03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2352 í B-deild Alþingistíðinda. (3152)

32. mál, vegalög

Einar Jónsson:

Það er einkanlega það, sem ég hafði ætlað að vekja athygli hv. þdm. á, að eins og brtt. liggja nú fyrir er það sýnilegt, að ef flm. ætla að tala fyrir sínum till., verður afgreiðslu þessa máls ekki lokið fyrr en seint og síðar meir, og jafnvel dagar uppi á þessu þingi. Ástæða til, að þessu máli hefir seinkað, er fyrst og fremst sú, að það kemur beint frá nefnd, og svo líka hitt, að það hefir verið neðarlega á dagskrá eftir að það kom frá n. Ég vona því, að menn séu sammála um, að ekki sé ástæða til að fara að halda langar ræður, því að þær munu ekki ráða úrslitum. Ég læt mér nægja að mæla með þeim brtt., sem ég á á þskj. 43, en vil þó taka það fram, að 3. brtt. tek ég aftur, en hinar tvær mun ég láta koma til atkv. og vona, að þeim verði sanngirni sýnd.

Ef menn ætla að fara að tala rækilega fyrir till. sínum, þá mun ég ekki láta standa á mér, en þar sem flm. eru nú svona margir, vil ég vona, að ég þurfi þess ekki. Ég ætla ekki að fara að gera samanburð á einstökum brtt., því að ég býst við, að nauðsynlegt sé að fá þær allar samþ., en hinsvegar geri ég ráð fyrir, að nauðsynin sé misjafnlega mikil, og væri það einhver, sem gæti tekið till. sínar aftur, áliti ég það æskilegt. Hinsvegar má fara dálítið eftir till. nefndarinnar, því að hún hefir haft allar brtt. til athugunar og kynnt sér þær. Ég veit ekki hvernig kann að fara um þessar tvær brtt., sem ég á nú eftir, Fjallabaks- og Fljótshlíðarveg, en vil vera hinn vonbezti um, að atkvgr. falli mér í vil.

Ég hefi svo ekki fleira að segja, en vona, að hv. þm. spari sér að tala mikið um málið, því að það getur beinlínis orðið hættulegt fyrir afgreiðslu þess, ef umr. lengjast úr hófi fram, þar sem svo áliðið er þingtímans.