15.04.1930
Sameinað þing: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (3427)

327. mál, lóðir undir þjóðhýsi

Jón Þorláksson:

Til viðbótar því, sem hv. þm. Borgf. tók fram, vil ég segja, að þessar lóðir eru ekki líkt því eins vel fallnar fyrir þjóðhýsi og hv. flm. ímynda sér. Ég vil gera ráð fyrir, að haldið verði þeirri húsalinu, sem nú er. En þá eru lóðirnar upp að Skólastræti, einkum þó að sunnanverðu, svo mjóar, að mjög fáar tegundir þjóðhýsa geta staðið þar með góðu móti. Það er sem sé ómögulegt að koma neinum útihúsum fyrir á þessum lóðum, þegar búið er að byggja myndarlegar aðalbyggingar. Er það stór ókostur, að ekki er nógur lóðakostur bak við, eins og nauðsynlegt er að sé, þegar um byggingar þjóðhýsa er að ræða. Nú er það svo, að þessi lóðarspilda mun vera mjórri að sunnan, eða sá hluti hennar, sem nær er menntaskólanum, því Skólastræti stendur dálítið skáhallt við Lækjargötu. Er því K. F. U. M.-lóðin, sem nær að Bankastræti, breiðari og nothæfari en hinar. En þó er hún ekki nógu breið, nema fyrir einstöku tegundir opinberra bygginga.

Ég sé nú ekki, að það skipti verulegu máli, hvorki fyrir landið eða bæinn, að opinberar byggingar séu settar þarna. Og þess má vænta, að byggingarráð bæjarins sjái um það, að ekki séu reistar þarna aðrar en myndarlegar byggingar. Og bregðist það, þá hefir landsstj. íhlutunarrétt um þetta. En ég tel það óráðlegt, að ríkið sé að seilast í lóðir, sem eru svo þröngar, að þær leyfa ekki, að fullnægt sé eðlilegri þörf þeirra bygginga, sem landið vill láta reisa. Ef því koma ætti þessu í æskilegt horf, þá þarf að ganga lengra en hér er gert. Það þyrfti þá að breyta skipulagi bæjarins á þessum stað, þannig að Skólastræti falli burt og undir þessar lóðir. En ég hygg, að erfitt muni reynast að fá því framgengt. Ég er því ekkert hrifinn af því, að ríkið eignist þessar lóðir. Þær eru ekki vel fallnar til þeirrar notkunar, sem ég hygg að hv. flm. till. ætlist til.

Ég vil bæta við það, sem hv. þm. Borgf. sagði um viðaukatill., sem fer fram á eignarnám, því, að ég álit, að til þeirrar framkvæmdar liggi ekki sú almenna þörf, sem 63. gr. stjskr. heimtar, þar sem ekki er hægt að benda á, að það sé gert í sérstöku augnamiði eða vegna sérstakra framkvæmda ríkisins. Þegar af þeirri ástæðu ber að fella þessa viðaukatill.