögskráningu hafi bezt verið fylgt hér í Reykjavík, en ég vil einnig meina, að margur lögskráningarstjóri utan Reykjavíkur hafi í raun og veru ekki vitað, eftir hvaða reglum hann átti að fara.

Að þessu sinni vil ég ekki fara út í einstakar gr. frv., enda ekki venja við þessa umr. málsins, en aðeins benda á nokkur nýmæli, sem telja verður mikils virði fyrir sjómenn, t. d. ákvæði 16. gr., að lögskráningarstjóri hafi vald til að gera upp viðskipti farmanns, ef þau hafa ekki verið gerð upp áður. Það hefir oft átt sér stað, þegar útgerðarmenn og sjómenn greinir á, að þá hefir sjómaðurinn neyðzt til að láta af sínum rétti, vegna þess að það hafa ekki verið neinir möguleikar fyrir hann að ná rétti sínum nema með málsókn. En þetta hefir oft orðið til þess, að menn hafa orðið að gefa eftir smáar upphæðir, fyrir það að málarekstur er mjög dýr og réttargangur seinn. Úr þessu á að vera bætt með því, að viðkomandi lögreglustjóri geti lagt sinn dóm á það, hvað rétt sé og rangt í þessu máli, og ef hlutaðeigendur vilja ekki samþykkja úrskurð hans, má vísa málinu til sjódóms. Þetta tel ég vera allverulegt réttaröryggi fyrir sjómennina, ef þessi breyt. nær fram að ganga, og myndu þeir þannig losna við ýmsa rekistefnu, sem fyrir kann að koma. Þó er hér gerður nokkur munur á, eftir því hvort farmaður er ráðinn upp á verðlaun eða hlut. Venjulega er hægt að gera kaupið upp, en öðru máli gegnir, ef maður er ráðinn upp á hlutdeild í ágóða eða afla; það er oft ekki hægt að segja um það á hverjum tíma, þegar afskráning fer fram, hver hlutur muni vera. Er þá ákveðinn þriggja mánaða frestur, sem útgerðarmaður hafi upp á að hlaupa, samkv. 17. gr.

Ennfremur er það nýmæli í 18. gr., ef maður getur ekki mætt, þegar lögskrá skal úr skiprúmi og gera upp viðskiptin, að þá ber lögskráningarstjóra beinlínis skylda til að sjá borgið hag viðkomandi manns eða ættingja, sem eiga að taka kaup hans. Þetta er nýtt hér, en flest Norðurlönd hafa þessi ákvæði.

Ég skal ekki þreyta hv. deild á lengri framsögu, en ég vænti, að þetta mál fái meðferð í n., og verða þá sjálfsagt frekari umr. um málið. Ég leyfi mér að óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn., sem hefir skyld mál til meðferðar.