17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í D-deild Alþingistíðinda. (3524)

388. mál, varnir gegn berklaveiki

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Til skýringar þessu máli vil ég taka fram, að þetta er ekki nýr skoðanamunur, þó að hann sé nokkuð mismunandi frá ári til árs. Áður en stjórnarskiptin urðu, var skoðanamunur milli þáv. ríkisstj. og „praktiserandi“ lækna um það, eftir hvaða taxta bæri að borga þeim. Sú deila hélt áfram, og þegar núv. stj. tók við, áleit hún rétt að borga þeim eftir taxta embættislækna. Margir voru þó óánægðir, og má vel vera, að þeir eigi eftir að fara í mál við landið.

Nú eru það sjúkrahúsin gegn landsstj. og landlækni. — Ég ætla fyrst að víkja að því eina, sem ég er sammála hv. flm. um, og það er, að ef sjúkrahúsin halda áfram sama skoðunarhætti, þá hlýtur þetta að verða dómstólamál, og alveg eins þó að hv. Nd. segi eitthvað. Reyndar er það hæstv. fors.- og atvmrh., sem á að svara til um þetta, en ég get sagt hv. þm., að það er alveg tilgangslaust að eyða tíma til að afgreiða málið nú, af því að hér er það ekki sótt á réttum vettvangi.

Þessum málum er þannig fyrir komið í stjórnarráðinu, að landlæknir og heilbrigðismáladeild stjórnarráðsins hafa eftir gamalli venju rétt til að ákveða hámark dagpeninga, en atvmrh. á að framkvæma. Í vetur lagði svo landlæknir til að borga ekki nema 5 kr. á dag fyrir hvern sjúkling á spítölum, sem bæjarfélög eða einstakir menn reka. Ég vildi skjóta því til hv. flm. að leggja fram skýrslu frá merkum spítalalækni, Steingrími Matthíassyni á Akureyri, til að sýna, hvernig hlutskipti sjúkrahúsanna hefir verið. Skýrslan birtist fyrir skömmu í blaðinu Íslendingi á Akureyri. Læknirinn segir þar, að spítalinn hafi hagnazt mikið einmitt á berklasjúklingunum, þó að hann kvarti heldur, ef meðlagið eigi ekki að vera hærra en 5 krónur. Þarna er frumsönnun, hana er ekki hægt að hrekja, og það er einmitt þetta, sem landlæknir byggir á, þegar hann segir, að gjaldið hafi verið of hátt hingað til. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp bréf landlæknis til atvmrn., dags. 8. apríl 1930:

„Út af bréfi hins háa atvinnumálaráðuneytis, dagsettu 5. þ. m., er þetta að segja frá minni hálfu:

1. Álit ráðuneytisins, er lýsir sér í annari málsgrein bréfsins, er alveg rétt. Heilbrigðisstjórnin ætlar, að sjúkrahúsin geti yfirleitt sér að skaðlausu tekið berklasjúklinga fyrir 5 kr. meðgjöf á dag, ef þau eru rekin með fullri ráðdeild. Því til sönnunar vil ég geta þess, að rekstrarkostnaður í Kristnesi 1929 varð ekki nema 3.93 kr. á legudag, og þar eru í talin öll útgjöld, laun læknis og hvað eina, og enda taldir með, — sem ekki er rétt —, 3000 kr. vextir af láni. Á Vífilsstöðum varð rekstrarkostnaðurinn 1929 4.72 kr. á legudag. Það er því miklu fremur líklegt, að sjúkrahúsin geti hagnazt á berklasjúklingunum, ef þau eru rekin með fullri ráðdeild, og 5 kr. gjaldið því of hátt. Er það alveg rétt, sem atvmrn. segir, „að heilbrigðisstjórnin hafi ætlazt til, að sjúkrahús gættu yfirleitt meiri hagsýni í rekstri sínum en verið hefir“.

2. Þá er það engum efa bundið, að heimild 14. gr. berklavarnalaganna til að setja hámarksgjald í sjúkrahúsum nær til allra sjúkrahúsa. Lögin gera enga undantekningu í því efni.

Sum af þessum sjúkrahúsum eru rekin á opinberan kostnað, eru eign bæja eða sveita (læknishéraða). Ein fjögur, — St. Josephsspítalarnir í Reykjavík og Hafnarfirði, hressingarhælið í Kópavogi og berklahæli Hjálpræðishersins í Hafnarfirði, — eru eign félaga, og þau ein hafa hingað til ekki fengið neinn rekstrarstyrk, enda ekki sótt um þann styrk.

En ég er fús að mæla með því, að einnig þessi sjúkrahús verði tekin til greina, þegar rekstrarstyrk er úthlutað, vitanlega að því tilskildu, að þau sendi glögga rekstrarreikninga á ári hverju.

Ég sé því ekki minnstu ástæðu fyrir hið háa atvmrn. til að breyta að neinu leyti úrskurðum sínum í bréfum dagsettum 8. febr. þ. á. til sjúkrahúsa, héraðslækna og sýslumanna, bæjarstjóra og borgarstjórans í Reykjavík.

G. Björnson.“.

Í þessu máli hefir landlæknir tekið fram stuttlega helztu rök sín og heilbrigðisstjórnarinnar. Vegna þeirra hv. þdm., sem hafa ekki átt við þessi mál, vil ég skýra, hvaða rekstrarstyrkur það er, sem nefndur er í niðurlagi bréfsins. Það hafa verið einar 20 þús. kr., sem landlæknir hefir skipt sem ríkisstyrk milli ýmissa sjúkrahúsa á landinu. Hann segir einmitt, að sum þessara sjúkrahúsa hafi ekki óskað neins styrks. Það eru sjúkrahús bæjarfélaga og læknishéraða, sem hafa notið hans.

Mér er kunnugt um, að landlæknir hafði sagt við lækninn á Ísafirði, að af því að spítalinn þar væri betur búinn en Akureyrarspítali og sum önnur sjúkrahús, gæti hann jafnað muninn með ríkisstyrk til hans og hinna fullkomnari spítala. Það mun hann hafa reynt, og það er svo langt frá því, að þeim spítala hafi verið sýnd ósanngirni.

Þegar nú kostnaðurinn á legudag á Kristneshæli er heilli krónu undir því, sem borgað er til sjúkrahúsanna, og á Vífilsstöðum þó nokkru neðan við 5 kr. á dag, þá er það hart að hugsa sér, að borga eigi ótakmarkað eftir því, sem hver óskar í ófullkomnari berklahælum. Ef þingið ákvæði með lagabreytingu, að borga skuli hverju sjúkrahúsi eftir reikningi, þá væri sannarlega komið út á hálan ís. Þá hefðu sjúkrahúsin litla hvöt til að fara sparlega með efnin.

En með því að miða við Vífilsstaði, sem eru elzti og stærsti spítalinn, sem hefir þessa sjúklinga undir höndum, og hefir engan jarðhita, engin náttúrugæði, sem geta gert vistina þar sérstaklega ódýra, — þá virðist landlæknir standa með skoðun sína á svo sterkum grundvelli, að hann þoli alla gagnrýni.

Annars eru allar umr. tilgangslausar, vegna þess að þáltill. breytir ekki skilningnum á berklavarnalögunum.