16.04.1930
Sameinað þing: 9. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (3459)

524. mál, greiðsla á enska láninu

Jón Þorláksson:

Mér hefir þótt þessi þáltill. hljóða ákaflega undarlega. Það er almennt viðurkennt, að það er sjálfsögð skylda hverrar fjármálastjórnar að hafa vakandi auga á því, ef hægt er að ná vinning fyrir landið með því að borga eldri óhagstæð lán með nýjum lánum. Það eina, sem kemur til kasta Alþingis í þessu efni, er að veita stj. heimild til nýrrar lántöku, ef stj. tekst að finna leið til þess að fá svo ódýrt lán, að það borgi sig að greiða eldri lán. Slík heimild verður ekki veitt með þál., heldur einungis með sérstökum lögum. Þál. er því markleysa, en sýnir, að sumir flokksmenn stjórnarinnar treysta henni ekki til þess að hafa gát á því, sem annarsstaðar er talið með stjórnarstörfum, nema hún fái áminningu frá þinginu.

Ég skildi hvar fiskur lá undir steini, þegar hv. flm. las hér upp útreikningana um það, hve dýrt þetta lán hefði orðið. Hv. þm. komst að þeirri niðurstöðu, að „effektivir“ vextir hefðu orðið 9–10%, eftir því, hvernig reiknað væri. Áheyrendurnir hefðu því mátt álíta, að hér væri fundin snjallráð leið til hjálpar með þessari þál. og stj. væri heimilað að taka lán með hagstæðum vaxtakjörum til þess að greiða þetta eldra lán. En þetta tal hv. þm. sýnir, að hann hefir enga hugmynd um það, sem hann er að tala um.

Ef ég man rétt, eru vextirnir 7% og réttur er til þess að borga það upp árið 1931 með 3% ofanálagsgj. Það eru þessir vextir, sem miða þarf við, og ekkert annað, ef skera á úr um það, hvort það borgi sig að endurgreiða þetta lán með nýju láni. Þetta lán er því með 7% ársvöxtum og má greiða með 103 kr. hverjar 100 kr. nafnverðs. Þetta tal um „effektiva“ vexti um 9–10% eru því útreikningar, sem svífa í lausu lofti og eru rangir eins og hann setti þá fram.

Það er náttúrlega hægt að gera grein fyrir „effektivum“ vöxtum, ef afborgunum er haldið áfram allan tímann. En þá verður líka að taka tillit til gengisgróðans við það að breyta láninu á sínum tíma í íslenzkar kr., og þá verður önnur útkoma en hv. þm. fékk. Það er annars spaugilegt að fara að reikna út „effektiva“ vexti af láni, sem borgað verður 1931, því það kann að fara eftir því, hvað þeir peningar kosta, sem lánið er greitt með, ef talað er um „effektiva“ vexti af allri upphæðinni. En ef maður talar um „effektiva“ vexti af þeim hluta, sem búið er að borga 1931, þá er það einungis mjög lítill hluti allrar skuldarinnar.

Það getur því verið, að útkoman sé ekki mjög óhagstæð, þótt háir vextir séu af þeim hluta, sem búið verður að greiða 1931, ef „effektivir“ vextir af því, sem eftir stendur, eru nokkurn veginn hagstæðir.

Ég get skilið það, að þessi till. er hér fram komin til þess að geta núið einhverju á þá stjórn, sem framkvæmdi þá ákvörðun Alþingis, að lán skyldi tekið. Ég get ekki þagað um þetta; þegar talað er um þessa háu vexti, þótt fyrst og fremst sé sjálfsagt að taka öll gengishlutföll og reikna þau með, eins og hv. 1. þm. Skagf. benti á. Það er þó smáræði samanborið við það, að lántakan bjargaði atvinnuvegum landsins frá hruni eftir verðfallsárið 1920. Ástandið var þá þannig, að ekki var nema um tvennt að velja, annaðhvort að selja atvinnutækin úr landinu upp í skuldir eða taka lán til þess að halda rekstrinum áfram. Allir voru lánþurfar: Landsbankinn, Íslandsbanki og ríkissjóður.

