03.04.1930
Neðri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (3170)

32. mál, vegalög

Sigurjón Á. Ólafsson:

Hv. frsm. hefir nú talað fyrir munn okkar nm., en ég hafði nokkra sérstöðu í n. Ég féllst á það, að rétt væri að opna vegalögin. Og þótt ég gerði það til samkomulags að ganga ekki lengra en n. gerði till. um, þá hafði ég þó talsverða tilhneigingu til að taka meira upp en gert var. En það fór nú sem fór. Og þegar fleiri till. eru nú komnar fram, þá get ég sagt það, að ég mun greiða sumum þeirra atkv. mitt.

Ég hygg, að svo verði um afgreiðslu þessa máls, eins og ég sagði við 2. umr., að hending og tilviljun muni ráða nokkuð miklu um, hvað gengur fram og hvað ekki. Mín skoðun er óbreytt, að málinu væri bezt komið í höfn, ef það væri athugað betur af stj. og öðrum góðum og kunnugum mönnum, og síðan lagt fyrir þing að því loknu. En áhugi manna er svo mikill að fá vegarspotta í sínu héraði, að ekki verður hjá því komizt að gera einhverjar breytingar strax. En sem sagt hlýtur hendingin að ráða með þeirri aðferð.

Ég skal ekki fara mikið út í einstakar brtt., því að það er búið að ræða þær. Ég tek undir með hv. frsm., að tillögur, sem nefndin átti ekki kost á að ræða á fundi, fái að bíða til 3. umr. (MG: Það hefir enga þýðingu). Enga þýðingu, segir hv. 1. þm. Skagf. Það getur þó verið, að einhverjir nefndarmenn eigi eftir að kynna sér þær.

Ég get ekki fallizt á till. hv. þm. Borgf. um Norðurlandsveginn, því að hann miðar við Akranes sem endapunkt. Betra hefði verið að miða við Kalastaðakot eða einhvern annan ferjustað við Hvalfjörð. En ég er honum sammála um það, að vegurinn eigi að koma vestan Hafnarfjalls. Vegurinn verður að ná það, sem hann nær; síðan má gera framlengingu.

Þá var það till. um Snæfellsnessbraut. Ég held, að flestir hljóti að sjá, að það sé ekki fráleitt að leggja veg þessa leið. Þar yrði bílvegur, fær allan ársins hring. Þannig væru Snæfellingum tryggðar miklu öruggari samgöngur við Borgarnes en þær eru nú á sjó, því að Sandur er ill höfn, eins og kunnugt er. Héraðið er vel til ræktunar fallið, og enginn vafi er á, að þar eru skilyrði fyrir mjög mikinn landbúnað. Þessi vegur mundi lyfta héraðinu upp. Sumstaðar á Snæfellsnesi er alveg óvenjuleg náttúrufegurð, og má telja víst, að þessi vegur yrði mjög fjölfarinn af ferðamönnum.

Þegar þetta tvennt fer saman, finnst mér þessi brtt. hafa svo mikið til síns máls, að ég mun greiða henni atkv., þó að nefndin treystist ekki til að taka hana upp. Fróðir menn segja, að vegur um þessa leið, frá vegamótum austan Straumfjarðarár, um Staðarsveit og Breiðuvík, að Hellissandi, muni ekki verða mjög dýr. Á löngum kafla a. m. k. er mjög auðvelt að leggja veg.

Annars áskil ég mér að hafa óbundnar hendur við atkvgr. um hverja og eina brtt., þó að ég hafi orðið sammála um nokkra lausn á málinu út úr nefndinni. En úr því, sem komið er, hygg ég, að fleiri till. ættu að ganga fram en þær, sem n. hefir gengið að, svo að ekki verði misrétti milli einstakra héraða.