16.04.1930
Neðri deild: 84. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. (Bjarni Ásseirsson):

Það er nú svo komið, að ég held, að ég verði að fara að bera blak af hv. Ed. Mun ég þó ekkert aftur taka af því, sem ég sagði í morgun.

Sumir hv. þm. virðast líta svo á, að Ed. eigi sem minnstu að ráða og helzt engu, en ég lít svo á, að deildirnar séu báðar jafnréttháar, þar sem þm. beggja deildanna eru rétt komnir að því umboði sem þeir fara með fyrir kjósendur í landinu. Hinsvegar er að sjálfsögðu rétt að vita það, sem Ed. rangt gerir, jafnt og víta ber mistök þessarar deildar.

Það er ekki rétt, að Ed. hafi ráðið öllu um fjárl., því að vitanlega var það þessi d., sem mótaði þau. Og ég vil benda á það, út af ýmsum þeim ummælum, sem fallið hafa, að það er fjarri sanni, að þetta sé í þriðja sinni, sem Ed. hefir síðasta orðið um fjárl. Í fyrra voru samþ. allmargar brtt. við þessa umr. hér í d., og var það því þessi d., sem þá lagði síðustu hönd á fjárl.

Hv. 2. þm. G.-K. tók að nokkru leyti svari mínu gegn ásökunum hv. þm. Ísaf., og get ég því látið mér nægja að vísa til þess, sem ég sagði í morgun, þegar ég gerði grein fyrir því, af hverju ég vildi samþ. fjárlagafrv. óbreytt, þó að ég hinsvegar telji afgreiðslu Ed. á fjárl. mjög aðfinnsluverða. Brtt. þær, sem hér liggja nú fyrir, hækka útgjöldin um 130–140 þús. kr. og minnstur hluti þeirra er þess eðlis, að ég geti mælt með þeim. Aftur á móti hefir Ed. lækkað ýmsa liði, sem ég álít, að rétt hafi verið að lækka, og þó að mér líki fjárl. ekki, finnast mér ekki hér svo miklar bætur í boði á fjárl., að það svari tíma og kostnaði að fá þær fram.

Mér láðist að drepa á styrkinn til Elliheimilisins Grundar í framsöguræðu minni. Mér hefir skilizt það svo á fjvn. Ed., að styrkurinn væri veittur í eitt skipti fyrir öll, og bæri því alls ekki að skoða hann sem rekstrarstyrk, er endurtæki sig frá ári til árs. Vildi ég fyrir hönd n. undirstrika þetta, því að það hefir komið fram hjá sumum þm., að hér mundi vera um rekstrarstyrk að ræða. Ég kemst ekki hjá því að svara hv. 1. þm. N.-M, nokkrum orðum. Hann færði það fram sem sönnun þess, að rétt hefði verið að hækka styrkinn til að gera laxastiga í Lagarfoss, að þetta væri svo tvísýnt fyrirtæki, að réttmætt væri að hafa styrkinn hærri af þeim ástæðum. Ég fæ ómögulega viðurkennt þessa röksemdaleiðslu hv. þm. Ef þetta fyrirtæki er svo tvísýnt, sem hv. þm. lætur, tel ég það þvert á móti mjög vafasamt, hvort rétt er að veita styrk til þess yfirhöfuð.

Hv. þm. vildi réttlæta styrkinn til að reisa læknisbústað í Hróarstungulæknishéraði með því, að þriðjungur héraðsbúa hefði ekki viljað vera með og leggja fram fé í þessu skyni. Væri því ríkisins að hlaupa undir bagga með þeim, sem fé hefðu lagt fram. Þetta get ég heldur ekki gengið inn á hjá hv. þm. Mér sýnist sem hér sé verið að verðlauna menn fyrir að þrjóskast, og þannig verið að gefa þeim, sem það vildu gera eftirleiðis, undir fótinn með að fá aukastyrk á þennan hátt.

Þá vildi ég víkja nokkrum orðum að hv. þm. Vestm. fyrir ummæli hans um lækkun Ed. á styrknum til Fiskifélagsins. Hann veittist mjög að Framsóknarflokknum í Ed. fyrir lækkunina. Mér er hinsvegar kunnugt um, að flokkurinn sem slíkur stóð ekki fyrir þessari lækkun, svo að ávítur hv. þm. í flokksins garð út af þessu höfðu ekki við rök að styðjast. Ég álít fyrir mitt leyti, að ekki hafi verið rétt að lækka styrkinn. En það, sem því olli, að fjvn. Ed. lagði slíkt til, mun hafa verið það, að henni þótti sem ekki kæmu öll kurl til grafar á tekjuáætlun félagsins, t. d. vextir af sjóði þess. (JJós: Forseti félagsins segir, að þetta sé alger misskilningur). Getur verið. En þetta mun hafa vakað fyrir nm. Þá fannst þeim og, að gengið væri inn á verksvið ríkissjóðs með ýmsum fjárveitingum félagsins. Verð ég að viðurkenna, að þetta sé réttmæt aðfinnsla. Og ég get ekki séð, að lækkunin sé í raun og veru svo gífurlega ranglát þegar litið er á, að félagið hefir safnað 90–100 þús. kr. í sjóð.

Get ég svo lokið máli mínu. N. leggur á móti öllum brtt., því að hún telur hæpið, að nokkuð yrði unnið við að fjárl. væru opnuð í þetta sinn.