12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

1. mál, fjárlög 1931

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég get reyndar tekið til máls, ef forseti óskar þess, að umr. sé haldið áfram nokkra hríð. En ég verð nú að byrja á því að fá mér vatn að drekka; vona ég, að hæstv. forseti misvirði það ekki við mig. Ég hefði óskað þess, að a. m. k. nokkur hluti hv. fjvn. væri hér viðstaddur til þess að heyra á mál mitt. Ég á hér brtt. á þskj. 260, XVI., sem ég vil nú gera grein fyrir með nokkrum orðum. (HK: Ekkert liggur á; við skulum fara rólega).

Fyrri liður brtt. minnar er þess eðlis, að ég hefði óskað, að a. m. k. hv. frsm. fjvn. væri til staðar, til þess að heyra þau rök, er ég vil flytja fram til stuðnings þeim lið. Hinsvegar er um b-lið till. að segja, að þar er farið fram á 1200 kr. styrkveitingu til Sigurbjargar Sveinsdóttur, til framhaldsnáms í blindraskóla í Kaupmannahöfn. Þessari stúlku var í fjárlögum 1928 veittur styrkur til þess að læra blindraiðn í Kaupmannahöfn. Var það flutt af hæstv. stj. og að hennar undirlagi tekið upp í fjárl. það ár. Þessi stúlka er nú 29 ára að aldri og hefir verið blind frá fæðingu. Hefir hún engrar kennslu notið, er komið geti henni að praktískum notum, enda er enginn slíkur skóli hér á landi. Þess vegna var þess brýn þörf að útvega henni aðgang að heimili fyrir blindar konur, en slíkt heimili er í Kaupmannahöfn, og þar hefir hún dvalið síðan í sept. 1928, eða alls um 18 mánuði. Nú hefir forstöðukona heimilisins nýlega skrifað bróður þessarar stúlku og skýrt frá því, að nú væri hún byrjuð að kenna þessari stúlku á prjónavél, en það verk álítur hún, að sé heppilegast að láta hana læra. En hún verður ekki fullnuma í því fyrr en í lok þessa árs. Nú er högum þessarar stúlku þann veg háttað, að með öllu er óhugsandi, að hún geti af eigin rammleik staðið straum af slíku námi. Hún er efnalaus með öllu; á enga ættingja, sem eru þess megnugir að leggja nokkuð af mörkum, svo að einhlítt sé. Það er þess vegna ekki um nema tvennt að ræða fyrir hana: Að hætta þessu námi í miðjum klíðum, eða þá að fá tilstyrk til þess af hálfu hins opinbera, úr bæjarsjóði eða úr ríkissjóði. Á heimili því, sem hún dvelur nú á, þarf hún að greiða 100 ísl. kr. á mánuði, og nú sem stendur á hún ógreiddar um 300 kr., sem henni ber að greiða á þessu ári og innan skamms. Ef hún fær þessar 1200 kr., sem hér er farið fram á, þá mun láta nærri, að hún geti lokið þessu námi. Tel ég tæplega vansalaust af Alþingi að svipta nú þessa stúlku öllum styrk, eftir að hafa byrjað að styrkja hana. Þá er verr farið en heima setið. Ég skal í þessu sambandi benda á það, að hv. fjvn. mun hafa litið svo á, að styrkur til kennslu blindra barna gæti innifalið slíka fjárveiting sem hér er farið fram á. Þetta er þó alls ekki rétt, sem meðal annars sést á því, að stj. tók þessa stúlku upp í fjárl. sérstaklega, í stað þess að auka fjárveitinguna til kennslu blindra barna sem því næmi. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þessa till., enda er svo fámennt í deildinni, að varla er fundarfært. Þó skal ég geta þess, að faðir þessarar stúlku er bláfátækur, heilsuveill og ekki þess umkominn að styrkja hana neitt. Sama er að segja um bræður hennar; tveir þeirra eru ungir, en tveir uppkomnir, kvæntir og bláfátækir. Um styrk getur því alls ekki verið að ræða úr þessari átt. Læt ég svo ekki fleiri orð fylgja þessari till. minni að svo stöddu.

Ég vil annars benda hæstv. forseta á, að nú eru einungis tveir þm. í deildinni auk okkar, og mér finnst satt að segja hálfömurlegt að tala yfir auðum stólunum. Ég á eftir að tala langt mál, en kæri mig alls ekki um það, ef engir hv. þm. eru til þess að hlusta á mál mitt. Ég vil því skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki væri rétt að fresta umr. að þessu sinni. Ég sé, að hæstv. forseti ætlar að svara mér, svo að ég læt því máli mínu lokið að svo stöddu.