03.02.1930
Neðri deild: 12. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

12. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Ólafur Thors:

Fjhn. var sammála um að mæla með þessu frv. — eins og hv. frsm. sagði. — Var sammála, segi ég, af því ég er ekki viss um, að n. hefði orðið það, ef þá hefði verið fyllilega komið í ljós, eða eins vel og nú er, hvert fjarmálavit hæstv. stj. situr inni með. Ég mun þó líklega ekki taka samþ. mitt aftur. En ég vil geta þess, að ég léði nafn mitt til samþ., af því mér fannst ég ekki geta riftað þeim samningum, sem þegar var búið að gera, þótt sá samningur sé að mínu viti óhagkvæmur. A. m. k. álít ég, að það hafi verið hreinn óþarfi að taka svo dýrt lán, áður en það vitnaðist, sem hér gerðist í nótt. En sjálfsagt verðum við að lúta því, sem verra er, eftir þau lánstraustsspjöll, sem leiðir af lokun Íslandsbanka.

Hæstv. fjmrh. lýsti því nokkuð við 1. umr., hver lánskjörin væru. Mér þóttu kjörin svo léleg, að ég innti eftir, hvort ég hefði heyrt rétt. En síðan hefi ég þó fullvissað mig um, að lánskjörin eru enn lélegri en hann sagði þau vera, því þetta viðskiptagjald, sem hæstv. ráðh. sagði að væri 1%, getur orðið margir % af þeirri upphæð, sem notuð er. Í dag borgum við 3½% fram yfir vexti Englandsbanka.

Ég býst við að verða að sætta mig við þetta, af því ég sé ekki, að hægt sé að rifta gerðum stj. í þessu máli, enda hygg ég, að lánstraust okkar verði ekki svo gott í framtíðinni, að auðvelt sé að banda hendi móti lánum, sem þegar eru fengin.

En ég vildi láta það sjást, að þótt ég eins og komið er sjái mér tæplega annað fært en að vera með í þessu, þá geri ég það nauðugur.