11.03.1930
Neðri deild: 50. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2412 í B-deild Alþingistíðinda. (3232)

213. mál, skurðgröfur

Jón Sigurðsson:

. Frv. það, er hér liggur fyrir, fjallar um mál, sem er merkilegra og þýðingarmeira heldur en allur almenningur gerir sér ljóst. Eins og hv. flm. hefir nú lýst, kemur framræsla ekki aðeins að gagni þegar rækta á tún, heldur er hún engu síður nauðsynleg þegar um engjarækt er að ræða og að bæta beitarlönd bænda. Við Skagfirðingar þekkjum a. m. k., að svo hagar víða til norður þar, að veruleg túnrækt getur ekki komizt í framkvæmd nema byrjað sé á framræslunni. Og um bithaga veit ég dæmi þess, að þar sem lítið eða ekkert gras var áður, er nú eftir framræslu kominn góður valllendisgróður, þar sem ekki tekur fyrir haga, hverju sem viðrar.

Skoðun sú, sem liggur til grundvallar fyrir frv. þessu, er ekki ný, en hún er jafngóð fyrir því.

Með fjárveitingu þeirri, er Alþingi heimilaði fyrrv. stj. samkv. áskorun stjórnar áveitufél. Freys í Skagafirði til þess að kaupa fljótandi skurðgröfu 1926, var fyrsta tilraunin gerð í svipaða átt og frv. þetta ráðgerir. Skurðgrafan var keypt og hún reynd í Skagafirði. Má því segja, að þau ár, sem liðið hafa síðan, hafi verið tilraunaár. En þessi reynsla hefir, eins og hv. flm. tók fram, gefið hinn ákjósanlegasta árangur. Kostnaðurinn við hina stærri skurðagerð er kominn svo langt niður, að hver teningsmeter kostar ekki nema 20–30 aura, þegar vel gengur. Auk þess er óhugsandi að vinna þetta verk með handaflinu einu, sökum sökkvandi foraða, sem ekki er unnt að komast að eða yfir. Þar sem nú tilraunir þessara ára hafa gefizt svona vel, þá er ekki að furða, þó að frv. þetta hafi komið fram og að meira verði gert að aukinni framræslu.

Sjálfur hefi ég haft frv. í smíðum um sama efni, en nokkuð víðtækara. Ég skil ekki, hvers vegna frv. er eingöngu miðað við framræslu, en áveitur ekki teknar með, þegar þess er gætt, að þessar tvær framkvæmdir fylgjast í mjög mörgum tilfellum að. Aðaláveituskurðir standa venjulega í sambandi við framræsluskurði, sem notaðir eru að vorinu til þess að fleyta vatni frá aðaláveituskurðinum og dreifa þannig vatninu yfir áveitusvæðið. Þannig hagar til í Skagafirði og Eyjafirði og sumstaðar í Húnaþingi, að þar eru áveituskurðirnir settir í samband við fráræsluskurðina. Þegar mjög votlendarmýrar eru þurrkaðar upp, verða þær kargaþýfðar eftir fáein ár. En með því að áveita sé samfara uppþurrkuninni, helzt landið slétt og verður véltækt um ómunatíð, eða á meðan áveitan er notuð.

Þegar svo er komið, að setja á lög um þetta efni, þá finnst mér sjálfsagt að láta fara saman framræslu og áveitu þar, sem það hentar, og nota skurðgröfu til að gera hvorttveggja, enda verð ég að telja ástæðulaust, að framræslu- en ekki áveituskurðir njóti styrks úr ríkissjóði, eins og frv. ætlast til.

Um einstök ágreiningsatriði sé ég ekki ástæðu til að fara að ræða nú, þar sem ég á sæti í þeirri n., sem fær málið til athugunar.