Það er auðvelt fyrir þá landsmenn, sem nú geta haldið áfram blómgum atvinnuvegum eftir að þeim var bjargað með framkvæmd stj., að koma nú og ráðast á þá stjórn, sem varð að ráða fram úr þessu vandamáli, og fara nú að þyrla upp ryki með röngum útreikningum um það, hvílík óhæfa það hafi verið að samþ. þau lánskjör, sem boðin voru. Það sýnir þó lítinn drengskap, að koma nú, áratug seinna, með þessar ásakanir, þegar erfiðleikarnir eru gleymdir, af því að þetta lán fékkst, þar sem það hefir borið atvinnuvegina uppi og blómgað þá. Það var líka skýlaust, að þeir, sem sátu á því minnisstæða þingi 1921 og samþ. lög um hlutafjárauka Íslandsbanka, voru fyllilega sammála um, að óhjákvæmilegt væri að taka erlent lán til þess að bjarga atvinnuvegum landsins, og sú stjórn, sem hefði brugðizt kalli sínu, hefði verið fljót að fara yfir um. Atvinnurekendur hefðu þá orðið að selja Landsbankanum og Íslandsbanka atvinnutæki sín, bankarnir hefðu aftur orðið að selja til útlanda upp í skuldir sínar þau af tækjunum, sem seljanleg voru erlendis, fyrst og fremst fiskiflotann, og ríkissjóður sjálfur hefði lent í vandræðum.

Hæstv. fjmrh. gat þess, að það væru nokkrir erfiðleikar því samfara, að tolltekjurnar væru nefndar í þessum samningi. Ég skal ekki rengja þetta með öllu, en á meðan ég var fjmrh., varð ég ekki var við þetta. Þó kom þetta þá ekki svo mjög til, því að ekkert stórt erlent lán var tekið á þeim tíma. En þegar gera á upp um það, hvernig lánstraust landsins er í heild sinni nú, þá eru lánskjörin haustið 1921 ekki nema eitt atriði, og það í raun og veru ekki stórt atriði. Það er svo margt annað, sem að er spurt. — Það er ákaflega auðvelt að spilla lánstrausti þjóðar, sem svo er sett sem íslenzka þjóðin, en það er erfiðara að vinna lánstraustið upp. Það hafa gerzt margir viðburðir og sumir á þessu þingi, sem sýna ljóslega, að núv. stj. er ekki ljóst, hvað gera þarf til þess að halda lánstraustinu í góðu horfi. Hér er ýmislegt samþ. og ákveðið að nauðsynjalausu, sem verður til þess að spilla fyrir lánstrausti landsins, og ég er ákaflega hræddur um það, að nú á næstu árum verði mikið um það rætt erlendis, ef leitazt verður eftir lánum, hvernig skilizt var við málefni Íslandsbanka.

Það er þá fyrst, að atvinnuvegir landsins hafa notið þess fjár, sem hluthafarnir hafa lagt í þann banka. Þetta fé hefir tapazt hér á Íslandi, og er það þjóðinni til álitshnekkis. En svo glymja hér raddir Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins um, að ekkert geri til, þótt þetta fé tapist, því það sé eign útlendinga. Af þessu mun íslenzka þjóðin fá það ámæli að almannadómi í útlöndum, að hún verðskuldi ekki traust í fjármálum. Og í útvegsbankalögunum er nú ákvæði um það, að gamla hlutaféð skuli strikað út og skoðað sem einskis virði án þess að lögfullar sannanir hafi verið færðar fyrir því. Það er sama, hve sterkar líkur eru fyrir því, að þetta hlutafé sé orðið einskis virði. Út á við skoðast það sem ábyrgðarleysi og að þjóðin láti sér á sama standa um, hvernig fer um þetta hlutafé, fyrst útlendingar eiga það. Með einni lagagr. er réttur hluthafanna úr gildi felldur. Það var þó alveg óþarft að fara svo að, því svo sem venja er með siðuðum þjóðum, er það ákveðið með löglegu mati, hvort eignir séu nokkurs virði eða ekki. Á útibúum bankans hefir farið fram mat eins manns, og væri það hvergi gilt tekið, hvað sem álitið yrði um matið á aðalbankanum.

Þá hefir heldur enginn umboðsmaður frá hluthöfum komið fram við þetta mat, svo sem tilskilið er með lögunum um framkvæmd eignarnáms. Þetta er ekki vel til þess fallið að auka lánstraust landsins út á við.

Ég ætla því að bera hér fram rökstudda dagskrá, þar sem ég lýsi afstöðu minni til þessa máls. Ég vona, að þeir hv. þm. geti aðhyllzt hana, sem vilja líta á þessa till. öðruvísi en sem áreitni við núverandi stjórnarandstæðinga. Ég mun nú leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa dagskrártill. mína, og hijóðar hún svo — með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem það verður að teljast sjálfsögð skylda stjórnarinnar að hafa vakandi auga á því, hvort unnt sé að breyta eldri lánum ríkissjóðs í hagkvæmari ný lán, þykir Alþingi óþarft að samþykkja ályktun um þetta og tekur fyrir næsta mál á dagskrá“.